[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Diamond Suites, fyrsta fimm stjörnu hótel landsins, verður opnað formlega í Keflavík 17. maí næstkomandi.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Diamond Suites, fyrsta fimm stjörnu hótel landsins, verður opnað formlega í Keflavík 17. maí næstkomandi. Hótelið er á efstu hæð Hótel Keflavíkur, sem er fjögurra stjörnu hótel, en sama dag og áðurnefnd opnun fer fram fagnar hótelið gamalkunna 30 ár afmæli sínu.

Steinþór Jónsson er eigandi og hefur verið hótelstjóri frá upphafi. Stofnaði hann hótelið á sínum tíma ásamt foreldrum sínum, Jóni William Magnússyni og Unni Ingunni Steinþórsdóttur, en það hefur verið rekið frá upphafi sem fjölskyldufyrirtæki.

„Diamond Suites er svokallað „lúxus boutique hótel“ með einstakri hönnun og íburði sem þekkist ekki á hótelum hér á landi,“ segir Steinþór í samtali við Morgunblaðið og bendir á að þar megi meðal annars finna fundaraðstöðu fyrir 6 til 60 manns, 700 fermetra líkamsræktarstöð, sem er sú stærsta sem fyrirfinnst á hóteli í Evrópu, og hágæða veitingastað þar sem Jenný Rúnarsdóttir, MasterChef-kokkur, ræður ríkjum.

Rúm skreytt kristölum

Diamond Suites býður upp á lúxussvítur eingöngu. Þær eru 30 til 280 fermetrar að stærð, en á neðri hæðum hótelsins má finna junior-svítur og fleiri gistirými.

„Við höfum hvergi sparað þegar kemur að lúxus og þægindum. Öll húsgögn, tæki og efniviður hafa verið sérinnflutt og valin eftir hæstu stöðlum. Hvert rými er sérhannað og engin tvö herbergi eru eins. Í einu herberginu er t.d. rúm sem gert er af spænskum listamanni og tók 15 vikur að handskera úr einum viðarbúti. Og svo er annað úr hvítu leðri skreytt Swarovski-kristölum,“ segir Steinþór og heldur áfram: „En í hverju herbergi er mismunandi hönnun og upplifun um leið. Hvert herbergi býður upp á okkar stöðluðu þægindi, eins og nuddbaðkör frá Duravit, hágæða sturtuhausa með Led-lýsingu, iMac-borðtölvu og Bang&Olufsen-sjónvörp og hljómflutningskerfi.“

Til stendur að reisa á næstunni fimm stjörnu hótel við Hörpu í Reykjavík. Spurður hvort hann óttist samkeppni kveður hann nei við.

„Þegar maður er fyrstur verður maður að fagna samkeppni og er það mér tilhlökkunarefni að fá fleiri fimm stjörnu hótel á markaðinn því í sameiningu köllum við á fleiri gesti til landsins sem óska eftir ákveðnum gæðum. Við getum, vegna smæðar hótelsins, leyft okkur að fara lengra en aðrir í gæðum,“ segir hann og bendir á að hvert rými sé einstakt þar sem boðið sé upp á sérhannaðar upplifanir sem ekki sé hægt að gera í stöðluðu ferli hjá stórum hótelum.

Í nálægð við einstakar perlur

Steinþór segir að staðsetning hótelsins henti fjölmörgum erlendum gestum og vísar þá til nálægðarinnar við Keflavíkurflugvöll, höfuðborgina, Bláa lónið og Reykjanesið, sem sé einstök náttúruperla.

Aðspurður segir Steinþór bókanir ganga afar vel og hafi þær í raun komið nokkuð á óvart. „Þar sem þrjú herbergi hafa verið tilbúin í nokkurn tíma höfum við ákveðið að taka á móti gestum í þeim fjölda sem við ráðum við til þess að prófa okkur áfram, sem og að þjálfa starfsfólkið. Í endann er það þjónustan sem mun skapa okkur sérstöðu,“ segir Steinþór og bætir við: „Þrátt fyrir allt sem við höfum lagt í hönnun og glæsileika ætlum við fyrst og fremst að geta státað af bestu þjónustu sem völ er á.“