Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason var áfram á skotskónum með Basel í gærkvöld þegar liðið vann Lugano auðveldlega á útivelli, 4:1, í svissnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Birkir Bjarnason var áfram á skotskónum með Basel í gærkvöld þegar liðið vann Lugano auðveldlega á útivelli, 4:1, í svissnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þetta var ellefta mark Birkis fyrir félagið í vetur en þar af eru átta í deildinni og þrjú í Evrópudeild UEFA. Aðeins austurríski landsliðsframherjinn Marc Janko hefur gert fleiri mörk fyrir Basel í vetur, tuttugu talsins, og þar af sextán í deildinni.

Basel stefnir hraðbyri á meistaratitilinn en liðið er með átján stiga forskot á næsta lið, Young Boys, þegar níu umferðum er ólokið. Birki og félögum dugir að vinna fjóra af síðustu níu leikjunum til að vera 100 prósent öruggir með titilinn, sem yrði sá sjöundi í röð hjá félaginu.

*Theódór Elmar Bjarnason skoraði líka mikilvægt mark í gær en hann gerði fyrra mark AGF sem vann AaB 2:0 á útivelli í fyrri undanúrslitaleik liðanna í dönsku bikarkeppninni. Elmar og samherjar standa því vel að vígi fyrir seinni leikinn sem verður á heimavelli þeirra í Árósum í næstu viku. vs@mbl.is