Alvarlegt grín Jan Böhmermann sakaði Erdogan um mök við dýr.
Alvarlegt grín Jan Böhmermann sakaði Erdogan um mök við dýr.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýska vikublaðið Spiegel hefur gagnrýnt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, harkalega vegna viðbragða hennar við máli þýsks sjónvarpsgrínista sem móðgaði forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.

Þýska vikublaðið Spiegel hefur gagnrýnt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, harkalega vegna viðbragða hennar við máli þýsks sjónvarpsgrínista sem móðgaði forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.

Þýskir saksóknarar hófu í vikunni sem leið rannsókn á máli grínistans Jans Böhmermann, sem las háðsádeiluljóð um Erdogan í sjónvarpi. Forsetinn er þar m.a. sakaður um að hafa haft kynmök við geitur og kindur og viðurkenndi grínistinn að hann hefði líklega farið út fyrir lagaleg mörk málfrelsisins.

Þýsk yfirvöld íhuga nú beiðni stjórnvalda í Tyrklandi um að sækja Böhmermann til saka í Þýskalandi fyrir móðgun við erlendan þjóðhöfðingja. Málið varð til þess að Angela Merkel kanslari var sökuð um að beygja sig í duftið fyrir Erdogan til að friða hann vegna samkomulags sem Evrópusambandið náði við Tyrki 18. mars um aðgerðir til að draga úr flóttamannastraumnum til ríkja sambandsins.

„Ömurleg framganga“

Spiegel segir að framganga Merkel í máli Böhmermanns hafi verið „ömurleg“ og sýni að hún valdi ekki lengur því hlutverki að stjórna landinu. Fyrstu viðbrögð Merkel hafi verið þau að láta talsmann sinn lýsa því yfir að ljóð Böhmermanns hafi verið „vísvitandi móðgandi“ í stað þess að verja málfrelsi hans eins og ætlast mætti til af kanslaranum, sem bæri skylda til að verja stjórnarskrá Þýskalands. Henni hafi orðið á mistök sem geti að lokum kostað hana kanslaraembættið. „Kanslarinn þarf nú að ákveða hvort heimila eigi þýskum saksóknurum að höfða mál fyrir móðgun við erlendan þjóðhöfðingja – en þar sem hún hefur þegar látið talsmann sinn segja að ljóðið sé „móðgandi“ hefur hún mjög lítið svigrúm til að snúa sig út úr vandræðunum.“