Lögfræðingur Á Claudia eftir að fá samviskubit?
Lögfræðingur Á Claudia eftir að fá samviskubit?
Dönsku þættirnir Svikamylla (Bedrag) sem RÚV sýnir á sunnudagskvöldum eru sérlega spennandi. Búið er að sýna fimm þætti af tíu og hefur spennan farið stigvaxandi.

Dönsku þættirnir Svikamylla (Bedrag) sem RÚV sýnir á sunnudagskvöldum eru sérlega spennandi. Búið er að sýna fimm þætti af tíu og hefur spennan farið stigvaxandi. Þættirnir segja frá tveimur lögreglumönnum, Mads og Alf, sem koma hvor úr sinni áttinni, sá fyrrnefndi beitir óhefðbundum aðferðum en sá síðarnefndi er vanur að vinna með tölur og vill heldur fara eftir bókinni. Alf leitar til Mads vegna þess að aðferðir hans virka ekki. Hann vill afhjúpa Energreen, orkufyrirtæki sem hann telur gerspillt, en hefur ekki tekist að sanna það. Smám saman afhjúpast að hann hefur rétt fyrir sér en það er langt í frá að öll brotin séu komin á sinn stað enn.

Hjá Energreen er yfirlögfræðingurinn Claudia Moreno í forgrunni. Hún er ung og metnaðarfull, vílar ekki fyrir sér að segja upp hópi af fólki og gera allt sem þarf að gera. Hún hefur trú á fyrirtækinu og vill standa sig í starfi. Síðasti þáttur endaði hins vegar með hræðilegum örlögum einnar persónunnar og verður forvitnilegt að komast að því hvernig Claudia bregst við; hvort hún sökkvi dýpra ofan í svikafenið eða fái samviskubit.

Inga Rún Sigurðardóttir

Höf.: Inga Rún Sigurðardóttir