Stjórnmálamönnum ber að leiða heilbrigða umræðu en hrekjast ekki fyrir goluþyt

Á „samfélagsmiðlum“ og víðar á neti fer fram öflug en óskipuleg tilraun til að auka ruglandina í almennri umræðu. Það gerir lítið til á meðan talið heldur sig á gráu svæði, enda gera fæstir þátttakenda neitt með galgopalegar fullyrðingar og hleypidóma, sem litið er á sem nútímalegan samkvæmisleik. En finni endaleysan sér farveg út af vernduðu svæði og inn í almenna umræðu lýtur hún sömu lögmálum og flensa með hitaköstum og skyndilosun í báðar áttir.

Það er eftirtektarvert að meðgöngutími smitsins er nánast sá sami og í tilviki flensunnar og lyf gagnslaus. Ekki eru þekkt bóluefni við umræðuflensu. Einu úrræðin eru því að forðast smitsvæði, gæta ýtrasta hreinlætis og bíða pestina af sér.

Almenn umræða sem þeir virku taka yfir verður fljótt skaðleg. Og hún veldur varanlegum skemmdum taki fjölmiðlar, gegn betri vitund, hana alvarlega. Ástandið versnar enn þegar kjörnir trúnaðarmenn færa endileysuna áfram.

Eins og sást af íslenska afbrigðinu af Panamaskjala-þjófnaðinum, þar sem smælki þýfis var dreift í skipulögðum skömmtum, misstu ýmsir vald á bæði umræðu og atburðarás. Þannig var rætt út og suður hvar valdheimildir þingrofs liggja, svo að það sem áður þótti ljóst í þeim efnum hefur enga handfestu lengur. Eftir að manngerður stormur stýrði straumunum flutu margar furðukenningar um í mannheimum, sem venjulega halda sig í iðrum athugasemdakerfa og er gætt þar af „virkum“ í þeim. Hinir virkustu af virkum eru fyrir löngu komnir með mótefni gegn eituráhrifum af endaleysu, og hinir öflugustu ónæmir með öllu. Smáskammtur af heilbrigðri skynsemi veldur þeim í versta falli útbrotum og kláða, sem gengur fljótt yfir.

Furðu fljótt tóku „fjölmiðlamenn“ sem hættast er við og kjörnir fulltrúar sömu gerðar að líta á upphlaupið sem eina grein viðurkenndra hlaupaíþrótta sem upphefð væri af að taka þátt í. Þeir hlupu því glaðbeittir með, þótt von um verðlaunasæti sé lítil þegar svo margir virkir keppa.

Birgitta Jónsdóttir náði þó góðum árangri. Hún setti persónuleg met þessa dagana, bæði í grunnri og djúpri laug, sem er þó mun algengara í sundíþróttum en í langhlaupi.

Meðal annars sagði hún að stjórnarflokkarnir hefðu „framið valdarán“ þegar þeir héldu stjórnarsamstarfi áfram. Birgitta útfærði ekki kenningu sína nánar. Ekki er því vitað hvort að hún telji að 25 þingmenn verði fleiri en 38 þingmenn séu skoðanakannanir hagfelldar minnihlutanum það augnablikið. Birgitta gat þess heldur ekki frá hverjum völdunum var rænt.

Á miðju síðasta kjörtímabili missti þáverandi ríkisstjórn þingmeirihluta sinn, eins og m.a. þingmennirnir Sigríður Inga Ingadóttir og Össur Skarphéðinsson hafa viðurkennt. Stjórnin sat þó sem fastast í tæp tvö ár.

Þá hefði Birgitta getað talað um „valdarán“ svo vit væri í. En þá hentaði það ekki. Hreyfingin, sem Birgitta sat á þingi fyrir, hafði þurrkast út í könnunum. Hún varð því að finna nýja fleytu og Píratar réttu henni krók sem hún greip fegins hendi.

Ekki má gleyma því að á niðurlægingarskeiði íslenskra stjórnmála voru ríkisstjórn og þingmeirihluti hrakin frá völdum „með hávaða, sóðaskap og skemmdarverkum úti á Austurvelli“. Það væri varanleg afskræming á lýðræðinu ef sú ömurlega undantekning í sögu lýðveldisins yrði gerð að reglu. Kosningar eiga að fara fram eftir eitt ár. Talsmenn stjórnarmeirihlutans tóku raunar án ástæðu að impra á öðru. Kjósa má í haust, var sagt, án skýringa. En þegar því var sleppt að færa dagsetningu inn á almanakið hófust stjórnlaus ærsl og óp í þingsalnum. Og eins og er vani höfðu ærsl og uppnám ekki staðið lengi þegar tekið var að hafa í hótunum

Þannig sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata:

„Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.“

Þingflokkskapteinn Pírata hótaði því beinlínis að yrði ekki stjórnarskrá lýðveldisins brotin myndi stjórnarandstaðan sjá til þess að löggjafarþingið yrði óstarfhæft.

Með þessum orðum er raunverulega verið að hóta valdaráni, sem ekki var gert í ímyndunartilviki Birgittu. En sjálfsagt telur hún, kapteinn flokks sem kennir sig við sjórán, að valdarán og sjórán séu grunnstoðir lýðræðisins. En á hinn bóginn megi að ósekju gera hróp og hafa í frammi hótanir byggist stjórnarhættir landsins á stjórnarskránni.