[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lizu Marklund. Ísak Harðarson þýddi. Kilja. 362 bls. Mál og menning 2016.

Liza Marklund hefur skemmt lesendum með frásögnum af blaðakonunni Anniku Bengtzon á sænsku frá 1998 (fyrsta bókin á íslensku kom út fyrir um 15 árum) og sagt er að 11. bókin, Járnblóð , sé sú síðasta í röðinni. Það má vel vera og vissulega er kjörið tækifæri nú að setja punkt, að hætta á toppnum, en ekki kæmi samt á óvart ef Annika birtist á ný.

Spennusagan Járnblóð er fyrst og fremst uppgjör Anniku við fortíðina, allt frá því hún hóf sumarafleysingarstörf við Kvöldblaðið. Gamalt, óupplýst mál angrar hana, hún á í erfiðleikum með að yfirstíga ákveðin kaflaskipti í lífinu og framundan eru merkileg tímamót í sænskri blaðaútgáfu, sem valda henni hugarangri. Samfara þessu gengur ýmislegt á í nærsamfélaginu og eins og oft áður má segja að hún gangi á tifandi tímasprengju.

Annika er langt því frá sátt við allt í uppeldinu og upprifjun á hinu liðna gerir henni erfitt fyrir. Hún á erfitt með að horfast í augu við staðreyndirnar og leitar sér aðstoðar eins og fleiri. Þetta persónulega uppgjör er sem rauður þráður í gegnum söguna, en sakamál líðandi stundar eru aldrei langt fjarri.

Þetta er sennilega besta bók Lizu Marklund. Þræðirnir leynast víða og alla ber þá að sama brunni, uppgjörinu. Fólk fæðist inn í ákveðinn heim til sjávar og sveita og síðan er það ekki síst undir umhverfinu komið hvernig til tekst í lífinu. Höfundur speglar þetta vel, kafar undir yfirborðið, persónusköpunin er góð og margir fá sínu framgengt, þó réttlætinu sé ekki alltaf fullnægt.

Steinþór Guðbjartsson