Verðmæti Talið var að Ganz-fjölskyldan hefði selt þetta verk eftir Picasso fyrir 31,9 milljónir dala en Panamaskjöl sýna að Joe Lewis seldi.
Verðmæti Talið var að Ganz-fjölskyldan hefði selt þetta verk eftir Picasso fyrir 31,9 milljónir dala en Panamaskjöl sýna að Joe Lewis seldi. — AFP
Meðal þess sem skjölin sem lekið var frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama hafa leitt í ljós er að aflandsfélög hafa verið notuð til að fela eignarhald á verðmætum listaverkum.

Meðal þess sem skjölin sem lekið var frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama hafa leitt í ljós er að aflandsfélög hafa verið notuð til að fela eignarhald á verðmætum listaverkum. Samkvæmt The New York Times hefur þó ekki verið sannað að þessi huldufélög hafi verið notuð, eins og sumir telja, til að leika á myndlistarmarkaðinn, komast hjá skattgreiðslum eða „þvo“ peninga.

Fyrir níu árum var safn módernískra meistaraverka sem Ganz-hjónin í New York höfðu safnað selt á uppboði hjá Christie's fyrir metfé, 206,5 milljónir dala. Um 25 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Panamaskjölin sýna að verkin voru ekki seld beint af Ganz-fjölskyldunni, eins og talið hefur verið, heldur að breski kaupsýslumaðurinn Joe Lewis, eigandi knattspyrnuliðsins Tottenham FC, hafði leynilega keypt allt safnið í gegnum aflandsfélag nokkrum mánuðum fyrr. Listaverk eftir Picasso, Jasper Johns, Frank Stella og fleiri. Lewis, sem mun sjálfur vera ástríðufullur safnari, keypti alls 118 myndlistarverk fyrir 168 milljónir dala og hagnaðist því verulega á sölunni án þess að nafn hans kæmi fram.

Dýrust voru tvö verk eftir Picasso; Draumurinn frá 1932 var slegið hæstbjóðanda fyrir 48,5 milljónir dala og Konurnar frá Alsírborg (Útgáfa 0) fyrir 31,9 milljónir. Það reyndist góð fjárfesting fyrir kaupandann því á dögunum var það selt aftur fyrir nær 180 milljónir dala.

Panamaskjölin sýna einnig að rússneski milljarðamæringurinn og myndlistarsafnarinn Dmitry E. Rybolovlev, sem hefur keypt verk eftir Da Vinci og fleiri snillinga fyrir meira en tvo milljarða dala, 250 milljarða kr., færði eignarhaldið á listaverkasafni sínu á aflandsfélag þegar hann stóð í skilnaði árið 2008, til að eiginkonan gæti ekki gert kröfu í þau.

Þá hefur franskur ríkisborgari í nokkur ár árangurslaust krafist þess að sér verði skilað verðmætu málverki eftir Modigliani sem hann segir nasista hafa rænt af afa sínum. Verkið var keypt árið 1996 af félagi sem er skráð í Panama og ekki hefur reynst unnt að gera kröfu á, en nú sýna skjölin að það er í eigu Nahmad-fjölskyldunnar, sem rekur víðkunn gallerí víða um lönd, og er í geymslu í Sviss. Saksóknari þar í landi hefur nú krafist þess að verkinu verði skilað. efi@mbl.is