[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Gísli Halldór Magnússon í Ytri-Ásum sá þrjátíu ára starf að uppgræðslu og ræktun verða að engu í hamfarahlaupinu í Skaftá • Veit ekki hvort hann treystir sér til að byrja upp á nýtt • Áætlað að flóðið hafi farið yfir 7.

• Gísli Halldór Magnússon í Ytri-Ásum sá þrjátíu ára starf að uppgræðslu og ræktun verða að engu í hamfarahlaupinu í Skaftá • Veit ekki hvort hann treystir sér til að byrja upp á nýtt • Áætlað að flóðið hafi farið yfir 7.000 hektara lands í afrétti og byggð og skilið eftir þykkt lag af jökulaur og eðju

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að byrja aftur. Mér endist ekki ævin til að koma þessu í samt lag. Hvar á ég að byrja? Hvenær á ég að byrja?“ segir Gísli Halldór Magnússon, bóndi í Ytri-Ásum í Skaftártungu. Hann er einn af þeim bændum sem glíma við afleiðingar hlaupsins mikla í Skaftá síðastliðið haust. Af einstökum bújörðum varð mesta tjónið á Ásajörðunum.

Skaftárhlaupið var það langstærsta á sögulegum tíma. Það flæmdist yfir stórt svæði. Landgræðslan áætlar að það hafi farið yfir um 7.000 hektara lands. Eftir situr þykkt lag af jökulaur og eðju á landi sem ýmist var algróið eða þakið sandi frá fyrri hlaupum.

Sér eftir 30 ára streði

Gísli Halldór hefur unnið að uppgræðslu og skógrækt á landi ríkisjarðarinnar frá því hann hóf þar búskap fyrir rúmlega þrjátíu árum. Hann vann að þessu með fyrrverandi konu sinni, Ástu Sverrisdóttur, og í samvinnu við Landgræðsluna. Hann segir að tjónið sé tvíþætt. Mikið landbrot var í hlaupinu og hvarf töluvert af ræktuðu landi og beitilandi. „Ég sé líka á eftir streði síðustu þrjátíu ára. Ég hafði að vísu ekkert kaup við þessa vinnu en ætlaði að skila jörðinni af mér í ekki verra ástandi en ég tók við henni. Ég er hræddur um að ég hefði fengið bágt fyrir ef ég hefði gengið um hana á sama hátt og náttúruöflin hafa nú gert,“ segir hann.

Tekur Gísli Halldór fram að hann hugsi eins og indíáni. Hann líti svo á að hann sé með landið að láni. „Því miður hugsa margir bændur og landeigendur eins og þeir séu síðustu ábúendurnir.“

Stóra jökulflóðið varð í byrjun október. Flóðvatn fór í Eldvatn sem liggur um land Ásajarðanna, braut af landi þeirra og flæddi yfir gróið hraun, beitiland og akra og eyðilagði flóðvarnargarða. Áætlað er að vatnið hafi eytt 4-5 hekturum lands og farið yfir um 200 hektara og kaffært í sandi og leir. „Ég er enginn loftmyndafræðingur en hef þessar tölur frá þeim hjá Landgræðslunni. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, en þetta er örugglega rétt hjá þeim.“

Búist við svifryksmengun

Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir að á þurrum og vindasömum dögum í sumar verði mikið sandfok í Skaftárhreppi sem valdi því vafalaust að svifryksmengun verði langt yfir heilsufarsmörkum. Sandfok og uppfok muni án efa í einhverjum tilvikum gera umferðinni um Hringveginn erfitt fyrir, byrgja ökumönnum sýn. „Þetta ástand verður viðvarandi og ekki endilega bundið við sumarið. Þarna er gríðarlegt magn af lausum fokefnum sem fer af stað þegar vindar blása á þurrum dögum. Það þarf ekki mörg vindstig til að fína fokefnið fari af stað. Þetta verður afar hvimleitt og erfitt fyrir íbúana,“ segir Sveinn.

Ástandið var slæmt á einstaka bæjum eftir Grímsvatnagosið 2011 en Sveinn bendir á að sandfokið af hlaupsvæðinu nái yfir miklu stærra svæði. Það nái til margra sveitabæja og þorpsins á Kirkjubæjarklaustri.

Gísli Halldór á von á hinu sama og Sveinn. Að mökkurinn standi af sandsvæðunum yfir sveitir og þjóðveginn. Hann nefnir að dæmi um það hafi sést einn dag í vetur. Þá hafi farið að fjúka og mökkurinn verið eins og af brennandi mosa. „Þetta fer illa með fólk, skepnur og vélar.“

Það er mikið högg fyrir Gísla Halldór og ýmsa nágranna hans að tapa margra áratuga starfi. „Sá sem öllu ræður tók þetta á þremur klukkutímum,“ segir hann.

Í Ásum eru miklar menningarminjar sem lítið sem ekkert hafa verið rannsakaðar. Telur Gísli Halldór að þar hafi verið búið frá landnámi. Heil bæjartorfa fór í hlaupinu og fleiri minjar eru í hættu.

Gísli Halldór segist þurfa stuðning til að hann treysti sér í að byrja frá grunni. Bjargráðasjóður bætir eingöngu tjón á túnum bænda, girðingum og öðru slíku en ekki beitilandi sem grætt hefur verið upp. Svo er töluverð sjálfsábyrgð. „Þetta er himinhrópandi ranglæti. Bjargráðasjóður bætir tjón vegna kals og lambadauða. Slíkt er ekki hægt að bera saman við náttúruhamfarir eins og þessar. Að það skuli vera sjálfsábyrgð gagnvart náttúruhamförum er algert siðleysi,“ segir hann.

Stjórnvöld hafa lengi verið að huga að stofnun Hamfarasjóðs til að bæta tjón vegna náttúruhamfara sem ríkissjóður hefur tekið á sig. Jafnframt eiga hluti Bjargráðasjóðs og Ofanflóðasjóður að vera undir hatti hins nýja sjóðs. Ljóst er að Hamfarasjóður, verði hann stofnaður, bætir ekki tjón sem áður hefur orðið og því óttast bóndinn að lenda þarna á milli. „Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra] kom hér inn í eldhús og sagði að við þyrftum ekkert að óttast,“ segir Gísli Halldór.

Brúin veldur erfiðleikum

Brúin yfir Eldvatn er löskuð og ekki hægt að fara yfir hana með vagna eða á stórum bílum. Það veldur augljóslega erfiðleikum í búskapnum því Gísli Halldór heyjar beggja vegna ár. Hann getur því ekki ekið þá leið með hey og skepnur í sumar, að minnsta kosti. Vegagerðin er farin að huga að nýju brúarstæði. Verið er að ræða um að byggja nýja brú skammt frá þeirri gömlu. Gísli Halldór telur varasamt að hafa brú þar sem ekki er hægt að hleypa ánni framhjá. Slík brúastæði séu til, bæði vestan og ofan núverandi brúar en það kalli á meiri vegarlagningu en brú nálægt núverandi stað.

Stærsta hlaup frá upphafi mælinga

Hlaupið úr Eystri Skaftárkatli í byrjun október 2015 er stærsta hlaup í Skaftá frá því mælingar hófust, árið 1955. Fram kemur í ársskýrslu Veðurstofu Íslands að mesta rennsli við Sveinstind er talið hafa náð 3-4000 rúmmetrum á sekúndu eftir hádegi 2. október sem er um tvöfalt meira en mesta rennsli í Skaftárhlaupi til þessa.

Rúmlega fimm ára hlé varð á milli hlaupa úr katlinum sem er óvenjulegt því venjulega líða ekki nema 2-3 ár á milli hlaupa úr Eystri Skaftárkatli.

Hlaupið olli tjóni á vegum og gróðurlendi og flæmdist yfir víðáttumikil svæði á leið sinni til sjávar. Það skildi eftir sig framburð sem valda mun óþægindum vegna sandfoks og uppblásturs á næstu árum.

Segja af sér gamlar frægðarsögur

• Rætt um landsins gagn og nauðsynjar í öldungaráðinu í Vík • Stjórnmálin og forsetakosningar efst á baugi „Okkur er ekkert óviðkomandi. Við ræðum öll mál sem koma upp á landsvísu og hér heima og fáum líka oft góða gesti, þingmenn og ráðherra,“ segir Þórir N. Kjartansson í Vík í Mýrdal. Hann er í öldungaráði, óformlegum samtökum heldri borgara í Vík sem kemur saman alla virka morgna í björgunarsveitarhúsinu.

Þeir eru oft 10 til 12. Hluti af hópnum eru svokallaðir Fjörulallar sem leggja mikið á sig til að verja Víkurþorp fyrir ágangi sjávar, meðal annars með uppgræðslu í samvinnu við Landgræðsluna. Þau mál koma sterkt inn í umræðuna þegar Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri mætir. „Menn eru nú annars aðallega að segja af sér gamlar frægðarsögur,“ segir Þórir.

Blaðamaður kom við hjá öldungaráðinu á föstudagsmorgni. „Þú mátt geta þrisvar,“ svaraði Reynir Ragnarsson, þegar spurt er um aðalumræðuefni þá vikuna. Og niðurstaðan? Jú, hún er sögð jafn breytileg og mennirnir eru margir. Menn eru sem sagt ekki alveg sammála í pólitíkinni.

Stendur enginn uppúr

Annars hafa komandi forsetakosningar verið heitasta umræðuefnið síðustu daga og vikur, og ekki dró úr því þegar forsetinn og forsætisráðherrann hittust óvænt í miðri atburðarásinni. „Ég stend dálítið einn í því. Mér fannst útspil forsetans snilldarlegt,“ segir Birgir Hinriksson.

Reynir Ragnarsson telur það ágætt að Ólafur Ragnar haldi því opnu að vera áfram, þar til vitað sé hverjir verði í framboði. „Það stendur enginn uppúr þegar búið er að draga rugludallana frá. Eftir situr fólk sem aðeins er þekkt innan síns hóps,“ segir Guðgeir Sigurðsson. Menn voru á því að margir frambjóðendur myndu draga sig til baka ef Ólafur Ragnar færi fram.

Blaðamaður missti af umræðum um Davíð Oddsson ritstjóra. Á félögunum var að heyra að hann nyti töluverðs fylgis í þessum hópi til forsetaframboðs en það fylgdi jafnframt sögunni að sjálfsagt yrðu margir á móti.

Jarðgöng nauðsynleg

Af heimavígstöðvunum er mest rætt um vegamál. Nauðsyn jarðganga um Reynisfjall var þar efst á baugi. Menn eru hjartanlega sammála um það enda þekkja allir á eigin skinni erfiðleikana sem skapast geta á núverandi vegi, sérstaklega um brattann á Gatnabrún. Vegna aukinnar umferðar ferðamanna hafi umferð um Hringveginn sem nú liggur á milli húsa í þorpinu stöðugt meiri áhrif á íbúana.

Sífelldur niðurskurður þjónustu við íbúana kemur einnig upp í umræðunum. Vegna fjölgunar ferðamanna allt árið þyrfti frekar að bæta í en halda áfram niðurskurði. Reynir segir að heilsugæslan sé aðeins opin hálfan daginn og mest verið að þjóna ferðamönnum. Þeir taka það fram að þeir séu heppnir með lækni og hjúkrunarkonu því þau séu boðin og búin að aðstoða íbúana, séu í raun og veru á vakt allan sólarhringinn. helgi@mbl.is

Brýnt að verja svæði við byggð

• Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri vill binda fokefnin við Skaftá með melgresi • Kostnaður við uppgræðslu og varnargarða áætlaður 100 milljónir í ár • Þörf á áframhaldandi vinnu næstu tvö árin Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landgræðslan telur brýnt að verja svæði í og við byggðina við Skaftá. Það sé hægt að gera með tiltölulega litlum kostnaði, með varnargörðum og uppgræðslu. Hefur Landgræðslan óskað eftir 96 milljóna króna fjárveitingu á þessu ári til brýnustu verkefna.

Landgræðslan hefur reynt að meta gróðurskemmdir og lagt áherslu á byggðina því erfitt er að ljúka könnun á afréttum vegna snjóa. Gert er ráð fyrir að gróðurskemmdir séu í landi fjölda jarða. Langverst er ástandið talið í Eldhrauni og var ekki á bætandi. Gert er ráð fyrir að mikið leir- og sandfok verði af þeim í sumar og á næstu árum.

Jökulhlaupin og sandburður í kjölfarið hafa mikil áhrif á gróðurfar í Skaftárhreppi. Þannig er talið að sandur hafi farið yfir 3.000 hektara gróins lands á afréttum á árunum 1955 til 2010 og um 4.000 hektara í byggð.

„Markmið aðgerða okkar verður að draga úr uppfoki og sandfoki með því að binda fokefnin í gróðri. Við munum sá melgresi og grasfræi á verstu sandsvæðunum, þar sem við teljum að best gagnist fyrir byggðina,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.

Mikilvægt að byrja sem fyrst

Hann minnir á að gera verði ráð fyrir öðru stóru jökulhlaupi innan fárra ára og aðgerðir taki mið af því. Veðurstofan er að vinna hættumat vegna þess. „Við vitum að melgresi þolir mikla eðju og aur, þegar það er komið vel á legg. Það reynist okkur alltaf best,“ segir landgræðslustjóri.

Hann segir að reynt verði að styrkja þann gróður sem er við farvegi Skaftár og Eldvatns, á svæðum sem fengið hafa minniháttar eðju yfir sig og stuðla þannig að því að gróðurinn þoli það áfok sem verður úr aðal-farveginum. „Við munum einbeita okkur að aðgerðum í byggð, á um 900 hektara svæði. Verkefnið á afréttunum er það stórt að ekki verður tekist á við það að sinni. Við þurfum að forgangsraða. Brýnast er að vinna í Eldhrauni og við bæi sem hafa orðið verst úti. Mikið er í húfi að gera þetta sem allra fyrst, í lok apríl eða byrjun maí. Við erum bjartsýn um að þessar aðgerðir muni leiða til þess að minna uppfok og sandfok verði. Árangurinn skilar sér meira á næsta ári og aðgerðirnar þurfa að halda áfram á næstu árum,“ segir Sveinn.

Reiknað er með að brýnustu uppgræðsluverkefnin muni kosta um 50 milljónir kr. í ár og annað eins á næsta ári. Kostnaður við byggingu nýrra varnargarða og hækkun og viðhald eldri garða er litlu minni.

Hreppurinn fékk fjárveitingu

Skaftárhreppur fékk 30 milljóna króna aukafjárveitingu á síðasta ári til að mæta kostnaði af viðgerðum á óskráðum vegum, varnargörðum og girðingum sem eyðilögðust í hlaupinu. Sveinn segir að sem betur fer virðist opinberir aðilar kosta að mestu viðgerðir á vegum og afar lítið tjón hafi orðið á girðingum. Hins vegar nemi viðgerðarkostnaður á varnargörðum mörgum tugum milljóna. Skaftárhreppur hefur beðið fólk að tilkynna um tjón sem getur flokkast undir þá liði sem fjárveitingunni er ætlað að bæta.

Leggja mikið til byggðarinnar

• Fjörulallar í Vík vinna stöðugt að vörnum þorpsins gegn landbroti „Framtak þeirra hefur skilað miklum árangri í þessari baráttu á undanförnum árum. Þeir eru alltaf á vaktinni. Það skiptir miklu máli að grípa strax í taumana þegar skörð myndast í sandvarnargörðunum. Sandurinn dælist inn um þessi skörð,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri um sjálfboðavinnu Fjörulalla í Víkurfjöru.

Þeir félagarnir vinna ýmis störf í Víkurfjöru, meðal annars við uppgræðslu, vegagerð og stíga og lagfæringar bílastæða. Fjaran er fjölsótt af ferðafólki sem óneitanlega skilja eftir sig ummerki. Þeir keyrðu 100 heyrúllur í fjöruna á síðasta ári til að styrkja varnirnar og reikna með að svipaður fjöldi verði fluttur þangað í haust.

„Þeir afkasta miklu í sinni sjálfboðavinnu og þekkja auk þess vel til. Við hefðum ekki næga fjármuni til að setja í þetta, ef við þyrftum að kaupa alla vinnu að. Framlag þeirra til byggðarinnar er því gríðarlega mikið.“

Með tilkomu varnargarðs sem settur var út fyrir nokkrum árum, svokallaðs sandfangara, hefur fjaran vestan hans lengst mjög. Sveinn segir nauðsynlegt að fylgja því jafnt og þétt eftir með því að græða strax upp hið nýja land, skapa nýtt varnarbelti í stað þess sem sjórinn hefur hrifsað til sín í landbroti undanfarinna ára og áratuga. Sáð er íslensku melgresi sem reynst hefur best til að binda sandinn.

Hætta á að uppgræðslan hverfi við iðnaðarhverfið

Fjörulallar hafa einbeitt sér að svæðinu vestan við sandfangarann. Stærstu áföllin, til dæmis í ofsaveðri sem varð í stórstreymi í desember, urðu austar, við iðnaðarsvæði Víkurþorps en þar hafa Fjörulallar ekki látið til sín taka. Þetta skapaði hættu á að uppgræðslan þar hyrfi, með tilheyrandi auknu sandfoki inn í þorpið.

Sveinn segir að Landgræðslan fagni því mjög að Vegagerðin skuli hafa ákveðið að hefja aðgerðir á því svæði á þessu ári með nýjum sandfangara. Það muni verða til þess að fjaran lengist fram í sjó og því þurfi að fylgja eftir með sáningu melgresis.