Vor Sólin lék við Akureyringa í gær og verslunarmenn í miðbænum notuðu tækifærið og pússuðu gluggana.
Vor Sólin lék við Akureyringa í gær og verslunarmenn í miðbænum notuðu tækifærið og pússuðu gluggana. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Leikskólanum Hlíðabóli, sem rekinn er af Hvítasunnusöfnuðinum á Akureyri, verður lokað sumarið 2017. Það varð ljóst eftir að Akureyrarbær ákvað að segja upp samningi um rekstrarstyrk.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Leikskólanum Hlíðabóli, sem rekinn er af Hvítasunnusöfnuðinum á Akureyri, verður lokað sumarið 2017. Það varð ljóst eftir að Akureyrarbær ákvað að segja upp samningi um rekstrarstyrk.

Foreldrar barna á leikskólanum eru óhressir með ákvörðun bæjarins og freista þess, með söfnun undirskrifta, að forráðamenn bæjarins skipti um skoðun.

Snorri Óskarsson safnaðarhirðir telur ólíklegt að bæjaryfirvöld endurskoði hug sinn. „Bærinn ræður því ekki hvort leikskólinn verður opinn eða ekki, en þegar þjónustusamningi er sagt upp er þó sjálfhætt. Við getum ekki látið foreldra greiða óniðurgreidd leikskólagjöld,“ segir hann við Morgunblaðið.

Hlíðaból er eini kristni leikskólinn á Akureyri. „Sumir foreldrar sögðust hafa valið leikskólann einmitt út af því,“ segir Snorri. „Börnin fara með borðbæn, við segjum þeim kristnar sögur og kennum bænir, sem við teljum gott veganesti.“

Meginástæða þess að bærinn ákvað að segja upp þjónustusamningi vegna Hlíðabóls frá og með 7. júlí 2017 er sú að börnum á leikskólaaldri er að fækka á Akureyri, segir Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, við Morgunblaðið.

„Leikskólinn Hlíðaból er einkarekinn og hefur fengið rekstrarstyrk frá bænum, en húsnæðið er ekki í eigu bæjarfélagsins. Öllum börnum í Hlíðabóli verður boðið pláss í öðrum leikskólum bæjarins þegar hann lokar. Þess má geta að leikskólinn Sunnuból lokar við sumarfrí í sumar af sömu ástæðu, þ.e. vegna barnafækkunar, en það húsnæði er heldur ekki í eigu bæjarfélagsins,“ segir Logi við Morgunblaðið.

Logi segir rétt að nefna að heimilt hafi verið að segja upp rekstrarsamningi við Hlíðarból með sex mánaða fyrirvara. „Það fannst okkur of stuttur tími og við viljum með þessu gefa foreldrum og rekstraraðilum Hlíðabóls rúmlega 15 mánuði til að laga sig að breyttum aðstæðum.“

Sú breyting hefur verið gerð á kjöri íþróttamanns ársins á Akureyri að héðan í frá verða þeir tveir; íþróttakarl og íþróttakona ársins. Þetta var samþykkt á ársþingi Íþróttabandalags Akureyrar sem fram fór í vikunni.

Í umræðu um breytingar í þessa veru hafa stundum verið notuð þau rök að betra sé að hafa kjör tvískipt til að konum sé gert jafnhátt undir höfði og körlum. Á Akureyri væri það hins vegar frekar til að koma körlum að! Síðustu 14 ár hefur nefnilega kona 11 sinnum orðið efst í kjörinu, þar af níu ár í röð frá 2006 til 2014. Akureyrskir íþróttakarlar verða því ekki lengur í skugga kvennanna.

Ný stjórn var kjörin á þingi ÍBA. Geir Kristinn Aðalsteinsson, fv. forseti bæjarstjórnar, verður áfram formaður en með honum í stjórn eru Ármann Ketilsson, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Inga Stella Pétursdóttir, Sonja Sif Jóhannsdóttir, Hörður Sigurharðarson og Erlingur Kristjánsson.

Hljómsveitirnar Ensími og 200.000 Naglbítar ætla leiða saman hesta sína og halda tónleika á Græna hattinum annað kvöld. Þar verða leikin öll þekktustu lög beggja sveita.

Eins og venjulega þegar vorar í lofti fara Helgi og hljóðfæraleikararnir á stjá. Hljómsveitin fremur sinn árlega vorgjörning á Græna hattinum á laugardagskvöldið. Þar munu tónlistarmennirnir „telja í öll sín bestu lög frá frábærum og hundlöngum ferli,“ segir í tilkynningu.

Hagyrðingakvöld eru afar vinsæl og jafnan vel sótt norður í landi eins og víðar. Slík skemmtun verður á Græna hattinum síðasta vetrardag, miðvikudaginn 20. apríl kl. 21 þar sem verða hagyrðingarnir Friðrik Steingrímsson, Björn Ingólfsson, Stefán Vilhjálmsson, Pétur Pétursson, Hjálmar Freysteinsson og Ósk Þorkelsdóttir. Stjórnandi verður Birgir Sveinbjörnsson.