Sigríður Anna Þórðardóttir
Sigríður Anna Þórðardóttir
Eftir Sigríði Önnu Þórðardóttur: "Umhverfismálin verða ávallt í brennidepli á Íslandi og stjórnmálamenn... hljóta að standa trúan vörð um þennan málaflokk í nútíð og framtíð."

Í greinarstúfi í Morgunblaðinu á dögunum gera tveir fv. umhverfisráðherrar, þeir Júlíus Sólnes og Eiður Guðnason, athugasemdir við orð mín sem birtust í bókinni „Frú ráðherra“ sem út kom á síðasta ári í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

Nú hefur sá þriðji, Hjörleifur Guttormsson, fv. iðnaðarráðherra, bæst í hópinn og tekur undir með þeim á sama vettvangi.

Í viðtalinu sagði ég eftirfarandi: „Ég taldi líka að umhverfisráðuneytið væri afar mikilvægt ráðuneyti fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Andstæðingar okkar hafa lengi haldið því fram að við höfum ekki áhuga á umhverfismálum sem er alrangt. Það var einmitt Sjálfstæðisflokkurinn, með Geir Hallgrímasson í fararbroddi, sem átti frumkvæði að því að umhverfisráðuneytið yrði stofnað.“

Ég sé ekki betur en að skrif ráðherranna fyrrverandi staðfesti þessi orð mín og einnig hitt, sem mér þykir vænt um í þessu samhengi, að hér sannast enn hið fornkveðna að „Allir vildu Lilju kveðið hafa“.

Í fyrsta bindi ritraðarinnar „Stjórnarráð Íslands 1964-2004“ kemur eftirfarandi fram á bls. 292-293:

„Stofnun umhverfisráðuneytisins átti sér langan aðdraganda. Fyrstu hugmyndir um sérstaka stjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands komu fram í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar á árunum 1974-1978. Í mars 1975 skipaði ríkisstjórnin nefnd til þess að endurskoða og samræma ákvæði laga um unhverfis- og mengunarmál. Í áliti nefndarinnar kom fram að brýnt væri að samræma reglur og yfirstjórn umhverfismála um þessi efni hérlendis. Samkvæmt frumvarpi, sem nefndin samdi og Gunnar Thoroddsen, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði fram á Alþingi vorið 1977(8), var lagt til að sérstök stjórnardeild, umhverfismáladeild, færi með yfirstjórn umhverfismála en deildin skyldi heyra undir eitt ráðuneyta Stjórnarráðsins. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og ekki heldur þingmannafrumvörp sem lögð voru fram í svipaðri mynd næstu árin.“ Þó var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í apríl 1978 að félagsmálaráðuneytið skyldi fara með umhverfismál innan Stjórnarráðs Íslands. Ekkert varð þó úr margvíslegum fyrirætlunum um breytta yfirstjórn umhverfismála fyrr en árið 1990 og því varð stjórn þessara mála áfram í höndum margra ráðuneyta.“

Í viðtalinu sem karlarnir þrír vitna til vildi ég undirstrika frumkvæði ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar í þessum efnum og minna á frumvarp Gunnars Thoroddsen um umhverfismál. Það frumvarp fékk eðlilega málsmeðferð á Alþingi á sínum tíma þó ekki næði það fram að ganga. Frumvarpið var síðar endurflutt af Salome Þorkelsdóttur og fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 1980-81 og Gunnari G. Schram o.fl. 1983-4 og málinu þannig haldið vakandi. Þegar þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, flutti málið um Stjórnarráð Íslands (Umhverfisráðuneyti), árið 1989 er ítarlega farið yfir framvindu umhverfismála í Stjórnarráðinu í greinargerð með frumvarpi hans og einnig í frumvarpi hans um umhverfismál fyrr á sama ári sem ekki náði fram að ganga.

Óþarft er að taka það fram að með orðum mínum er ég á engan hátt að gera lítið úr hlut annarra þingmanna og ráðherra sem komu að þessu máli á sínum tíma og þaðan af síður að smækka brautryðjendastarf annarra við náttúruvernd. Margir hafa lagt sitt af mörkum til þessa góða málefnis.

Í þessu samhengi get ég svo ekki látið hjá líða að nefna heiðurskonuna Elínu Pálmadóttur, blaðamann og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og málflutning hennar í ræðu og riti um mikilvægi umhverfisverndar um langa tíð. Hún sat í Náttúruverndarráði og náttúrverndarnefnd Reykjavíkur um árabil og í bók hennar, „Eins og ég man það“ eru stórfróðlegar og skemmtilegar lýsingar á aðkomu hennar að þessum málum. Frásögn hennar er býsna skondin á köflum og þar segir meðal annars á bls. 332: „Svo æxlaðist blessunarlega fyrir þennan hrakta málaflokk í stjórnkerfinu að allt í einu vantaði ráherrastól svo að takast mætti að mynda samsteypustjórn. Og eftir erfiðar fæðingarhríðir var með lögum á Alþingi stofnað umhverfisráðuneyti vorið 1990, sem síðan hefur vaxið og sannað sig.“

Ég fagna þessum tilskrifum karlanna þriggja. Þau gefa tilefni til að undirstrika orð mín að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa leitast við að gera lítið úr þætti hans og frumkvæði í þessu máli, en fyrst og fremst beina þau kastljósinu að þessum mikilvæga málaflokki og það er af hinu góða.

Íslendingar geta verið stoltir af því að umhverfismálin eiga nú heima á einum stað í stjórnsýslunni þó vissulega megi taka undir það sjónarmið Hjörleifs Guttormssonar og Elínar Pálmadóttur á sínum tíma, að sú skipan hefði mátt komast á miklu fyrr en raun ber vitni.

Það liggur í hlutarins eðli að umhverfismálin verða ávallt í brennidepli á Íslandi og stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, hljóta að standa trúan vörð um þennan málaflokk í nútíð og framtíð. Öllum hlýtur að vera ljóst að hann þarf að styrkja enn frekar. Það er afar mikilvægt og mikið er í húfi eins og dæmin sanna.

Höfundur er fv. umhverfisráðherra.