Svíar Mikael Sandberg og Magnus Blårand stilltu sér upp fyrir Morgunblaðið í Jaca í gær. Þeir stýra liðinu gegn Serbum á HM í dag.
Svíar Mikael Sandberg og Magnus Blårand stilltu sér upp fyrir Morgunblaðið í Jaca í gær. Þeir stýra liðinu gegn Serbum á HM í dag. — Morgunblaðið/Kris
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Spáni Kristján Jónsson kris@mbl.is Svíinn Mikael Sandberg er markmannsþjálfari og annar aðstoðarþjálfara Íslands á heimsmeistaramótinu í íshokkí þetta árið. Þegar að er gáð kemur í ljós að Sandberg hefur marga fjöruna sopið í íþróttinni sem leikmaður.

Á Spáni

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Svíinn Mikael Sandberg er markmannsþjálfari og annar aðstoðarþjálfara Íslands á heimsmeistaramótinu í íshokkí þetta árið. Þegar að er gáð kemur í ljós að Sandberg hefur marga fjöruna sopið í íþróttinni sem leikmaður. Náði hann mjög langt og komst í sænska landsliðið, sem er eitt allra sterkasta landslið heims. Fór hann tvívegis með Svíum á HM og kom í síðara skiptið heim með silfurpening.

Aðalþjálfari Íslands, Magnus Blårand er einnig sænskur, og hafði hann samband við Sandberg með íslenska landsliðið í huga. Þeir þekktust ekki og kom tilboðið því flatt upp á Sandberg, sem hefur haft fulla atvinnu af því að þjálfa markverði í íshokkí í Svíþjóð og Danmörku síðustu árin.

„Ég fékk símhringingu um mánaðamótin febrúar/mars og var spurður hvort ég hefði áhuga. Fyrst var ég örlítið hikandi út af öðrum verkefnum sem ég hef tekið að mér en sá fyrir mér að þetta gæti orðið skemmtilegt ævintýri og tækifæri til að kynnast einhverju nýju. Við Magnus vorum í sambandi í framhaldinu í gegnum síma og tölvupóst. Við hittumst í fyrsta skipti á Keflavíkurflugvelli þegar landsliðið var í æfingabúðum á Íslandi. Ég kom þá frá Kaupmannahöfn og hann frá Stokkhólmi,“ segir Sandberg og hlær. Fyrir hann eru svolítið viðbrigði að vinna með Íslendingum því hann er vanari því að vinna með atvinnumönnum í íþróttinni, en svo gott sem allir leikmenn íslenska liðsins eru áhugamenn.

„Allt í kringum liðið og íþróttina er öðruvísi en það sem ég á að venjast. Landsliðið fékk æfingatíma á ísnum kl. 22 eða 23 á kvöldin eða klukkan 8 á morgnana. Ég hef ekki æft á þeim tíma síðan ég var krakki. Þetta er ekki slæmt en frábrugðið því sem ég er vanur. Maður er fyrir löngu farinn að taka því sem sjálfsögðum hlut að hafa aðgang að tækjastjóra og ýmsu öðru sem ekki er endilega til staðar að jafnaði fyrir íslenska landsliðið. Ég kann vel við mig og hef hitt margt gott fólk, t.d. stjórnarmenn í Íshokkísambandinu. Þeir hafa metnað og vilja gera vel, sem er aðalatriðið þótt þeir starfi í lítilli hreyfingu.“

Of mörg mörk

Sandberg finnst íslenska liðið ekki hafa sýnt sínar bestu hliðar á HM á Spáni hingað til.

„Mér finnst við ekki hafa spilað nægilega vel. Við fengum vissulega fjögur stig í fyrstu tveimur leikjunum en mér fannst við eiga að taka sex stig. Þar að auki unnum við Kína 7:4. Mér líkar ekki að sjá slíkar tölur og hefði frekar viljað sjá okkur hleypa bara inn einu marki eða svo. Auk þess hafa sum mörkin verið frekar ódýr, ekki bara hvað markverðina varðar, heldur einnig út af varnarleik liðsins í heild. Það finnst mér ekki nógu gott og við gætum bætt það. Í íslensku leikmönnunum býr margt og þeir hafa burði til að bæta sig frekar.“

Mikil sænsk slagsíða er á íslenska landsliðinu. Fyrir utan þjálfarana tvo er sjúkraþjálfarinn frá Svíþjóð, Sussie Lindqvist. Fjórir leikmanna Íslands eru uppaldir í Svíþjóð. Hedström-bræðurnir Dennis og Robin og Emil Alengård eiga íslenskar mæður. Þá ólst markvörðurinn Snorri Sigurbergsson að hluta til upp í Svíþjóð. Hann tjáði blaðamanni að hann hefði séð Sandberg spila á sínum tíma með Frölunda í efstu deild þegar Snorri var krakki. Fjölmargir í íslenska hópnum hafa auk þess spilað í Svíþjóð á einhverjum tímapunkti. Þessar tengingar við Svíþjóð hafa auðveldað Sandberg að aðlagast hópnum.

„Við tölum mikið saman á ensku og ég hef vanist því bæði hjá félagsliðum sem ég vinn með bæði í Svíþjóð og Danmörku vegna fjölda erlendra leikmanna. Ég tala hins vegar sænsku við markverðina Dennis og Snorra á ísnum. Það er fínt og auðveldar hlutina aðeins.“

Varð sænskur meistari

Sandberg lék um 30 A-landsleiki fyrir Svíþjóð. Hann lék lengi með Frölunda í efstu deild í Svíþjóð en einnig með Linköping. Þá spilaði hann eitt tímabil í Austurríki, árið 2000. Hann fór með sænska landsliðinu á HM 1996 og 1997. Í fyrra skiptið höfnuðu Svíar í 5. sæti og voru teknir í bakaríið heima fyrir, en sænska landsliðið er vinsælasta íþróttalið Svía og kröfurnar gífurlegar. Árið eftir fór liðið alla leið í úrslitaleikinn.

Sandberg tekur fram að hann hafi ekki verið aðalmarkvörður liðsins en segir að ásamt þessari reynslu sé hápunktur ferilsins að hafa orðið sænskur meistari með Frölunda árið 2005. Þá var NHL-deildin lokuð vegna verkfalla og allir bestu leikmenn Svíþjóðar spiluðu þá í heimalandinu og einnig margir af bestu leikmönnum heims frá öðrum löndum. Mestu vonbrigðin á ferlinum segir hann líklega hafa verið að detta út úr landsliðshópnum í síðasta niðurskurðinum fyrir Vetrarólympíuleikana í Albertville.