Mótmælendur utan við vorfund Íhaldsflokksins sem haldinn var í Lundúnum um helgina í skugga Panamaskjalanna.
Mótmælendur utan við vorfund Íhaldsflokksins sem haldinn var í Lundúnum um helgina í skugga Panamaskjalanna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Janan Ganesh Þegar kemur að umræðu um fjármál og skatta í Bretlandi einkennast viðhorf almennings og jafnvel áhrifafólks af hræsni og vankunnáttu, að mati greinarhöfundar.

Í Brelandi er hið opinbera mannað af fólki sem er heltekið af hugvísindum, er illa að sér í fjármálum og er innst inni hrætt við tölur. Allt frá þinghúsinu yfir til ríkisfjölmiðilsins BBC tengir það „aflands“ saman við „ólöglegt“, rétt eins og það sleppir „veltu“ úr samhengi við „hagnað“, og þetta fólk gerir í hjarta sínu ekki ráð fyrir að þeirra persónulegu eignir muni nokkru sinni hafa viðdvöl á framandi slóðum.

Og jafnvel þótt við leitum út fyrir þennan takmarkaða græneygða hóp, finnum við ekki heldur ríka hefð fyrir almennri skynsemi í bresku samfélagi. Þar sem landsmenn virðast halda að það sé ókurteisi að tala um peninga, þá er hægt að slá því föstu að grundvallarmál eru ekki rædd opinskátt, svo hræsnin fær að þrífast óáreitt. Bretar eru sannfærðir um að knattspyrnumenn séu „of hátt launaðir“ en fallast samt á að verð skuli ákvarðast af framboði og eftirspurn. Þeir hatast við þá sem svíkja undan skatti en borga iðnaðarmönnum í seðlum, og guð hjálpi þeim stjórnmálamanni sem ýjar að því að gott væri að halda kvittununum til haga. Næstum engum, jafnvel þeim sem búa í húsum sem eru margfalt meira virði en landsmeðaltalið, finnst hann vera ríkur. Dagblöðin froðufella þegar forsætisráðherann hagar skattamálum sínum með alvanalegum hætti, en hampa inni í blaðinu mun lymskulegra ráðabruggi, eins og hálfklæddu frægðarfólki og uppskriftum að frönskum pottréttum.

Sögusagnir og misskilningur

Það er því fremur ýkjukennt að sjá David Cameron dreginn í snarhasti fyrir dómstól götunnar og verða þar fyrir barðinu á siðavendniæsingi af því tagi sem Thomas Babbington Macaulay varaði okkur við, fyrir þá synd að hafa átt hlut í sjóði sem heimilaði honum hvorki að sleppa við né sneiða hjá breskum sköttum. Sannleikurinn í málinu er í senn skárri og verri. Þegar peningar eiga í hlut hafa flestir bara ekki minnstu glóru um hvað þeir eru að tala. Þeir gera ráð fyrir að hann hafi brotið af sér, því þeir hafa ekki lesið um eða skilið málið í heild sinni. Forsætisráðherrann er sokkinn á bólakaf í flækju sögusagna og misskilnings, sem hann sjálfur kynti undir þegar hann, eftir dúk og disk, gerði fjármálaupplýsingar sínar opinberar í síðustu viku. Þetta er ekki skáldsaga eftir Kafka. Ef flest af því sem gerist í Westminster er illa lukkað samsæri, þá gildir það um flest annað í landinu.

Þumalputtareglur eða kunnátta

Hættan liggur í þeim þumalputtareglum sem Bretar notast við, í stað raunverulegrar kunnáttu. Frá því útgjaldahneyksli kom upp á breska þinginu árið 2009 hefur það orðið að hvimleiðum sið að því sé haldið fram að skynjun fólks sé það sem mestu skiptir. „Enginn grunur má falla á eiginkonu Sesars,“ og á það ekki bara við um hinar formlegu reglur. Það má ekki vera minnsti „þefur“ af neinu. Allt þarf að vera „sanngjarnt“. Það er hægt að finna hljómfagran trúverðugleika í allri þessari vitleysu.

„Sanngirni“ keppir við „samfélag“ sem lymskulegasta og teygjanlegasta nafnorðið í heimi stjórnmálanna. Hugtakið er nógu mótanlegt til að geta haft ótal merkingar, þar sem þær verstu eru hjúpaðar yfirborðsljómanum sem orðið hefur á sér.

Sanngjarna skattbyrði milljarðamæringa mætti skilgreina sem fjárhæð sem er í samræmi við það sem þeir nota af þjónustu hins opinbera, sem væri bara smáaurar. Sanngjörn skattbyrði gæti að sama skapi verið samviskusamlega greidd framlög langt umfram þá skattprósentu sem ríkið leggur á. Hugsið ykkur bara hvað við gætum skemmt okkur við að reikna út sanngjarna skattbyrði einstaklings sem var menntaður í ríkisreknum skólum, býr í félagslegu húsnæði og hittir vikulega lækni í gegnum ríkisrekið heibrigðiskerfi, en er með laun sem eru undir tekjuskattsmörkum. Ja hérna, hvað við myndum þurfa að vega margar kenningar um réttlæti hverja á móti annarri.

Handahófskennd „sanngirni“

Ástæðan fyrir því að við höfum lög í landinu er að við viljum forða okkur frá því að lenda í svona grunnhyggni. Ef eitthvað jafn handahófskennt og „sanngirni“ á að koma í staðinn fyrir, eða vera viðbót við, þær reglur sem lögin setja okkur, þá ættum við ekki að láta það ergja okkur þegar Facebook, Twitter og hvað þá Google tekst að setja fram sannfærandi rök fyrir því að þau eigi að greiða litla eða enga skatta. Þessi fyrirtæki þjónusta milljarða manna án endurgjalds. Gmail-reikningurinn þinn, allar leitirnar á Google, allar klukkustundirnar af rápi á YouTube: þetta kostar þig ekki neitt, fyrir utan mánaðargjaldið fyrir nettenginguna. Sá ávinningur sem notandinn hefur af því sem þetta eina fyrirtæki innheimti ekkert beint gjald fyrir, hlýtur að réttlæta að létt sé á fjárhagslegu byrðunum.

Lyfjafyrirtæki sem verja stórfé í rannsóknir, sem fæstar skila tilætluðum árangri, svo að uppgötva megi nýjar lyfjameðferðir sem geta bjargað mannslífum – þar mætti setja fram svipuð rök. Og hvers vegna þarf frumkvöðull í illa staddri verksmiðjuborg að borga sömu fyrirtækjaskatta og kollegi hans sem starfar í peningahítinni London?

Kjósendur meta framtölin

Herferð Camerons gegn skattaundanskotum undanfarin ár á þátt í að koma honum í þennan vitsmunalega pytt, sem nær honum núna upp að nefi. Sú ákvörðun hans að birta skattskýrslur sínar, sem ekki varð hjá komist eins og málum er háttað, mun ekki hjálpa til. Þar til núna þurftu stjórnmálamenn, eins og allir aðrir, að senda skattskýrslurnar sínar til skattstjóra hennar hátignar, sem gaumgæfði hvort framtölin væru í samræmi við lög og reglur. Nú munu kjósendur líka fá að gefa sitt mat á framtölunum í samræmi við þá gjaldskrá sem þeirra eigið siðferði segir til um.

Forsætisráðherrar geta látið setja lög og haft umsjón með hverjum þeim lögum sem þingið afgreiðir, en allar hugleiðingar er varða smekk og siðgæði ættu að fá að bíða þar til látið er af embætti. Sé þessi lexía að skila sér, þá skilar hún sér hægt. Yfirlýsingin sem Cameron flutti fyrir þingheimi á mánudag, og var að flestu leyti auðskiljanleg, innihélt loforð um að „breyta menningunni“ í skattamálum, rétt eins og sú menning komi honum eitthvað við.

Höfundur er stjórnmálaskýrandi The Financial Times.