— Morgunblaðið/Eggert
Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is Vortónleikar Karlakórs Reykjavíkur eru jafnmikill vorboði og koma lóunnar enda hafa tónleikarnir verið haldnir frá því að kórinn var stofnaður en hann fagnar 90 ára afmæli í ár.

Inga Rún Sigurðardóttir

ingarun@mbl.is

Vortónleikar Karlakórs Reykjavíkur eru jafnmikill vorboði og koma lóunnar enda hafa tónleikarnir verið haldnir frá því að kórinn var stofnaður en hann fagnar 90 ára afmæli í ár. Tónleikarnir eru ákveðin uppskeruhátíð á afrakstri vetrarins en í þetta sinn munu þeir ennfremur endurspegla sögu kórsins.

Fleira sem verður gert til að minnast þessa 90 ára afmælis er kórferð út á land í haust að ógleymdum fernum tónleikum í Hallgrímskirkju um miðjan desember þar sem Karlakór Reykjavíkur hefur haldið jólatónleika í yfir 20 ár.

80 karlar á öllum aldri eru í kórnum en einsöngvari á vortónleikunum í ár verður Elmar Gilbertsson tenór, sem sló í gegn í hlutverki Daða í óperunni Ragnheiði .

„Hann er með mjög fallega tenórrödd,“ segir Friðrik S. Kristinsson, sem hefur verið stjórnandi kórsins í á þriðja áratug.

Var í söngnámi hjá Friðriki

Gaman er að segja frá því að vinskapur þeirra tveggja nær langt aftur. „Hann byrjaði að læra söng hjá mér fyrir mörgum árum og var hjá mér í tvö, þrjú ár,“ segir Friðrik sem hefur lengi langað að fá Elmar til að syngja með kórnum en hann hafði loksins tíma nú.

Elmar ætlar að syngja með kórnum í fimm lögum. „Hann ætlar að syngja „Draumalandið“ eftir Sigfús Einarsson og „Í rökkurró hún sefur“ eftir Björgvin Guðmundsson. Svo syngjum við verk eftir Schubert sem heitir „Nachthelle“ eða „Næturkyrrð“.“

Vortónleikarnir nefnast „Áfram veginn í 90 ár“. „Á sínum tíma var maður í kórnum sem hét Stefán Íslandi en hann gerði þetta rússneska þjóðlag frægt með kórnum,“segir Friðrik um „Ökuljóð“ eða „Áfram veginn“ eins og lagið er oft kallað.

„Síðan endar Elmar á því að syngja með okkur „Sjá dagar koma“ eftir Sigurð Þórðarson en það var einmitt Sigurður sem stofnaði kórinn,“ segir Friðrik en á tónleikunum er verið að líta til baka og fagna sögu kórsins.

Það er ýmislegt óvenjulegt á efnisskránni. „Við ætlum að syngja limrur eftir Pál Pampichler Pálsson, sem stjórnaði kórnum í hartnær 30 ár,“ segir Friðrik. „Það er galsi í þessu, það er talað og blótað,“ segir hann og hlær. „Þetta er öðruvísi og skemmtilegt,“ segir hann en textinn, limrurnar sjálfar, er eftir Þorstein Valdimarsson.

„Til viðbótar syngur kórinn norræn lög, sænsk og norsk, sem margir þekkja og vilja heyra,“ segir hann.

Sem fyrr leikur Anna Guðný Guðmundsdóttir á flygil. Sigurður Snorrason leikur síðan á klarínett í einu lagi.

Ennfremur flytur kórinn „Vöggukvæði“ eftir Emil Thoroddsen. „Við minnumst þar með okkar fyrsta píanóleikara sem var einmitt Emil Thoroddsen,“ segir Friðrik og brestur í söng, blaðamanni til gleði.

Karlakórar hafa notið vinsælda á Íslandi. „Þessi karlakórshljómur er búinn að vera vinsæll. Ég á ekki tölu yfir karlakóra á Íslandi, þeir eru svo margir. Þetta er töfrandi hljómur. Hann fer beint í hjartastað ef vel tekst til.“

Besta tónleikahúsið

Samkvæmt venju verður lokahóf eftir síðustu tónleikana. „Núna verður það í Gamla bíói þar sem allt byrjaði á sínum tíma,“ segir Friðrik en þetta er einskonar árshátíð fyrir félaga í kórnum.

Vortónleikar Karlakórs Reykjavíkur verða í Langholtskirkju 18., 19. og 20. apríl klukkan 20 og 23. apríl klukkan 15. „Langholtskirkja er okkar hús og búið að vera í tugi ára enda besta tónleikahús á landinu en kirkjan er sérstaklega byggð fyrir kórsöng og tónlistarfólk.“

Miðasala er á midi.is og á staðnum.