Veiðar Skv. samningnum geta Íslendingar veitt í rússneskri landhelgi.
Veiðar Skv. samningnum geta Íslendingar veitt í rússneskri landhelgi. — Morgunblaðið/Friðþjófur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Ísland og Rússland undirrituðu í gær samning um veiðar íslenskra skipa á árinu 2016 í rússneskri lögsögu og munu Íslendingar samkvæmt honum geta veitt allt að 8.158 tonn af þorski. Þar af er 5.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Ísland og Rússland undirrituðu í gær samning um veiðar íslenskra skipa á árinu 2016 í rússneskri lögsögu og munu Íslendingar samkvæmt honum geta veitt allt að 8.158 tonn af þorski. Þar af er 5.098 tonnum úthlutað beint en eftir á að semja um verð vegna 3.060 tonna sem íslenskar útgerðir hafa rétt til að kaupa af Rússum. Er samningurinn metinn á um 2,3 milljarða króna.

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og skipta íslenska þjóðarbúið miklu,“ segir Steinar Ingi Mattíasson, sem sat í samninganefnd Íslands sem fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um samninginn sem oftast er nefndur Smugusamningurinn.

Samningurinn byggir á þríhliða samningi Íslands, Noregs og Rússlands frá árinu 1999 um veiðar á þorski í Smugunni. Ísland og Rússland semja árlega um veiðar hvers árs á grundvelli Smugusamningsins en á fundi í desember í fyrra náðist ekki að landa samningi. „Þá slitnaði upp úr viðræðum og þess vegna er ánægjulegt að hafa náð að landa þessu,“ segir Steinar.

Á fundinum kom fram að Rússar hafa áhuga á því að endurskoða ákveðin atriði í Smugusamningnum í aðdraganda mögulegrar endurskoðunar hans árið 2018. Jafnframt lýstu þeir yfir áhuga á því að auka samstarf milli þjóðanna á sjávarútvegssviðinu.