Nýopnuð hátækni-fiskvinnsla ÚA er gott dæmi um þróunina. Störfin í sjávarútvegi eru að breytast og greinin að fjárfesta í fullkominni tækni.
Nýopnuð hátækni-fiskvinnsla ÚA er gott dæmi um þróunina. Störfin í sjávarútvegi eru að breytast og greinin að fjárfesta í fullkominni tækni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Ráðstefna sem haldin verður hjá HA skoðar meðal annars þær breytingar sem eru að verða með aukinni sjálfvirkni í sjávarútvegi og áhrifin á fólkið sem vinnur í greininni.

Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri efnir til ráðstefnu á föstudag undir yfirskriftinni Sjávarútvegur á Norðurlandi . Sigmar Örn Hilmarsson er verkefnastjóri hjá sjávarútvegsmiðstöðinni og skipuleggur viðburðinn en hann leggur mikla áherslu á að ráðstefnan er ekki bara opin fólki sem vinnur í greininni. „Við viljum nota tækifærið til að leyfa almenningi að glugga í þessa spennandi grein,“ segir hann en skráning fer fram í gegnum www.rha.is.

Sjávarútvegsmiðstöðin hélt síðast ráðstefnu af þessari stærðargráðu árið 2014 og voru þá loðnuveiðar til umfjöllunar. Að þessu sinni verður greinin skoðuð í víðara samhengi og segir Sigmar að í dagskránni sé meðal annars lögð áhersla á þær miklu tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað bæði við veiðar og vinnslu.

Fullkomnir frystitogarar og staflandi þjarkar

„Framþróunin hefur verið mikil, og þá alveg sérstaklega hér á Norðurlandi. Þannig ætlar Ólafur Marteinsson að segja gestum frá kaupum Ramma hf. á nýjum frystitogara. Bæði er langt síðan íslensk útgerð lét síðast smíða fyrir sig frystitogara og um borð verða farnar nýjar leiðir í vinnslu og fullkomin vatnsskurðarvél sem gerir mögulegt að sérvinna aflann. Einnig er von á Kristjáni Vilhelmssyni frá Samherja og mun hann ræða um kaup félagsins á þremur nýjum ísfisktogurum og sölu á einum gömlum. Verður örugglega fróðlegt að heyra hver ávinningurinn er af þessari fjárfestingu og af hverju það er á þessum tíma að menn eru að leggja í það að kaupa ný skip,“ segir Sigmar. „Kristján Sindri Gunnarsson mun fjalla um þróunina í landi. Er skemmst að minnast nýju hátækni-landvinnslu ÚA þar sem þjarkar og aðrar sjálfvirkar vélar sjá um mikinn hluta vinnunnar og pakka t.d. fiskinum og raða á bretti.“

Að laða að menntað fólk

Hin hliðin á peningnum er áhrif tækniframfaranna á fólkið sem vinnur í greininni. Tæknin spilar æ stærra hlutverk sem þýðir að sumum tegundum starfa fækkar og ný störf verða til. Segir Sigmar að þróunin sé á þá leið að greinina vanti starfskrafta með meiri menntun. „Siggeir Stefánsson hjá Ísfélaginu flytur erindi um þær áskoranir sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki standa frammi fyrir þegar þarf að reyna að laða menntað vinnuafl til starfa í smærri byggðakjörnum. Sæmundur Elíasson, doktorsnemi hjá HA og Matís, skoðar hinn vinkilinn og rýnir í það hvernig tæknin er að breyta störfunum í sjávarútvegi. Hann hefur m.a. grannskoðað þróunina á Grenivík þar sem sett var upp fullkomin vatnsskurðarvél og forvitnilegt að heyra hvort og hvernig tæknivæðing auðveldar sjávarútvegsfyrirtækjum að fá fólk til starfa, nú þegar sjálfvirkar vélar létta mörg erfiðustu verkin.“

Sjálfur flytur Sigmar fyrirlestur á ráðstefnunni þar sem hann segir frá eigin rannsóknum á efnahagslegu mikilvægi sjávarútvegs á Norðurlandi. „Hefur áður komið fram annars staðar hver velta sjávarútvegsfyrirtækjanna á svæðinu er og sum hafa látið reikna út skattspor sitt, en ég vildi fara hina leiðina og skoða hvað þessi fyrirtæki eru að borga í rekstrargjöld til stoðgreina sjávarútvegsins,“ útskýrir Sigmar og bætir við að fleiri njóti góðs af viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtækin en gæti virst í fyrstu.

„Við erum ekki bara að tala um umbúðir, veiðarfæri og vélar, heldur þarf að standa straum af ferðum starfsmanna, kaupa matvöru bæði fyrir þá sem vinna í landi og eins hina sem eru úti á sjó og jafnvel greiða fyrir heilbrigðisþjónustu ef slys ber að höndum. Er áhugavert að sjá hver heildaráhrifin eru og hvernig þau dreifast bæði um Norðurland og um landið allt.“

Unga fólkið áhugasamt

Spurður um horfurnar í greininni segir Sigmar ekki tilefni til annars en bjartsýni. Í gegnum rannsóknir sínar og störf við HA greinir hann að tækifærin eru mörg og áskoranirnar þess eðlis að á þeim má finna lausn ef allir leggjast á eitt. Segir hann líka að viðhorf landsmanna í garð sjávarútvegs fari batnandi og unga fólkið sé áhugasamara um að starfa við greinina. „Mikil aukning hefur verið í aðsókn í sjávarútvegsfræðinám HA og virðist ekki ætla að verða neitt lát þar á. Er ánægjulegt að konur eru að koma inn í námið af krafti og kynjahlutföllin nánast jöfn í nýnemahópnum.“