Daniel Ek, forstjóri Spotify, varar sænsk stjórnvöld við því að tæknifyrirtæki eins og hans kunni að hverfa úr landi.
Daniel Ek, forstjóri Spotify, varar sænsk stjórnvöld við því að tæknifyrirtæki eins og hans kunni að hverfa úr landi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Richard Milne, fréttaritara á Norðurlöndum Í Svíþjóð er eitt öflugasta samfélag tæknisprota í Evrópu en stofnendur Spotify telja þó úrbóta þörf til að koma í veg fyrir að þau fyrirtæki sem ná bestum árangri hverfi úr landi.

Spotify hefur hótað að snúa baki við heimalandinu Svíþjóð nema stjórnvöld grípi umsvifalaust til ráðstafana sem hjálpi sprotafyrirtækjum að stækka.

Daniel Ek og Martin Lorentzon, sem stofnuðu í sameiningu stærstu tónlistarstreymiþjónustu heims, hafa varað við því að þeir kunni að færa þúsundir starfa frá Svíþjóð til Bandaríkjanna ef ekki verði greitt úr vandamálum sem hafi að gera með húsnæði, menntun og kaupréttarsamninga.

„Til að ná árangri þarf maður að taka stöðugum breytingum og bregðast við án tafar. Þeir sem gera það ekki lenda í því að einhver annar tekur fram úr þeim,“ segja þeir félagar í bloggfærslu. „Það sama á við í stjórnmálunum. Í þessu máli er aðkallandi að gripið sé til aðgerða, því að öðrum kosti mun Stokkhólmur og Svíþjóð fara halloka í alþjóðlegri samkeppni.“

Stærstu fyrirtækin seld til Bandaríkjanna

Þeir benda á að af þeim fimm stóru sænsku tæknifyrirtækjunum sem náð hafi mestum árangri – svo sem leikjafyrirtækin Mojang og King, fjarskiptafyrirtækið Skype og netgreiðsluveitan Klarna – hafi þau þrjú fyrstnefndu öll verið seld til bandarískra fyrirtækja.

Viðvörun Spotify varpar ljósi á algengt umkvörtunarefni evrópskra tæknifyrirtækja, sem er að stjórnvöld geri ekki nóg til að hjálpa sprotum að þróast yfir í stærri fyrirtæki sem gætu keppt við risa á borð við Google, Facebook og Apple.

Ek og Lorentzon segja þetta vissulega vera „brjálað“ en bæta við að „við ætlum að sýna að þetta er gerlegt“.

Þörf á leiguhúsnæði og bættri forritunarkennslu

Þeir benda einkum á þrjú vandamál sem íþyngi fyrirtækinu í Svíþjóð.

Í fyrsta lagi er það fasteignamarkaðurinn, en jafnvel ýmsir sænskir stjórnmálamenn álíta að hann sé hættur að virka eðlilega vegna skorts á fasteignum til leigu, sem rekja má til kvaða sem lagðar eru á leigusala. Spotify er með fólk frá 48 löndum í vinnu hjá sér í Stokkhólmi en eins og kerfið er núna er oft auðveldara að kaupa íbúð en að leigja.

Í öðru lagi þarf að bæta menntakerfið og kenna fleiri börnum forritun og upplýsingatækni. „Við þurfum að byrja að forrita snemma í grunnskóla til að virkja þá hæfileika sem eru til staðar og koma í veg fyrir að við förum á mis við kvenkyns forritara,“ skrifa þeir.

Greiða ætti fyrir launagreiðslum með kaupréttum

Síðasti vandinn varðar hversu erfitt það er að borga starfsfólki með kaupréttarsamningum, sem veldur því að verr gengur að fá fólk til starfa.

„Þess vegna neyðumst við núna til að lýsa því yfir að ef engar breytingar verða gerðar verðum við að taka það til skoðunar að láta fyrirtækið vaxa meira í öðrum löndum en í Svíþjóð,“ segja þeir félagar.

Svíþjóð hefur yfir að búa einu öflugasta samfélagi tæknisprota sem finna má í Evrópu. En mörg fyrirtæki sem eru á fyrstu stigum kvarta yfir því, þó ekki opinberlega, að vinstrisinnuð ríkisstjórn Stefans Lofven forsætisráðherra sýni þeim lítinn áhuga.

„Hvenær sást síðast til Lofven kynna sér starfsemi einhvers okkar? Þau taka okkur, og árangri okkar, sem sjálfsögðum hlut,“ var haft eftir mikilsmetnum sænskum tæknifrumkvöðli nýlega.