Tvíburar í Hvolsskóla Í aftari röð frá vinstri eru: Þórunn og Unnur Óskarsdætur frá Hvolsvelli, Freyja og Oddný Benónýsdætur í Miðtúni, Ragnar Rafael og Guðni Steinarr Guðjónssynir frá Tjaldhólum. Í fremri röð frá vinstri eru: Gísli Jens og Baldur Bjarki Jóhannssynir frá Fit, Bryndís Rut og Lovísa Karen Gylfadætur á Hvolsvelli, Oddur Helgi og Þórdís Ósk Ólafsbörn á Hvolsvelli, Bjarni og Rúnar Þorvaldssynir frá Kornvöllum.
Tvíburar í Hvolsskóla Í aftari röð frá vinstri eru: Þórunn og Unnur Óskarsdætur frá Hvolsvelli, Freyja og Oddný Benónýsdætur í Miðtúni, Ragnar Rafael og Guðni Steinarr Guðjónssynir frá Tjaldhólum. Í fremri röð frá vinstri eru: Gísli Jens og Baldur Bjarki Jóhannssynir frá Fit, Bryndís Rut og Lovísa Karen Gylfadætur á Hvolsvelli, Oddur Helgi og Þórdís Ósk Ólafsbörn á Hvolsvelli, Bjarni og Rúnar Þorvaldssynir frá Kornvöllum.
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Sex tvíburapör eru í grunnskólanum á Hvolsvelli en 233 nemendur eru í skólanum.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Sex tvíburapör eru í grunnskólanum á Hvolsvelli en 233 nemendur eru í skólanum. „Þetta er greinilega mjög frjósamt svæði,“ segir Þórunn Óskarsdóttir, grunnskólakennari í Hvolsskóla, spurð út í tvíburapörin.

Þórunn er sjálf eineggja tvíburi og kennir 7. bekk í Hvolsskóla en í þeim bekk eru tvö tvíburapör. Það eru þau Oddur Helgi og Þórdís Ósk Ólafsbörn og Freyja og Oddný Benónýsdætur. Þær systur eru eineggja.

Erfitt að þekkja þær í sundur

„Það tók mig tvo og hálfan vetur að þekkja þær í sundur,“ segir Þórunn um Oddnýju og Freyju og hlær. „Mér fannst það pínu slæmt því ég lagði metnað minn í að þekkja þær í sundur. Það gekk ekki betur en þetta. En ég er búin að því núna. Ég fann einkenni,“ segir Þórunn sposk. Innt eftir því hvert einkennið sé, segir hún það vera örlítið ör á enni annarrar.

„Hitt parið í bekknum er strákur og stelpa og það auðveldaði mér þetta mjög mikið,“ segir hún glaðlega.

Þórunn þekkir af eigin raun að vera ruglað saman við tvíburasystur sína, Unni. Þeim er enn ruglað saman enda mjög líkar og ekki hjálpar að þær eru oftast með svipaða klippingu. Þær búa báðar á Hvolsvelli og er Unnur leikskólakennari í Leikskólanum Örk.

Þegar Þórunn var komin yfir þrítugt lét hún fjarlægja hvítan kalkblett á framtönn sem hún hafði alla tíð haft. Blettinn notaði fólk gjarnan til að þekkja þær í sundur. „Það fór alveg með marga þegar bletturinn var tekinn.“

Vilja skipta tvíburum

Þórunn á það sameiginlegt með systur sinni að í störfum þeirra með börnum reyna þær yfirleitt að setja tvíbura sinn í hvorn hópinn ef það er mögulega hægt. Það á sérstaklega við um samrýnda tvíbura og ef þeim er ruglað mikið saman. „Þetta var ekki gert með okkur. Maður hefur kannski sterkari tilfinningu fyrir þessu. Í rauninni er þetta einhver þörf fyrir að fá að vera hvor sinn einstaklingurinn og fá að þroskast sem slíkur. Að vera ekki alltaf tekinn sem tvíburarnir,“ segir Þórunn.

Nýverið hittist þannig á í Hvolsskóla að Unnur leikskólakennari var í skólaheimsókn með elsta leikskólahópinn. Systurnar voru því sjöunda tvíburaparið í skólanum þann daginn. Þess má geta að Unnur og Þórunn gengu báðar í Hvolsskóla á sínum tíma.