Bíll Mercedes Nico Rosberg á fullri ferð á Sakhir brautinni í Barein þar sem hann sigraði.
Bíll Mercedes Nico Rosberg á fullri ferð á Sakhir brautinni í Barein þar sem hann sigraði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Nýjar breytur, nýjar dekkjareglur, hafa haft mikil áhrif á keppni í Formúlu 1 kappakstrinum í ár • Vegna aukins dekkjavals er herfræði liðanna mun breytilegri en áður og taktísk spenna meiri • Búist er við enn meiri sviptingum í þeim efnum komandi sunnudag í Sjanghæ í Kína

Baksvið

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Formúlu 1 kappaksturinn í Sjanghæ í Kína komandi sunnudag verður vart hafinn er bílarnir munu streyma hver af öðrum inn að bílskúrum liðanna til dekkjaskipta. Sérfræðingar spá því að óvenjuleg herfræði liðanna muni leiða til einhvers konar dekkjafárs á bílskúrasvæðinu í Sjanghæ. Verður það þriðja mót ársins, en í hinum tveimur fyrstu buðu nýjar dekkjareglur upp á afar mismunandi keppnisáætlanir og úrslit sem þótt hefðu ólíkleg við upphaf keppnistíðarinnar.

Ástæðan fyrir þessu er að nú fá ökumenn þrenns konar dekk til að spila úr og reynslan sýnir að val þeirra er fjölbreytt og samsetning úthlutaðs dekkjaforðans jafnvel ólík innan sama liðsins.

Tæknistjóri Mercedes-liðsins, Paddy Lowe, spáir því að bílarnir byrji að streyma inn að bílskúrunum áður en fimm fyrstu hringjum verður lokið. Aðstæður í brautinni og áhrif þeirra á dekkjaslit muni valda því. Dekkjafyrirtækið Pirelli leggur til þrjár gerðir dekkja; ofurmjúk, mjúk og meðalhörð. Er það í raun hið sama og liðunum stóð til boða í tveimur fyrstu mótunum, í Melbourne fyrir mánuði og Barein fyrir hálfum mánuði. Lowe segir að enn meira muni þó mæða á dekkjunum í Sjanghæ vegna brautaraðstæðna.

„Hún reynir allt öðru vísi á dekkin en hinar tvær fyrri. Þar sem um eins hjólbarða verður að ræða í Kína verður fróðlegt að sjá hvernig úr keppnisáætlunum spilast og ökumenn raðast. Ofurmjúku dekkin verða brúkuð þar í fyrsta sinn, þökk sé nýju reglunum, og það mun bjóða upp á meiri öfgar en við sáum í Barein, þar sem bestu dekkin fyrir tímatökuna verða tæplega góð fyrir keppnina sjálfa. Búast má við að öll liðin vilji fara í tímatökuna á þeim ofurmjúku en kvarnist fljótt úr þeim í kappakstrinum gætum við séð bíla stoppa til dekkjaskipta á fyrstu fimm hringjunum,“ segir Lowe í aðdraganda Kínakappakstursins.

Hann segir að í ljósi alls þessa muni liðin fara í gegnum mikla greiningarvinnu á æfingunum á morgun, föstudag. „Við gætum orðið vitni að áhugaverðum ákvörðunum í tímatökunni og fróðlegri keppnisherfræði. Óræðar aðstæður munu flækja málið og gera liðunum enn erfiðara fyrir í ákvarðanatöku sinni. Það getur verið mjög heitt í Sjanghæ en getur líka verið svalt, eins og til dæmis í Belgíu. Um það er erfitt að spá fyrir fram. Veðursveiflur geta verið hrekkjóttar bæði hvað varðar uppsetningu bíla og keppnisherfræði. Þess vegna er keppnishelgin í Kína alltaf mikil áskorun,“ segir tæknistjóri toppliðs Mercedes.

Mercedes stendur best að vígi

Ökumenn keppnisliðs þýska bílsmiðsins standa ótvírætt best að vígi fyrir nýhafna keppnistíð. Virðist samt svo sem önnur lið séu að draga á, ekki síst Ferrari, en einnig Red Bull. Hið sama er að segja um bæði McLaren og Renault en lánið var þó ekki með þeim í Melbourne og Barein. Williams-liðið stendur nokkurn veginn í stað ef marka má fyrstu mótin. Það sem mest hefur komið á óvart er frækilegur árangur nýja bandaríska liðsins Haas, sem slegið hefur í gegn með góðri frammistöðu franska ökumannsins Romain Grosjean. Varð hann sjötti í mark í fyrsta móti og í fimmta sæti í Barein. Í báðum tilvikum var hann valinn ökumaður dagsins. Sjaldgæft er að ný lið nái svo langt í fyrstu mótum sínum. Segir Grosjean bíl liðsins ótamið hross að verulegu leyti og því búi mikið meira í honum.

Nico Rosberg hrósaði sigri bæði í Melbourne og Barein. Lykillinn að því var að hann kom bíl sínum mun betur úr sporunum í ræsingunni í báðum mótum en liðsfélaginn og heimsmeistarinn Lewis Hamilton. Hafnaði hann í öðru sæti í Melbourne og því þriðja í Barein og munar 17 stigum á þeim félögunum í titilkeppninni eftir tvö mót, 50:33. Hamilton kveðst „ekki áhyggjufullur“ út af slæmri byrjun. „Þetta er ekki stórmál, þetta er atriði sem við munum laga fyrir næsta mót,“ segir Hamilton. Hann sagði vandamál í kúplingu skýra slakt viðbragð í Melbourne og hægan viðbragðstíma hjá honum sjálfum í Barein. Hann segist ekki hafa áhyggjur af forskoti Rosbergs, hann hefði gengið í gegnum slíkt hið sama í fyrra. „Vissulega eru þetta sálfræðileg átök en með aldrinum og reynslunni er ég andlega betur á mig kominn en nokkru sinni fyrr. Það er fátt sem kemst inn fyrir brynvörn mína.“

Rosberg á siglingu

Rosberg hefur verið á mikilli siglingu og unnið síðustu fimm mótin í Formúlu 1 í röð, þ.e. þau þrjú síðustu í fyrra og fyrstu tvö í ár. Þess má þó geta að Hamilton hefur verið sigursælli í Sjanghæ en aðrir ökumenn, staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins fjórum sinnum og staðið á verðlaunapalli undanfarin sex skipti, frá og með 2010.

Mercedes-stjórinn Toto Wolff segir að liðið megi engin mistök gera í Sjanghæ, svigrúmið sé ekkert í þeim efnum. Stendur honum einkum stuggur af bílum Ferrari, sem eru mun hraðskreiðari og snarpari en í fyrra en líða enn fyrir endingarskort. Þannig féll Kimi Räikkönen úr leik í fyrsta móti vegna vélarbilunar og sömu örlög biðu Sebastians Vettel í Barein. Eftir tvö fyrstu mótin eru þeir í fjórða og sjötta sæti í keppni ökumanna. Daniel Ricciardo hjá Red Bull er þriðji með 24 stig, Räikkönen fjórði með 18, Grosjean fimmti, einnig með 18 stig, og Vettel sjötti með 15 stig.

Mikið forskot

Vegna bilana Ferrari-bílanna er Mercedes strax komið með 50 stiga forskot í keppni liðanna, 83:33. Í þriðja sæti er Red Bull með 30 stig, Williams í fjórða með 20 og Haas í því fimmta með 18 stig.

Tveir málsmetandi fyrrverandi ökumenn telja Ferrari ekki í stakk búið til að leggja Mercedes að velli í ár. „Nei,“ segir austurríski ökumaðurinn Gerhard Berger af miklum þunga við vikuritið Auto Bild. „Forskotið sem Mercedes naut í fyrra var einfaldlega það mikið að Ferrari getur ekki brúað það svo fljótt,“ segir Berger, sem á sínum tíma vann 10 mót í Formúlu 1.

Þetta tekur svo Skotinn David Coulthard undir þótt hann segi Ferrari greinilega nær Mercedes nú en í fyrra.

„Ég býst við að Mercedes vinni titlana aftur í ár,“ segir þessi fyrrverandi ökumaður Williams, McLaren og Red Bull og núverandi sjónvarpsmaður. „Drottnun verður erfið og ég held að Ferrari muni knýja ökumenn Mercedes upp á tærnar. Ég sé fyrir mér að keppnin um titil ökumanna verði milli ökuþóra Mercedes,“ segir Coulthard. Telur hann Nico Rosberg loks munu eiga góða möguleika á að leggja Lewis Hamilton að velli. „Tölfræðin sýnir að sérhver ökumaður sem vinnur fimm mót í röð stendur uppi sem heimsmeistari. Það yrði miður ef Nico afsannaði það.“

Tímataka með gamla laginu

Fyrirvaralitlar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi tímatökunnar í fyrsta móti ársins, í Melbourne. Og þrátt fyrir að allt færi í loft upp af óánægju, bæði af hálfu liðanna, ökumanna, unnenda íþróttarinnar og fjölmiðla, var sami háttur hafður á í Barein. Var þar brúkað flókið útsláttarfyrirkomulag í þeim tilgangi að fjörga tímatökuna og auka á óvissu í keppninni um ráspól móta. Snerist það upp í andstæðu sína og algjöra lágkúru. Létu ráðamenn loks undan og verður aftur horfið til sama fyrirkomulags og gilt hefur mörg undanfarin ár. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að aðilar málsins verða að setjast niður og móta nýtt fyrirkomulag á tímatökunni fyrir næsta ár. Claire Williams, liðsstjóri liðsins sem kennt er við föður hennar, segir að tímatökuhneykslið ætti að kenna forsvarsmönnum liðanna og íþróttarinnar að stunda ekki tilraunastarfsemi í keppni. „Við þurfum að vanda okkur betur og forðast hneykslan áhorfenda og unnenda íþróttarinnar.“ Hún segir það hafa verið létti þegar FIA féllst á að afleggja útsláttarfyrirkomulagið nýja.

Valdabarátta um tæknireglur

Nú þegar deilan um tímatökurnar mun sjatna kraumar annars konar valdabarátta að tjaldabaki í formúlunni. Þar eiga í hlut nýjar tæknireglur sem eiga að koma til framkvæmda 2017. Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hefur þegar lagt fram tillögur um breytingar á yfirbyggingu keppnisbíla sem m.a. ættu að stórauka hraða bílanna, svo nemur fimm sekúndum á hring miðað við núverandi bíla. Verða bílarnir breiðari og dekkin sömuleiðis.

Tillögur FIA hafa fengið heldur daufar viðtökur hjá ökumönnum, sem óttast að aukin vængpressa dragi úr möguleikum til framúraksturs. Heimsmeistarinn frá 1997, Jacques Villeneuve, kann ekki að meta stöðugar breytingar á tæknilegum forsendum bílanna.

Hann segir að liðin og FIA eigi að hætta að fikta eilíft í bílaformúlunni.

„Þeir ættu að hætta þessum reglubreytingum og það strax. Í öllum eðalíþróttum, eins og tennis og fótbolta, hafa reglurnar ekkert breyst í hundrað ár, ekki einu sinni þegar þær hafa verið leiðinlegar. Og fólk virðir það,“ segir Villeneuve hinn orðhvati. Liðin hafa frest til 30. apríl til að komast að samkomulagi um 2017-reglurnar.

Það er fleira sem Formúla 1 fæst við en keppnisreglur; þar er einnig tekist á um peninga og þykir mörgu liðinu það bera skarðan hlut frá borði. Því er á stundum fleygt fram að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal. Má með sanni segja að það eigi vel við í Formúlu 1. Í augum liðanna eru þeir eru eins og óskasteinninn í þjóðsögunum, sem gat galdrað fram alla þá hluti sem hugurinn girntist.