Barokk Hildigunnur Einarsdóttir söngkona, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Laufey Jensdóttir fiðluleikarar og Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngkona voru meðal þeirra sem komu fram á tónleikunum Barokk og brjálsemi.
Barokk Hildigunnur Einarsdóttir söngkona, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Laufey Jensdóttir fiðluleikarar og Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngkona voru meðal þeirra sem komu fram á tónleikunum Barokk og brjálsemi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
16.-17. aldar verk eftir Agrell, Vivaldi, Roman, Caldara og Sances. Barokkbandið Brák (Kinga Ujzsazsi, Gróa Margrét Valdimarsdóttir & Helga Þóra Björgvinsdóttir 1. fiðla, Laufey Jensdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir & Gunnhildur Daðadóttir 2.

16.-17. aldar verk eftir Agrell, Vivaldi, Roman, Caldara og Sances. Barokkbandið Brák (Kinga Ujzsazsi, Gróa Margrét Valdimarsdóttir & Helga Þóra Björgvinsdóttir 1. fiðla, Laufey Jensdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir & Gunnhildur Daðadóttir 2. fiðla, Guðrún Hrund Harðardóttir & Þóra Margrét Sveinsdóttir víóla, Guðný Jónasdóttir selló, Richard Korn bassi og John McKean semball). Hildigunnur Einarsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngkonur. Listrænir stjórnendur: Elfa Rún Kristinsdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Laufey Jensdóttir. Sunnudaginn 10. apríl 2016 kl. 20.

Barokk og brjálsemi“ var sérkennilega egnandi fyrirsögn Hörpuvefjarins til kynningar á tónleikum Barokksveitarinnar Brákar sl. sunnudagskvöld. Hvað réttlætti seinna orðið vafðist ögn fyrir mér og sjálfsagt fleirum, því önnur eins seiðandi fágun í klassískum strengjaflutningi fámenns hljómlistarhóps í yngri kantinum hafði tæplega heyrzt hér síðan Skark -sveitin dustaði rækilega rykið af Grieg, Arnold og Bartók á eftirminnilegri Tónlistarhátíð unga fólksins í Salnum 4.8. 2009. En að vísu var þrefalt eldri tónlist á boðstólum, og stundum eftir lítt þekkta meistara í þokkabót, svo kannski veitti ekki af að kynda undir forvitni.

Aðsóknin var a.m.k. furðugóð miðað við núgildar aðstæður og vakti óljóst hugboð um að e.t.v. tengir hin nú algilda ,upprunanálgun‘ yngri eyru betur en annað við forntónlist – ekki ósvipað og rafrokk við nýjustu framúrstefnu. Nákvæmlega hvernig liggur varla á lausu, og væri fróðlegt að fá á hreint. Hitt er þakkarverðara, á tímum þegar fjölmiðlar hossa unnvörpum misslöku markaðspoppi, að heyra unga flytjendur leika eldforn tónverk af þvílíkri fagmennsku, alúð og samtaka natni og hér mátti heyra – og fyrir yngri hlustendur en oftast má sjá á vettvangi SÍ eða Kammermúsíkklúbbsins!

Það sem umfram annað einkenndi túlkun Brákar, ekki sízt í fjölmennari áhöfnum, var hófstilltur styrkur – allt niður á hvíslandi pppp . Það laðaði fram óvænta spennu og dulúð í gjöfulli andstöðu við oft eitilsnögg styrkris, og var óneitanlega fágæt upplifun að heyra á einum og sama tíma fislétt bogastrok á leiftrandi hnífsamstilltum hraða.

Verkin sjö spönnuðu rúma öld eða frá frum- í síðbarokk. Meðal þeirra voru Sinfónía eftir sænska síðbarokkmeistarann J. J. Agrell og Fiðlukonsert eftir landa hans J. H. Roman, „hinn sænska Händel“; sérlega lífleg smíð með kattliðugan einleik Kingu Ujszaszi í forgrunni. Á milli þeirra söng Lilja Dögg í kantötu eftir eftir Vivaldi og sýndi efnilega altrödd þó varla væri enn fullmótuð. Hildigunnur gerði næst látlausri fylgibassaaríu eftir Caldara ágæt skil.

Kinga og Laufey sáu síðan um tvíleiksfiðlurnar í Tríósónötu Agrells, og söngkonurnar sungu saman dúett í elzta verki kvöldsins, stuttri sjakonnukantötu G. F. Sancesar við 4 takta sítrekið þrábassastef eins og vinsælt var landsyðra á öndverðri 17. öld. Loks var bráðskemmtileg lítil Sinfónía eftir Vivaldi í g RV 156 er Brákarbandið flutti með slíkum sópandi „gusto“ að ekki varð á betra kosið, við að vonum eldheitar undirtektir áheyrenda.

Ríkarður Ö. Pálsson