Nornin Gífurlega vel leikin, sviðsetningin frábær, stemningin óvenjuleg og óhugnaðurinn situr lengi eftir.
Nornin Gífurlega vel leikin, sviðsetningin frábær, stemningin óvenjuleg og óhugnaðurinn situr lengi eftir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Robert Eggers. Aðalleikarar: Ralph Ineson, Kate Dicke, Anya Taylor-Joy og Harvey Scrimshaw. Bandaríkin 2015, 90 mínútur.

Fyrsta mynd leikstjórans Robert Eggers, The Witch , eða Nornin , hefur fengið mikið lof gagnrýnenda og verið kölluð ein óhugnanlegasta hryllingsmynd síðustu ára. Sögusviðið er Bandaríki landnema árið 1630, rúmum fimmtíu árum áður en hinar sögufrægu og hryllilegu nornaveiðar og réttarhöld í Salem áttu sér stað. Þá sögu þekkja eflaust margir í gegnum leikritið Eldraunina ( The Crucible ) eftir Arthur Miller.

Ég las viðtal við Eggers þar sem hann sagði frá því að kvikmyndin Rosemary‘s Baby eftir Polanski væri hans helsti áhrifavaldur. Þrátt fyrir að sögusviðið sé allt annað, er augljóst að áhrif frá hinum undirliggjandi tryllingi sem einkennir myndir eins og til dæmis Rosemary‘s Baby og The Shining eru sterk. Það sem gerir Nornina svo óhugnanlega er einmitt ekki endalaus morð og viðbjóður eins og gjarnan er að finna í nútíma hrollvekjum, heldur hlutirnir sem við sjáum ekki. Hryllingnum bregður aðeins fyrir í hröðum augnablikum þar sem áhorfandinn spyr sig, sá ég þetta? Sá ég þetta ekki? Vildi ég sjá þetta? Og sekkur enn dýpra ofan í bíósætið með hendur fyrir augu.

Sagan fjallar um fjölskyldu púritana sem hrökklast frá landnemabyggð vegna deilna og þau byggja sér nýtt heimili með nokkrar geitur í fátæklegum kofum í skógarjaðrinum. Trú þeirra er svo heit að það jaðrar við geðveiki, faðirinn (leikinn af Ralph Ineson úr The Office ) þylur upp vers úr Biblíunni og hann, kona hans og börnin fjögur tala næstum illskiljanlega gamaldags ensku með norður-enskum hreim. Við skynjum hversu mikil hræðsla fylgir þessu nýja lífi þeirra í nýrri heimsálfu: þau hræðast hungur, hræðast villidýr, mögulega hræðast þau innfædda en aðallega hræðast þau guð og endalausa bölvun í helvíti.

Hryllingurinn hefst þegar táningsstúlkan Thomasine (leikin af Anya Taylor-Joy) er að passa yngsta soninn, ungbarn, sem hverfur nánast fyrir framan augun á henni, sporlaust. Í kjölfarið steypist líf fjölskyldunnar í gríðarlega sorg, endalausar bænir og ásakanir um að barnshvarfið gæti verið stúlkunni að kenna. Auk þess telja þau líklegt að vesalings barnssálin sé komin til helvítis þar sem ekkert lík finnst. Það virðist sem allir fjölskyldumeðlimir hafi eitthvað að fela. Yngri bróðirinn Caleb (Harvey Scrimshaw) leiðir sakbitin augun af og til að blómstrandi barmi eldri systur sinnar, faðirinn selur silfurbikar konu sinnar í laumi, og hin ungu og gríðarlega „krípi“ tvíburar segjast tala við svörtu geitina Black Philip á degi hverjum.

Sviðsmyndin er öll grátóna, hér er rakt, rigning, umhverfið er í senn ömurlegt og skelfilegt. Áhorfandinn virðist alltaf vita aðeins meira en persónur kvikmyndarinnar. Við sjáum afdrif ungbarnsins, þó aðeins í sekúndubrot, hrylling sem seint gleymist. Og það er eitthvað afar skrýtið við þessa geit. En allt í gegnum myndina vitum við ekki hvað er raunverulegt og hvað ekki. Er fjölskyldan á barmi móðursýki og sturlunar, er þetta allt ímyndun, eða er ógnin í skóginum raunveruleg? Einhvernveginn verður áhorfandinn jafn vænisjúkur og fjölskyldan á hvíta tjaldinu.

Atburðarásin spírallast svo út í gersamlega geðveiki og óhugnað og í lokin kemur svar við öllum spurningum okkar um hvað er í raun og veru að gerast.

Það sem mér fannst mjög vel úthugsað og skemmtilegt í kvikmynd Eggers er hvernig hann notar samtöl sem hann tekur beint upp úr gömlum heimildum um nornaréttarhöldin í Salem. Hann blandar táknum inn í myndina um hið „óeðlilega“ eins og þekkist í verkum Shakespeares, hér eru dýr sem haga sér einkennilega: hérinn í skóginum, svört geit sem mögulega talar, svartur hrafn, geit sem mjólkar blóði. Einnig er að finna mjög táknrænar vísanir í ævintýrin: norn bregður fyrir með rauða hettu, epli sem stendur í barni. Og svo er það undirliggjandi hræðslan við konur, hræðslan við þá töfra sem gerast þegar ung stúlka verður að konu, hræðslan við að konan sé í eðli sínu veiklynd og geti auðveldlega snúist yfir á band djöfulsins.

Í heildina er Nornin gífurlega vel leikin mynd, sviðsetningin frábær, stemningin óvenjuleg og óhugnaðurinn situr lengi eftir hjá áhorfandanum.

Anna Margrét Björnsson