Annar heimur Elín Kristindóttir segir að það hafi verið undarlegt að koma til Grikklands. „Mér fannst eins og ég væri dottin inn í annan heim.“
Annar heimur Elín Kristindóttir segir að það hafi verið undarlegt að koma til Grikklands. „Mér fannst eins og ég væri dottin inn í annan heim.“ — Morgunblaðið/Guðrún Vala Elísdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðrún Vala Elísdóttir vala@simenntun.

Viðtal

Guðrún Vala Elísdóttir

vala@simenntun.is

Elín Kristinsdóttir, fjögurra dætra móðir og deildarstjóri sérkennslu í Grunnskólanum í Borgarnesi, gerði víðreist um páskana, þegar hún fór til Grikklands að hitta elstu dóttur sína sem starfar þar sem sjálfboðaliði og aðstoðar flóttafólk.

„Ég fór fyrst til Spánar í smá frí að heimsækja systur mína sem þar býr. Þaðan fór ég til Grikklands að heimsækja elstu dóttur mína, Heiðu Karen, sem hefur dvalið þar ásamt Benjamín kærasta sínum undanfarna mánuði sem sjálfstæður sjálfboðaliði í hjálparstarfi fyrir flóttafólk. Til að byrja með voru þau sjálfboðaliðar í súpueldhúsi á eyjunum Samos, Lesbos og Chios. Þar voru súpur eldaðar í risapottum og svo útdeilt til flóttafólks sem hafði komist til eyjanna, margt við illan leik, frá Tyrklandi. Rétt fyrir jól fóru þau svo upp á land, til Aþenu, þar sem þau m.a. voru með hópi fólks að gefa heitt te á Viktoríutorgi á jóladag. Nú er búið að banna allt slíkt og sjálfboðaliðir því reknir burt með harðri hendi ef þeim dettur einhver svona „vitleysa“ í hug. Ástæðan er sú að svona athæfi laðar bara að flóttafólk því fólkið hópast saman þar sem það getur átt von á matar-, hreinlætisvöru eða fatagjöfum,“ segir Elín.

Aðdáunarvert hvað er mikill stuðningur við flóttafólk

Hún fór beint til Aþenu, dvaldi þar í fjóra daga og fékk að fylgja dóttur sinni eftir í hennar störfum.

„Ég fékk ágæta innsýn í hennar líf þarna úti, en það var undarlegt að koma til Grikklands. Mér fannst eins og ég væri dottin inn í annan heim, heim dóttur minnar sem ég hafði þá ekki séð í fimm mánuði.“

Elín segir undarlegt að upplifa þetta og að það hafi tekið á. „Það var auðvitað yndislegt að fá að hitta hana og knúsa og finna að hún er enn alveg sama yndislega manneskjan, þó svo að þessi lífsreynsla hafi óneitanlega og auðsjáanlega haft mikil áhrif á hana. Það er eflaust erfitt að upplifa það að geta ekki hjálpað meira, gert meira gagn, þó svo að það sé verið að allan sólarhringinn. Þau hafa talað um það að erfiðast sé að geta ekki hjálpað flóttafólki að halda áfram með sitt líf, bara verið að plástra og bíða, og horfa svo upp á ofbeldi yfirvalda og annarra gagnvart þessum hópi. Upp til hópa er samt ótrúlegt og aðdáunarvert hvað mikill almennur stuðningur er við flóttafólk. Fólk sem hefur lítið til skiptanna gefur mest. Það fannst mér koma afskaplega skýrt fram.“

Matjurtagarður á þakinu

Eftir áramótin fór Benjamín aftur út í eyjarnar en Heiða Karen hófst handa, ásamt hópi fólks sem þau höfðu kynnst, við að koma upp heimili fyrir hóp flóttafólks í yfirgefnu húsi. Þau hafa nú haldið því gangandi í nokkra mánuði og kom það Elínu á óvart hversu umfangsmikið þetta er.

„Þau sjá nú um tvö hús og þar búa um 150 manns. Þetta kallar á mikið skipulag og samvinnu því verkefnin og vandamálin eru mýmörg eins og gefur að skilja. Þau þurfa að útvega það sem þarf, sjá um matar- og kaffitíma, fara með fólk til læknis, fá lögfræðiaðstoð og sinna öðru því sem fellur til á stóru heimili. En allt leysa þau með einhverjum ráðum og allir hjálpast að.“ Áður en Elín fór til Grikklands þá datt henni í hug að athuga hvort einhverjir hefðu áhuga á því að leggja í púkk til að útbúa matjurtargarð í kössum og blómapottum á þaki hússins, en það var eitt af því sem Heiðu Karen langaði til að gera. Dágóð upphæð safnaðist svo hafist var handa við að koma garðinum upp. Nú getur fólkið því farið upp á þak á minna húsinu, því sem er heimilislegra, rótað í matjurtargarðinum sínum og ræktað þannig sálina og nært sig í leiðinni.

Heiða Karen er farin aftur yfir til Samos og ætlar að vera þar ásamt Benjamín í einhvern tíma. Elín segir ástandið þar síður en svo hafa batnað, og ótrúlega sorglegt sé að horfa upp á allt úrræðaleysið og vonleysið sem ríkir í þessum málum.

Vandinn ekki fólkið heldur aðstæðurnar sem það flýr frá

„Því miður virðast engar raunverulegar lausnir vera í sjónmáli en þörfin á því að heimsbyggðin finni í sameiningu lausn sem vit er í öskrar á mann. Þegar ég heyrði fyrst af hugmyndum Heiðu Karenar og vina hennar um ferðafrelsi og opin landamæri þá fannst mér sú sýn ekki alveg raunhæf en eftir að hafa velt þessu fyrir mér í tvö ár eða svo þá er ég komin að þeirri niðurstöðu að það sé raunverulega eina leiðin. Alveg eins og að okkur finnst sjálfsagt að við getum farið yfir landamæri eins og ekkert sé. Það er nefnilega einmitt þessi misskipting lífsgæða sem er ekki að ganga upp og elur af sér öll þessi risastóru vandamál. Það sem við gætum gert í þessu held ég að væri helst það að hafa svolítið opinn huga. Skoða fordómana okkar og velta fyrir okkur á hverju þeir byggjast. Vita svo hvort við getum kannski dregið aðeins úr þeim,“ segir Elín.

Hún ítrekar að við megum ekki gleyma því að yfir helmingur flóttamanna er börn, sum hver ein á ferð og þetta er engin skemmtiferð. „Evrópa fær til sín aðeins örlítið brot af öllum þeim fjölda manns sem er á flótta undan, í besta falli, ómannsæmandi aðstæðum. Það sem við köllum því flóttamannavanda er í rauninni bara sýnishorn af þeim vanda sem fólkið raunverulega á í og er að reyna að flýja undan. Vandinn er sem sé ekki fólkið sem er á flótta heldur aðstæðurnar sem það getur ekki búið við.“

Elín viðurkennir að það hafi verið erfitt að skiljast við dótturina aftur í lok dvalarinnar. „Ég hefði helst viljað taka hana heim og pakka henni inn í sængina sína. En líklega er hún bara einmitt að gera það þarna úti, þ.e. pakka þeim sem hún getur inn í sængina sína,“ segir Elín og er ánægð með framlag dótturinnar til mannúðarmála.