Þorgrímur segir brýnt að auka þorskkvóta og gagnrýnir m.a. Hafró.
Þorgrímur segir brýnt að auka þorskkvóta og gagnrýnir m.a. Hafró. — Morgunblaðið/Alfons
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Íslenskur fiskur er í harðri samkeppni við önnur matvæli, en til að greinin geti unnið saman á erlendum mörkuðum þurfa allir að sitja við sama borð heima fyrir, segir Þorgrímur hjá Frostfiski og gagnrýnir meðal annars tvöfalda verðlagningu á hráefni.

Þorgrímur Leifsson vill meina að það sé útbreiddur misskilningur að það hafi verið framsali aflaheimilda að þakka að íslenskur sjávarútvegur fór að fá hærra verð fyrir fiskafurðirnar eftir 1992. „Það var afnám einkaleyfa í sölu á fiskafurðum sem orsakaði það að við fórum að finna betri viðskiptavini sem kunnu að meta nýjan og ferskan fisk,“ segir hann.

Frumkvöðlar í ferskum fiski

Bræðurnir Þorgrímur og Steingrímur Leifssynir reka fiskvinnsluna Frostfisk ehf. Fyrirtækið er með frystihús í Þorlákshöfn þar sem starfa 100 manns og þurrkverksmiðju í Ólafsvík með 35 starfsmenn. Í frystihúsinu eru unnin 12.000 tonn ár hvert og svipað í þurrkverksmiðjunni.

Fyrirtækið er stofnað, segir Þorgrímur, um það leyti sem einkaleyfi á útflutningi sjávarafurða var að brotna upp og fiskmarkaðirnir að taka á sig núverandi mynd. „Hófum við að vinna og flytja út ferskan þorsk, ýsu og ufsaflök, sem fram að því hafði verið frístundavinnsla nokkurra manna á vetrum á Suðurnesjum. Þessu breyttum við í heilsársviðskipti. Við bræður og örfáir aðrir hlupum um heiminn og fundum flotta heildsala sem voru með aðgang að flottum „high end“ stórmörkuðum og veitingastöðum. Útkoman var sú að við fengum töluvert hærra verð fyrir fiskinn en áður hafði þekkst. Þetta byrjaði í Bandaríkjunum og síðan með sömu aðferð til Bretlands og svo koll af kolli til Belgíu, Sviss og Frakklands.“

Þorgrímur segir spennandi möguleika felast í því að meðalþyngd þorsks á Íslandsmiðum er í dag um 5 kg en var aðeins 2,2 kg fyrir fimmtán árum. „Við erum allt í einu komin með tvær tegundir af þorski til að selja; margar stærðir af þorsklundum sem opna endalaus tækifæri til að selja í fínni verslunum,“ útskýrir hann og varar við því að greinin sofni á verðinum. Segir Þorgrímur að fiskurinn sé í harðri samkeppni við önnur matvæli.

Harðari slagur vegna Rússlands

„Við þurfum að átta okkur á því að ef við vöndum okkur ekki við að finna og sinna vel borgandi kúnnum í heiminum þá fáum við helmingi lægra verð fyrir afurðirnar. Öll matvara sem framleidd er á túnum í Evrópu fyrir venjulegan markað, s.s. mjólk, kjöt og hvaðeina, hefur lækkað um tugi prósenta síðan Rússland lokaðist. Til að sinna háklassa markaðnum þurfum við að vinna 52 vikur á ári til að hafa hillur verslana bólgnar af vöru ef ekki á að koma eitthvað annað í staðinn. Það er til nóg af mat sem er tilbúinn til að lúra í þessum hillum.“

Er Þorgrímur ekki í nokkrum vafa um að greinin hefur alla burði til að standa uppi í hárinu á samkeppninni. „Kosturinn við Ísland er að við getum alltaf veitt, sama hvernig vindar blása – það er dýrmætt. Við þurfum að markaðssetja okkur miklu betur en við höfum gert og erum raunverulega í heilsugeiranum með okkar vöru ef við vöndum okkur, með hreinan sjó og hreint vatn. Það þarf að fræða starfsfólkið betur og það þarf aga til að vinna fyrir kröfuharða markaði.“

Alls ekki ánægður með Verðlagsstofu skiptaverðs

Talið færist yfir í markaðsstarfið og hugmyndir um að sameina krafta greinarinnar, t.d. að norskri fyrirmynd. „Til að við Íslendingar getum farið í sameiginlegt markaðsstarf þarf að búa þannig um hnútana að hér sitji allir við sama borð og sömu reglur gildi fyrir alla,“ segir Þorgrímur og tiltekur sérstaklega vigtarreglur, þ.e. að við kaup og sölu á fiski megi vigta með eðlilegri yfirvigt eins og tíðkast þegar verslað er með blauta vöru. „Af hverju í ósköpunum er tvöföld verðlagning á hráefninu til vinnslunnar?“ spyr Þorgrímur jafnframt. „Má ekki markaðsverð gilda? Hvað er að því? Hvað er Verðlagsstofa skiptaverðs; eitthvert apparat til að lækka hráefnisverð fyrir þá sem landa hjá sjálfum sér, en selja svo fiskinn á heimsmarkaðnum við hliðina á hinum sem kaupa á opnum markaði á yfirleitt miklu hærra verði. Er þetta ekki niðurgreiðsla?“

Loks segir Þorgrímur brýnt að auka þorskkvótann án tafar. „Það eru margir þorskstofnar við Ísland, það vita allir sem eru búnir að vera lengi við veiðar og vinnslu. Þetta eru staðbundnir stofnar og göngustofnar. Hafrannsóknastofnun þarf að fara rétt með þetta og að lokum þá þurfa pólitíkusar að fara að haga sér eins og fólk og leyfa fólki að vinna á þessu landi við eðlilegt samkeppnisumhverfi, annars kemst engin ró hér á hlutina.“

Þarf inngrip frá Bessastöðum í Nígeríu?

Eins og fyrr sagði rekur Frostfiskur fiskþurrkun í Ólafsvík og eru þar einkum framleiddir þurrkaðir hausar, beingarðar, og dálkar. Hefur Nígería verið stærsti kaupandinn en þar er núna mikið upplausnarástand og stjórnvöld hafa takmarkað verulega innflutning á matvælum.

„Fyrrverandi forseti og fjármálaráðherra skiluðu ekki af sér góðu búi og því er lausafjárstaða landsins bágborin. Ekki hjálpaði landinu að olía hefur fallið í verði og það minnkar tekjurnar af olíulindunum. Þá eru ráðamenn að beita höftum til að reyna að fá þjóðina til að framleiða sín eigin matvæli, en vitaskuld er þeim ekki að fara að takast að rækta þurrkaða fiskhausa,“ útskýrir Þorgrímur

Þegar mest lét fluttu íslensk fyrirtæki út þurrkaðar fiskafurðir til Nígeríu fyrir um 12-13 milljarða króna. „Þurrkuðu fiskafurðirnar eru þeirra salt og pipar og notað sem bragðbætir í allan mat,“ segir Þorgrímur og bendir á að ekki sé að því hlaupið að finna annan kaupanda að vörunni.

Það þarf, að sögn Þorgríms, að koma því til leiðar að þurrkaður fiskur verði tekinn af lista stjórnvalda í Nigeríu yfir þær vörur sem ekki má flytja inn. Hvernig má koma því til leiðar er erfitt að segja til um. „Það er ekki hægt að senda mann þangað með bindi og skjalatösku og halda að hægt sé að fá banninu aflétt. Forsætisráðherrann er hálfgerður einræðisherra og nennir ekki að tala við neinn, nema kannski aðra þjóðhöfðingja. Líklega væri það ekki á valdi neins nema Ólafs Ragnars að fara í málið.“