Guðmundur Guðjónsson, óperusöngvari, húsgagnasmiður og sviðsstjóri hjá RÚV, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund mánudaginn 11. apríl, 94 ára að aldri. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson smiður.

Guðmundur Guðjónsson, óperusöngvari, húsgagnasmiður og sviðsstjóri hjá RÚV, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund mánudaginn 11. apríl, 94 ára að aldri. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson smiður. Hann átti fimm systkini, sem öll eru látin.

Guðmundur lærði húsgagnasmíði og starfaði sem sviðsmaður á RÚV. Kunnastur var Guðmundur þó fyrir sönginn. Hann fór með tenórhlutverk í fjölmörgum óperum og í yfir 200 sýningum. Hann kom víða fram á söngskemmtunum um árabil, ýmist með fremstu söngvurum landsins eða sem einsöngvari. Guðmundur söng einnig um langt árabil með Karlakór Reykjavíkur og oft sem einsöngvari. Hann starfaði síðar með eldri félögum í kórnum. Þegar Rás 1 gerði þáttaröðina Sungið með hjartanu árið 2002 var Guðmundur einn af þeim sem þar hljómuðu. Í þáttunum, sem voru níu talsins, voru leiknar upptökur með nokkrum af frumkvöðlum í óperuflutningi hérlendis.

Í Morgunblaðinu 1965 segir í umsögn um óperuna Madame Butterfly, sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu, að söngur Guðmundar, sem fór með hlutverk liðsforingjans B. F. Pinkerton, þætti góður, röddin björt og henni beitt af góðri kunnáttu og smekkvísi.

Guðmundur kvæntist Kristínu Bjarnadóttur þann 21. október 1944. Eignuðust þau þrjú börn; Guðrúnu, Hafstein og Ernu.