Kristinn Alfreð Sigurðsson fæddist í Reykjavík 15. júní 1981. Hann lést á heimili foreldra sinna í Hafnarfirði 18. mars 2016.

Foreldrar hans eru Sigurður Herlufsen heildsali, f. 1936, og Sigríður Rósa Bjarnadóttir, f. 1938. Systkini hans eru Auður Svanhvít Sigurðardóttir, f. 1966, gift Frosta Sigurjónssyni. Börn þeirra eru Sindri, Sóley og Svandís; Bjarni Ágúst Sigurðsson, f. 1972. Kona hans er Heiða Lind Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Glóbjört Líf, Hlynur Freyr, Vala Ástrós, Askur Ingi og Birkir Hrafn. Hálfsystir Kristins er Helga Herlufsen, f. 1955, gift Guðmundi Sigurðssyni, og börn hennar eru Katrín og Hrönn.

Kristinn eignaðist soninn Arnar Leó, f. 2000, með þáverandi sambýliskonu sinni Karen Brá Bjarnfreðsdóttur. Hann giftist Önnu Sigrúnu Ásgeirsdóttur 2004 og eignuðust þau soninn Þengil Alfreð, f. 2005. Þau skildu. Kristinn var í sambúð með Kristínu Arnlaugsdóttur. Hún á börnin Arnlaug og Jönu Kristínu.

Kristinn ólst upp á Hverfisgötu í Hafnarfirði. Hann stundaði ýmis störf en vann þó lengst af sem bílstjóri.

Útför Kristins hefur farið fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í kyrrþey.

Elsku sonur,

þín viljum við minnast með kveðjuljóði eftir Bubba Morthens sem okkur finnst eiga svo vel við á þessari stundu.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Með hjartans þökk,

þín mamma og pabbi.

Elsku bróðir, ég minnist þess þegar ég grét af heimþrá í sumarbúðum. Ástæðan var lítill bróðir sem beið mín heima. Svo sætur og svo skemmtilegur. Þú varst allt sem ég dáði.

Ég minnist þess einnig tíu árum síðar þegar farið var með þig fyrst að leita hjálpar við fíkninni. Fíkninni sem þú losnaðir aldrei við. Eftir það var allt svo brotið. Það er margt erfitt sem skilið var eftir, en um leið margt gott sem maður er þakklátur fyrir í dag. Tveir drengir eru þar á meðal.

Nú syrgir maður það sem aldrei varð, en finnur jafnframt huggun í góðum minningum. Minningum eins og þeirri sem ég minntist á hér í upphafi. Og það er ekki laust við að sama tilfinningin: sami söknuðurinn, bærist nú innra með mér.

Söknuður og minning um góðan dreng.

Bjarni Ágúst Sigurðsson.

Þegar þú komst í heiminn, þessi fallegi litli bróðir, var ég orðin fimmtán ára. Þér fylgdi mikil ánægja og gleði. Gaman þótti mér að halda á þér og fylgjast með afrekum þínum og framförum. Þú varst voða mikið krútt og áttir auðvelt með að heilla fólk. Þú varst fljótt vinsæll og krakkarnir í hverfinu sóttu í að leika við þig enda varstu voða skemmtilegur. Oft var krakkaskari úti á tröppum að spyrja eftir þér.

Þegar gestir komu í heimsókn gerðir þú þér gjarnan ferð inn í stofu til að heilsa þeim með handabandi. Þú varst afar kurteis í fasi og ófeiminn við gestina sem mér fannst aðdáunarvert af svo ungum dreng. Þú varst ýmsum hæfileikum gæddur. Afar músíkalskur, hafðir ánægju af tónlist og náðir undrafljótt góðum tökum á gítarleik. Við byrjuðum snemma að spila borðtennis við pabba úti í skúr og sýndir þú þar fljótt töluverða hæfileika. Þrátt fyrir stopula ástundun náðir þú að vinna til verðlauna.

Ekkert benti til þess að þú yrðir fíkninni að bráð og líf þitt svona skammvinnt. Á unglingsárunum fórst þú að fikta með vímuefni og ánetjaðist þeim. Eftir gagnfræðaskóla fórstu í skóla lífsins. Þegar þú varst edrú gekk þér allt í haginn, varst harðduglegur og vel liðinn í vinnu. Þú eignaðist tvo yndislega drengi, Arnar og Þengil, sem eru í góðum höndum. Ég veit að þú hefðir viljað verja meiri tíma með þeim en nú munt þú vaka yfir þeim og gæta þeirra.

Þú kynntist Kristínu og þið áttuð tvö mjög góð ár saman. Þú varst með góða vinnu hjá Ölgerðinni við akstur. Þú naust þess að keyra flutningabíla og því stærri því betra. Þú varst stoltur þegar þið hélduð ykkar jól saman og varst alsæll með að njóta loksins alvöru fjölskyldulífs. En svo hallaði undan fæti hjá þér og nú ertu farinn. Þrátt fyrir fjölmargar meðferðir og tilraunir til að ná frelsi frá vímuefnum náðist aldrei endanlegur sigur í þeirri baráttu. Það er svo óskaplega sárt, við héldum ávallt í þá von að þú myndir ná fullri heilsu. En nú er þinni baráttu lokið og ég trúi að þú finnir frið og sért í góðum höndum hjá afa okkar og ömmu. Þakka þér fyrir allar góðar stundir, elsku bróðir, ég vildi að þær hefðu getað orðið fleiri. Guð gefi drengjunum þínum styrk í þeirra sorg sem og öllum þeim sem sakna þinnar góðu nærveru.

Þín systir,

Auður.