Þá er loksins kominn smá hiti í mannskapinn og annar hverfarinn að grilla. Víkverji kvíðir örlítið fyrir grillvertíðinni, þar sem hann á enn eftir að bera grillið upp úr geymslunni og út á svalir eftir vetrardvalann.

Þá er loksins kominn smá hiti í mannskapinn og annar hverfarinn að grilla. Víkverji kvíðir örlítið fyrir grillvertíðinni, þar sem hann á enn eftir að bera grillið upp úr geymslunni og út á svalir eftir vetrardvalann. Þá kvíðir Víkverji ekki síður fyrir því þegar sumrinu lýkur og hann þarf að bera allt heila klabbið aftur niður.

Því að þó að Víkverja finnist grillmatur góður, þá hafa heimturnar af grillinu hans ekki verið það miklar síðustu sumrin. Það er nefnilega lítið gaman að grilla nema veðrið haldist þurrt og síðasta sumar var eitt hið rakasta í manna minnum. Óttast Víkverji að hið sama verði upp á teningnum núna, og að grillið megi því bara sitja, lítt notað, úti á svölum á meðan hver rigningarstormurinn á fætur öðrum bylur á því.

Í því samhengi ætti Víkverji kannski að nefna það að grillið hans er svokallað „ferðagrill,“ sem er sérstaklega ætlað til þess að vera auðflytjanlegt á milli staða. Nú er Víkverji ekki verkfræðingur, en hann vill leyfa sér að fullyrða það, að fá grill séu einmitt óhentugri til ferðalaga en þetta „ferðagrill“ hans. Fyrir það fyrsta er grillið nokkuð stórt og mikið um sig, og það er ágætlega þungt í því. Víkverji er enginn sérstakur kraftajötunn, en þrátt fyrir það finnst honum svona eins og grillið væri alveg hægt að nota í aflraunakeppnum.

Í öðru lagi er grillið hannað þannig að eftir notkun safnast öll fitan úr grillkjötinu saman og myndar annað hvort skán á botninum eða lekur meðfram lokinu og á jörðina ef grillið er flutt of snemma af stað, með miklu óhagræði. Víkverji vill því helst bera „ferðagrillið“ sitt saman við fyrstu heimilistölvuna sem foreldrar hans fengu sér á níunda áratugnum. Tölvan sú átti að heita „fartölva,“ en var á stærð við saumavél, þurfti alltaf að vera í sambandi við rafmagn og gaf frá sér hávær viftuhljóð. Það er aldeilis hvað þróunin hefur verið hröð.