Guðrún Emilsdóttir fæddist 30. júlí 1930 í Brekku á Hánefsstaðareyrum við Seyðisfjörð. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 4. apríl 2016.

Hún var dóttir hjónanna Guðnýjar Helgu Guðmundsdóttur og Emils Theódórs Guðjónssonar. Þeim Guðnýju og Emil varð tólf barna auðið og var Guðrún, eða Rúna eins og hún var alltaf kölluð, næstyngst. Nú þegar Rúna er fallin frá eru aðeins tvö systkinanna eftirlifandi, það er Valgerður, sem búsett er á Seyðisfirði og á fáeina mánuði eftir í að fagna 100 ára afmæli, og Friðrik sem er búsettur í Reykjavík. Þá lifa hana einnig tvær uppeldissystur, þær Rún Pétursdóttir, búsett í Grindavík, og Jóhanna Júlía Júlíusdóttir, búsett í Keflavík.

Hermann Sigurðsson, eiginmaður Guðrúnar, var fæddur 19. júní 1930, hann lést 1. nóvember 2009. Synir Guðrúnar og Hermanns eru: 1) Skúli Hafþór, kvæntur Jóhönnu Egilsdóttur, þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn. 2) Helgi Þór, kona hans er Sigríður Rósa Laufeyjardóttir, börn þeirra eru fimm og barnabörn eru þrjú. 3) Sigurður Örn, sem lést 14. ágúst 2007, hann var kvæntur Ölmu Tómasdóttur, þau eiga þrjá syni. 4) Emil Ásólfur, kvæntur Dagnýju Kjærnested, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. 5) Hermann Rúnar, kvæntur Karólínu Júlíusdóttur, þau eiga þrjú börn. 6) Margeir, kvæntur Irenu Auði Pétursdóttur, börn þeirra eru fjögur og eitt barnabarn.

Dóttir Guðrúnar og Árna Stefánssonar er Hjördís. Hún á þrjú börn og tvö barnabörn.

Börn Hermanns sem hann átti áður eru: a) Katrín, gift Jóni Magnússyni, þau eiga tvær dætur og fimm barnabörn. b) Egill, hann á sex börn, tvo fóstursyni og barnabörnin eru fjögur. c) Elsa Katrín.

Einnig átti Hermann soninn Ellert.

Útför Guðrúnar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 14. apríl 2016, klukkan 13.

Móðir mín og minn besti vinur er látin. Vinátta okkar var svo einstök og minningarnar svo kærar að ekki verður mikið pláss fyrir tómarúm í hjarta mínu.

Mamma var hvunndagshetja, æðrulaus, umburðarlynd og kærleiksrík. Eins og sannar hvunndagshetjur vann hún verk sín hljóð. Það væri efni í margar bækur að telja þau upp og ekki í hennar anda, hún vildi aldrei berast á. Vegna eiginleika sinna snerti hún hjörtu allra sem kynntust henni. Mamma var fyrirmynd um heiðarleika, umburðarlyndi og hógværð og hefur kennt okkur afkomendum sínum hvað það er sem skiptir máli í lífinu.

Takk, elsku mamma mín, fyrir lífið mitt. Ég veit að þú dansar nú inni í eilífðinni eins og þú ætlaðir þér.

Dansi, dansi mamma mín,

dásamlega ertu fín.

Dansar inn í himininn,

við hann elsku pabba minn.

Nú ert þú á dansskónum,

vængjum prýdd í gullkjólum.

Öllum englum finnst þú fín,

dansi, dansi mamma mín.

Þín elskandi dóttir,

Hjördís.

Ég var 15 ára þegar ég og Ási byrjuðum að vera saman. Við byrjuðum okkar búskap í kjallaranum á Túngötunni hjá ykkur tengdapabba. Við vorum lítið niðri, hlýja þín og hófsemi dró fólk að þér. Barnabörnin fengu að baka með þér, ærslast og lærðu ljóð með þér. Mér fannst þolinmæði þín yndisleg, betri tengdamömmu hefði ég ekki getað átt. Ég ákvað ung að svona amma ætlaði ég að vera. Ég eignaðist Rúnu Lís 19 ára. Á göngu okkar niður í bæ sá ég föt á Rúnu sem mig langaði svo í en voru of dýr en þér var margt til lista lagt, þegar ég kom í heimsókn næst varst þú búin að sauma þau. Það var allt ekkert mál hjá þér, þú bara gerðir það. Ásdís systir þín og þú voruð alltaf mjög nánar og birtust hún og Óli nánast á hverjum degi. Alltaf var til nóg af bakkelsi og pönnukökurnar þínar hurfu ofan í okkur beint af pönnunni en þú gleymdir aldrei að gera nokkrar dökkar handa tengdapabba. Minnisstæðar eru sumarbústaðarferðirnar í Húsafell sem ég fór með ykkur, fyrst með Rúnu Lís og síðar Hjördísi og voru Frissi og Sigrún iðulega með. Oftast var ég eftir þó Ási færi heim að vinna, því þú elskaðir að hafa fólk í kringum þig og við elskuðum að vera í nærveru þinni. Þegar Emil Örn fæddist varð ég veik en þú dróst heila skírnaveislu fram úr erminni – já þér var margt til lista lagt. Samdir ljóð, saumaðir, prjónaðir, passaðir og jóla- og afmæliskort þín eru mér geimsteinar því mikið var í þau lagt og þau voru svo persónuleg. Seinni árin var ekki frí nema Ási sonur þinn kæmist til þín að spila en það var eitthvað sem ég nennti ekki svo þú geymdir barnakrossgátur handa mér. Þér fannst líka bara hlýlegt þegar ég hraut í stofusófanum og sagðir oft: „Nú líður Dagnýju vel.“ Þegar þú fluttir svo af Faxabrautinni tókstu kaffibollana okkar með þó þeir væru ekki þeir fallegustu. Með þessum litlu hlutum gerðir þú okkur öll einstök.

Leiddu mig heim í himin þinn

hjartkæri elsku Jesús minn.

Láttu mig engla ljóssins sjá

er líf mitt hverfur jörðu frá.

(Rósa B. Blöndals)

Hvíldu í friði, elsku Rúna. Þín

Dagný.

Eftir tvo mánuði komum við til Íslands að hitta yndislega fólkið okkar og kynna nýjasta meðliminn í fjölskyldunni okkar, en engin amma Rúna heima til þess að spila rommý við, fá kaffi og með því, enginn bleikur sófi til að kúra. Elsku amma, það verður svo tómlegt að koma heim og fá ekki að taka utan um þig og kyssa. En minningarnar um þig fæ ég alltaf að eiga og þær eru margar, man hversu gaman var að fara til ömmu og afa um helgar á Faxabrautinni, maður hljóp upp stigann eins og fætur toguðu, opnaði dyrnar og þar varstu, alltaf, með svuntu, að undirbúa veislu bara af því að, tilefnið var bara að borða á sig gat hjá ömmu og afa. Í stofunni sat afi með strákana sína sem sátu og öskruðu á sjónvarpið, allir hver í sinni fótboltatreyjunni, á meðan þú dekkaðir upp fínu stofuna og hentist öðru hverju eftir kaffi fyrir afa og sykursjúklingurinn ég gat ekki beðið eftir að þú kallaðir „gjörið svo vel“. Þetta er ein af mörgum minningum sem ég á alltaf eftir að eiga, þú að dekra við allt ríkidæmið þitt sem er nú alls ekki lítið. Ég elska þig svo mikið og á eftir að sakna þín svo, en nú er komið að því að afi fái smá dekur aftur og Siggi fái að taka utan um mömmu sína.

Einar Aron sér til þess að Mikael læri rommý og við sjáum til þess að segja honum sögur af þér og afa og svo vonandi einn daginn þá fæ ég að vera amma Rúna sem þú varst í mínu hjarta og að barnabörnin mín horfi á mig sömu augum og við horfðum á þig.

Elskum þig, elsku amma, alltaf.

Rúna Lís, Einar Már, Einar Aron og Mikael Már.

Get ég sett í orð þann kærleika, skilning, einlægni og ást sem amma mín hafði í brjósti sér, og er nú í að springa í brjósti mér. Að vera góð manneskja er ekki sjálfgefið. Að sýna öllum og öllu umburðarlyndi og aldrei dæma. Hún þóttist ekki skilja það sem hún skildi ekki, og settist aldrei á háan hest. Betri vin og trúnaðarmann er ekki hægt að hugsa sér.

Hásæti á hún svo sannarlega skilið, skreytt öllum hinu fegurstu steinum. Veit ég að hennar hásæti vorum við, börnin hennar, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. Við vorum hennar gersemar. Og hún er okkar. Hún var fullkomlega laus við efnishyggju, af þeim skóla að það sem hana vantaði og langaði í gerði hún sjálf. Dugleg og iðin.

Að sjá gleði og ánægju í augum hennar var það dýrmætasta, því ekki þurfti mikið til. Að sjá blómin sín springa út, að fá að gefa okkur smákökur, pönnukökur og annað góðgæti töfrað fram úr hennar ermi, að spila við okkur tímunum saman. Að finna gleði og fegurð í hversdagsleikanum. Það tek ég mér til fyrirmyndar.

Nú hefur sálin hennar kvatt þennan heim en ég veit að hún er núna í einhverjum öðrum heimi, heimi sem kann enn betur að meta hennar fallegu sál þar sem hún valhoppar á milli fallegra blóma, dansandi og syngjandi með ást í hjarta, með öllum þeim sem hún elskaði og farið hafa á undan henni á þann fagra stað.

Ég elska þig óendanlega, amma mín. Og mun alla tíð sakna þín, það verður erfitt að kveðja líkama þinn, en með gleði og þakklæti í hjartanu mínu mun ég ætíð minnast þín. Takk fyrir að vera amma mín, yndislega góðhjartaða og fallega fyrirmyndin mín. Að eilífu.

Ósk.

Elsku amma Rúna.

Þú varst svo rík. Þó ekki af einhverju veraldlegu drasli – heldur rík af fólki. Fólki sem þú lifðir fyrir og ég er svo þakklátur og blessaður að vera einn af þessu fólki. Þú lifðir svo vel og ríkulega í öllum lífsins skilningi. Mér er í svo ferskur minni sunnudagurinn áður en þú kvaddir, þegar við vorum saman komin um það bil tíu manns úr stóra hópnum þínum inni á sjúkrastofunni að hlæja saman, segja sögur og gera góðlátlegt grín að hvert öðru. Þar kristallaðist kjarninn í því sem það þýðir fyrir mig að vera partur af þessari stóru fjölskyldu. Mér fannst ég soldið vera kominn aftur á Faxabrautina þar sem alltaf var gestagangur, ef einhver fór þá kom alltaf einhver annar í heimsókn í sömu andrá.

Þú varst líka svo ótrúleg kona. Hversdagshetja og salt jarðar. Með hjarta sem hefði leyft þér að lifa í þrjúhundruð ár ef restin af litla kroppnum þínum hefði boðið upp á það.

Bestu gjafir sem lífið hefur gefið mér eru dóttir mín og nafnið þitt. Ég er stoltur að heita eftir þér og ég er svo glaður og þakklátur að þú hafir komið norður til okkar og verið viðstödd skírnina hennar Ronju. Þú varst svo yndisleg og allir sem hittu þig þar höfðu á orði við mig hvað hún amma mín væri frábær og yndisleg. Ef ég get gefið áfram til Ronju brot af þeim kærleik og hlýju sem þú gafst þá veit ég að henni vegnar vel.

Rúnar.

Þakklæti er mér efst í huga fyrir að hafa stórkostlega hversdagshetju í lífi mínu í rúm 40 ár, allar dásamlegu minningarnar af okkar leið í gegnum lífið fylla hjartað mitt af gleði og deyfa þann óbærilega sársauka og sorg sem er í hjarta mínu núna. Ég flaug hálfan hnöttinn, elsku amma, til að vera hjá þér á erfiðri stundu og þú sýndir hetjudáð og sjarmeraðir okkur fjölskylduna, hjúkrunarfólkið og læknana með þinni einstöku ljúfmennsku og dugnaði. Þegar ég þurfti svo að skreppa aftur út í þrjár vikur þá lofaðir þú að „halda þig á mottunni“. Það gerðir þú en aðeins sólarhring eftir komu mína aftur til þín þá gastu ekki meir. Takk fyrir að bíða eftir mér, elsku gull, kveðjustundin var jafnfalleg og lífið þitt. Stund sem ég gleymi aldrei frekar en öllum samverustundum okkar. Hjartað þitt var nógu stórt og fallegt fyrir alla sem á vegi þínum urðu. Þú varst mín trúnaðarvinkona ég veit bara hreinlega ekki hvernig lífið verður án þín því þú áttir svo stóran þátt í því. Ef ég get verið partur af þeirri góðu manneskju sem þú varst þá get ég vel við unað. Takk fyrir að kenna mér að elska, fyrirgefa, hekla, leika, spila, gráta, syrgja, treysta. Takk fyrir að vera amma mín. Takk fyrir að vera Skúla og Elmari yndisleg langamma, takk fyrir að vera vinkona Smára. Þeir elska þig og sakna. Ég trúi að núna sértu hjá afa, Sigga, Guðjóni litla og öllum hinum fallegu englunum, Ég sé fyrir mér dúllulega vinkið þitt sem ég fékk í hvert skipti sem ég skutlaði þér heim. Ég elska þig alltaf. Þín ömmustelpa,

Bára Skúla.

Elsku fallega amma mín.

Ég sit hér með kökk í hálsinum og trúi varla að ég sé að skrifa, tala, til þín síðasta skiptið.

Orð fá því ekki lýst hversu mikils virði þú ert mér. Allt frá fyrstu stundu þegar mamma kom með mig til ykkar á Faxabrautina og til síðustu stundu varstu og verður alltaf ein af mikilvægustu manneskjum í mínu lífi.

„Félagsheimilið“ á Faxabrautinni var sá staður sem flestum þótti best að vera. Ég er ekki viss um að það sé mjög algengt að vera úti að leika með vinum sínum ca. 7-12 ára gömul og það er beðið um að fara heim til ömmu þinnar í leiki, heimsins bestu pönnukökur og spil. En þetta var hér um bil daglegur viðburður hjá mér og það voru allir alltaf velkomnir, hvort sem ég dró með mér tvo eða tíu vini þá var aldrei neitt mál og það var svo lýsandi fyrir þig, elsku amma mín.

Svo í seinni tíð var ég svo heppin að amma var ekki bara amma, heldur ein af mínum bestu vinkonum. Ég er svo þakklát fyrir allar þær stundir sem ég fékk að eiga með þér. Kvöldsögurnar, allir tónleikarnir, leikhúsferðirnar, Stokkhólmsferðin, útilegurnar og allt annað sem ég fékk að gera með þér voru yndislegir tímar sem ég mun alltaf meta mikils en það sem ég mun sakna mest eru samtölin okkar yfir kaffibolla og spili eða klukkutíma löngu símtölin sem enduðu yfirleitt alltaf á: „Jæja, þetta fer nú vera gott af blaðri í okkur.“ Þú varst besta trúnaðarvinkona sem hægt var að hugsa sér og í staðinn fyrir að vera rifja upp fleiri minningar hér, sem eru svo margar, þá langar mig að fá að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og kennt.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar og leyfa mér alltaf að vera ég sjálf. Takk fyrir að kenna mér hversu mikils virði þolinmæðin og tillitsemi í garð annarra er. Takk fyrir að kenna mér að það er aldrei í boði að gefast upp. Takk fyrir alla hvatninguna og hrósið. Takk fyrir hlýju faðmlögin. Takk fyrir að segja mér alltaf hversu mikið þú elskaðir mig. Takk fyrir allt yndislega fólkið þitt. Takk fyrir að hafa alltaf tíma fyrir okkur.

Takk fyrir alla kaffibollana og spilin. Takk fyrir allar sögurnar.

Takk fyrir sönginn. Takk fyrir að hafa verið heimsins besta amma, alltaf.

En ég vil sérstaklega þakka þér fyrir að hafa kennt mér að sauma. Þú ert ástæðan fyrir því að saumaskapurinn er svona stór partur af mér og stefnan var tekin á klæðskerann, eftir mikla leit að því hvað ég ætti nú að verða þegar ég væri orðin stór.

Takk fyrir að hafa verið til.

Svo vertu viss um að láta fólk vita,

hversu vænt þér þykir um það.

Gefðu þér tíma til að láta fólk vita,

áður en allt er um seinan og þú horfinn á annan stað.

Vertu öruggur um að virða allt sem

þú hefur átt,

vertu þakklátur fyrir alla litlu hlutina

á leiðinni,

mergurinn er því það skiptir miklu

að lifa í sátt,

Mætast í friði á litríkri heiðinni.

(Júlíus Guðmundsson/RúnarJúlíusson)

Þín ömmustelpa að eilífu,

Aldís Lind.