[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Laugavegurinn hefur löngum verið ein helsta lífæð Reykjavíkur og helsta verslunargata borgarinnar.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Laugavegurinn hefur löngum verið ein helsta lífæð Reykjavíkur og helsta verslunargata borgarinnar. Ásýnd götunnar hefur breyst nokkuð á undanförnum misserum, þar sem verslunarreksturinn hefur annaðhvort látið undan eða breytt um svip. Í staðinn hafa komið veitingahús eða hinar svonefndu „lundabúðir“, eins og í dæmi söluturnsins Vísis, sem rekinn var í heila öld áður en hann lagði upp laupana fyrr á þessu ári.

En hvernig varð Laugavegurinn að þessari miklu verslunargötu? Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur öðrum fremur kynnt sér sögu Reykjavíkur og Laugavegsins þar á meðal, en vegurinn var upphaflega lagður frá Kvosinni í miðbænum að Laugardalnum, þar sem þvottalaugar bæjarins voru.

Dró fljótt að sér verslun

Guðjón segir að fljótlega eftir lagningu vegarins árið 1885 hafi hann dregið að sér verslunarrekstur. „Það var mikil verslun við sveitamenn í Reykjavík, menn fóru í kaupstaðinn til þess að versla,“ segir Guðjón. „Þegar þessi vegur er kominn verður hann smám saman að helstu leiðinni í bæinn,“ en á þeim tíma voru kaupmennirnir flestir með aðsetur sitt í Kvosinni. Bændurnir hafi því þurft að fara niður Laugaveginn til þess að komast til þeirra. „Margir sáu sér hag í að setja upp verslun á Laugavegi og reyna að grípa bændurna áður en þeir kæmust alla leið í bæinn,“ segir Guðjón glettinn.

Miðstöð verslunar og þjónustu

Hann bætir við að verslunarmennirnir á Laugavegi hafi oft sjálfir verið bændur austan úr sveitunum, sem hafi þá brugðið búi til þess að setja upp verslun, en um leið nýtt sér sambönd sín til þess að tryggja sér góðan kúnnahóp.

„Og þetta voru ekki bara verslanir heldur einnig þjónusta, eins og söðlasmiðir, gistihús og veitingahús,“ segir Guðjón. Þróunin hafi verið hröð, þar sem þetta hafi verið aðalleiðin inn í bæinn. „Það myndast oft þjónusta á slíkri leið.“

Guðjón segir að strax um aldamótin 1900 og jafnvel fyrr hafi Laugavegurinn verið orðinn að miðstöð verslunar og þjónustu í Reykjavík. „Það var einkum neðarlega við Laugaveginn til að byrja með en síðan færðist byggðin uppeftir. Þegar komið var fram á síðustu öld, þá var blómleg verslun upp að Hlemmi,“ segir Guðjón.

Hann bætir við að við Hlemm hafi myndast ákveðin bílamiðstöð, „Þar voru menn eins og Sveinn Egilsson og Egill Vilhjálmsson með bílaverkstæði og bílasölur.“ Á sama tíma hafi Lækjartorg orðið að miðstöð leigubíla og strætisvagna, og Laugavegurinn þannig orðið að hálfgerðum ás á milli þessara tveggja torga.

Lengi vel fjölmennasta gatan

En Laugavegurinn var ekki bara verslunargata, heldur var hann einnig um langt skeið fjölmennasta íbúðagata Reykjavíkur. Að sögn Guðjóns náði Laugavegurinn hámarki sínu árið 1929 en þá bjuggu við hann 2.392 íbúar, en Hverfisgatan var þá næst með um 1.500 manns. Þróunin síðan þá hafi verið á annan veg og nú búi mun færri við Laugaveginn, jafnvel þó að húsakosturinn þar sé stærri en hann var á sínum tíma.

„Það var svo mikið af bakhúsum á þessum tíma. Það voru oft kannski tvær raðir af bakhúsum,“ segir Guðjón og bætir við að enn megi finna mörg slík við Laugaveg þó að búið sé að rífa töluvert af þeim.

Opnun Kringlunnar áfall

Spurður um ástæður þess að verslun færist af Laugavegi segir Guðjón að það hafi gerst smátt og smátt í samræmi við þróun borgarinnar út á við. „Þegar bílar verða almenningseign upp úr 1960 og úthverfin fara að vaxa, þá missir miðbærinn hlutverk sitt sem miðstöð verslunar og þjónustu, þá fara að byggjast verslunarhús meðfram allri Suðurlandsbraut, í Skeifunni, jafnvel upp í Ártúnshöfða og þá breytist bæði Laugavegurinn og miðbærinn.“

Opnun Kringlunnar árið 1987 hafi reynst verslun á Laugavegi mikið áfall. „En svo náði hann sér aftur á strik, og þá var Smáralind opnuð!“ segir Guðjón. Þróunin nú sé hins vegar á þá leið að miðbærinn sé aftur að verða eftirsóknarverður, þó að verslunin sé kannski með öðru sniði en áður.

Hann nefnir sem dæmi að skemmtistaðir hafi margir hverjir verið komnir í úthverfin, en það sé nánast allt komið í miðbæinn aftur. Þá megi einnig greina að fólk sé nú farið að sækjast í að búa í miðbænum í auknum mæli. „Og að lokum má nefna ferðamannastrauminn, sem hefur lífgað Laugaveginn aftur við.“

Eðlileg þróun í sögu borgar

Sú þróun hafi ýtt undir það að núna megi finna alls kyns búðir á Laugavegi, en einnig mikið af kaffihúsum og „lundabúðum“. Hins vegar séu stórar verslanir eins og húsgagnaverslanir farnar annað. „Þetta eru frekar litlar sérverslanir sem hafa breytt um eðli, þannig séð. Það er kannski ekki síst vegna ferðamannanna sem sækjast frekar eftir sérvöru, og lundabúðirnar eru kannski þess eðlis,“ segir Guðjón og tekur fram að þetta megi teljast eðlileg þróun í sögu borgarinnar. Með ferðamannastraumnum og auknum íbúafjölda megi nú finna í miðbænum og við Laugaveginn heilmikið mannlíf, sem hafi ekki alltaf verið.

„Þessi örfíni halli“

Þegar fjallað er um sögu Laugavegs er gjarnan vísað í blaðagrein eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval, listmálara, sem hann ritaði í Morgunblaðið hinn 25. mars árið 1923, þar sem hann bar saman Reykjavík við aðrar borgir.

„En gangirðu inn Laugaveg þarftu ekki að fara til Róm til þess að sjá fallega götu (innanbæjar),“ sagði Kjarval þar sem hann bar götuna saman við göturnar Via Nationale og Corso í Róm og Carl Johan-götu í Kristjaníu-borg, sem í dag heitir Osló.

„Laugavegur er mýksta gata sem til er í nokkurri borg, beinni en Via Nationale en álíka löng frá Barónsstíg að Bankastræti; eins og Carl Johan, en nokkuð lengri, en mjórri og húsin flest miklu fátæklegri,“ sagði Kjarval og bætti við að Laugavegurinn væri „svo formfull og laðandi gata, að hreinasta yndi er að ganga hana, ef hún bara væri hreinlegri en hún er og ef hún væri sljettuð og snirtilega [svo] um hana hugsað frá Smiðjustíg alla leið að Rauðarárlæk, má segja að gatan lokki mann og seyði [svo]. Þessi ör „fíni“ halli, sem laðar augað og tilfinninguna inneftir – inneftir – eða niðureftir á víxl.“

Sagði Kjarval það skemmtilegast að ganga úti á miðri götunni á kvöldin, eftir að vagna- og hestaumferðin væri liðin hjá. „Þjer mun líða vel, þegar þú ert búinn að ganga hana á enda fram og aftur,“ sagði Kjarval, en varaði við því að vegurinn gæti lokkað fólk til þess að byggja lengra inneftir Laugaveginum fram „í það óendanlega“.

Spáði Kjarval því einnig að þegar fram liðu stundir yrði Laugavegurinn ein af „uppáhaldsgötum borgarbúa og allra sem hingað koma“.