Meistari Margrét Jóhannsdóttir sigraði Tinnu Helgadóttur í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna.
Meistari Margrét Jóhannsdóttir sigraði Tinnu Helgadóttur í úrslitaleiknum í einliðaleik kvenna. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Badminton Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég hef alltaf litið ótrúlega mikið upp til Rögnu. Ég fór einmitt á Ólympíuleikana í London til að sjá badmintonið. Hún er ótrúlega flott og hefur hjálpað mér mikið í gegnum árin.

Badminton

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég hef alltaf litið ótrúlega mikið upp til Rögnu. Ég fór einmitt á Ólympíuleikana í London til að sjá badmintonið. Hún er ótrúlega flott og hefur hjálpað mér mikið í gegnum árin. Hún veit allt um hvað þarf til að ná svona langt og ég hef alltaf getað leitað til hennar, sem er mjög gott, því ég hef alltaf ætlað mér að komast á Ólympíuleika.“

Þetta segir Margrét Jóhannsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari í badminton, sem dreymir um að feta í fótspor Rögnu Ingólfsdóttur og keppa einn daginn á Ólympíuleikum fyrir hönd Íslands. Margrét var 17 ára þegar Ragna stóð á hátindi ferilsins í London 2012, og segir það hafa veitt sér mikla hvatningu. Hún sér hins vegar fram á sams konar vanda og Ragna glímdi við, sem átti sennilega stóran þátt í því að Ragna lagði spaðann á hilluna eftir leikana, þegar kemur að þeim tíma og peningum sem þarf til að verða afreksíþróttamaður í einstaklingsgrein á Íslandi.

Veit ekki hvernig ég fer að þessu

„Ég hef alltaf ætlað mér að komast á Ólympíuleika, hvenær sem það verður. Mig langar ótrúlega að komast til Japan á ÓL 2020, en þá þarf ég strax að fara að skipuleggja mig, ákveða hvaða mótum ég vil keppa á, og svo fer ótrúlega mikill peningur í þetta. Ég þyrfti þá að finna mér öfluga styrktaraðila. Þetta er ekkert auðvelt, með háskólanáminu, og ég veit ekki alveg hvernig ég á að fara að þessu, en ég finn út úr því ef ég ætla að ná þessu markmiði og læt ekkert stöðva mig,“ sagði Margrét, og nefnir til marks um fjárútlátin að staða á heimslista ráðist af tíu bestu mótum keppenda á hverju ári. Til að komast nægilega hátt á heimslista til að geta komist á Ólympíuleika þarf því að verja miklu fé og tíma í keppnisferðir, sem hentar ekkert sérstaklega vel þegar maður er á fyrsta ári í háskólanámi, eins og Margrét, sem er að læra hjúkrunarfræði.

Hún hefur stundað badminton nánast frá því að hún gat handleikið spaðann: „Ég byrjaði fimm ára. Pabbi minn er badmintonþjálfari og systur mínar eru allar í þessu, svo það lá beinast við að ég færi á sömu braut. Ég hef verið að æfa síðan, en byrjaði á fullu í menntaskóla og hef æft mjög mikið síðustu tvö ár. Ég fluttist til Danmerkur eftir menntaskóla, 2014, og fór í badmintonakademíu þar, þar sem ég æfði á fullu, 2-3 sinnum á dag. Sú dvöl gekk þó ekki alveg upp, átti að vera níu mánuðir en var bara fimm, meðal annars vegna meiðsla,“ sagði Margrét.

Engin ráð frá landsliðsþjálfaranum

Áður en að Íslandsmótinu um helgina kom hafði hún einu sinni orðið Íslandsmeistari í tvenndarleik, með Daníel Thomsen. Þau endurtóku leikinn um helgina, en Margrét var enn ánægðari með sigurinn í einliðaleik þar sem hún vann landsliðsþjálfara sinn, Tinnu Helgadóttur, í æsispennandi leik (22:20, 19:21 og 21:19).

„Ég var búin að vera með þetta markmið mjög lengi svo það var ótrúlega gaman að ná þessu. Þetta var í þriðja sinn sem ég mætti Tinnu í úrslitum og mig langaði ekki að tapa fyrir henni aftur. Þetta var sætur sigur,“ sagði Margrét, sem fékk gott faðmlag frá Tinnu eftir leikinn, en varla einhver góð ráð frá þjálfaranum áður en leikur hófst?

„Nei, hún var ekkert í því,“ sagði Margrét hlæjandi. „En hún veit alveg hvar mínir styrkleikar og veikleikar liggja og gat örugglega nýtt sér það. Hún sagði bara að ég ætti þetta skilið. Við höfum verið að vinna svolítið saman, hún býr reyndar í Danmörku en við höfum verið í sambandi í gegnum netið varðandi það hvernig ég æfi. Hún er ótrúlega góður þjálfari og það er mikill metnaður í henni.“