Af þessu má ráða að landeigandi geti ekki takmarkað för almennings um óræktuð og ógirt svæði utan byggðar, t.d. með gjaldtöku.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að vöxtur ferðaþjónustu hefur verið mikill hér á landi undanfarin ár. Það sem dregur ferðamenn hingað til lands er ekki síst og kannski einkum náttúra landsins og náttúrufyrirbrigði ýmiskonar. Ýmsar spurningar varðandi heimildir ferðamanna og ferðaþjónustuaðila til umferðar um landið og hagnýtingar þess í ferðaþjónustu hafa orðið áleitnar samfara þessum mikla vexti.

Land á Íslandi skiptist svo að segja í tvennt. Annars vegar er eignarland sem háð er einstaklingseignarrétti einhvers eða einhverra og hins vegar eru þjóðlendur sem eru landsvæði utan eignarlanda þótt einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð réttindi. Í þjóðlendu er íslenska ríkið eigandi lands og hvers kyns landsréttinda sem ekki er háð einkaeignarrétti.

Eignarréttur er skilgreindur svo að hann feli í sér að eigandi njóti allra heimilda til meðferðar og nýtingar eigna sinna nema þeirra sem sérstaklega séu undanskildar, annaðhvort með lögum eða samningi. Eignarrétturinn er friðhelgur og nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir þetta er viðurkennt að eignarréttur manna geti sætt almennum takmörkunum sem eigandi verður að þola bótalaust.

Á meðal almennra takmarkana eignarréttar má telja réttindi almennings til farar og dvalar um landið í lögmætum tilgangi samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Réttur þessi er ekki bundinn við Íslendinga heldur njóta erlendir ferðamenn hans einnig. Í lögunum felst með nokkurri einföldun að mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka umferð manna á afgirtu, óræktuðu landi. För um ræktað land er háð samþykki eiganda eða rétthafa.

Skömmu áður en núgildandi náttúruverndarlög tóku gildi voru gerðar breytingar á lögunum sem varða framangreind réttindi. Í lögskýringargögnum með þeim sagði m.a. að ferðaskipuleggjendur gætu nú skipulagt hópferðir í atvinnuskyni á land annarra án endurgjalds til landeiganda. Heimildir landeigenda til að takmarka slíka markaðssetningu séu þröngar og aðeins í verndarskyni en ekki til að takmarka t.d. ónæði.

Af þessu má ráða að landeigandi geti ekki takmarkað för almennings um óræktuð og ógirt svæði utan byggðar, t.d. með gjaldtöku, jafnvel þótt þau svæði séu undirorpin einstaklingseignarrétti hans. Undir almenning í þessum skilningi falla ferðamenn, hvort sem þeir eru á eigin vegum eða annarra. Öðru máli gegnir um ræktað land og óræktað, afgirt land í byggð.

Í þjóðlendum gildir að enginn má þar hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa mannvirki, nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarfélags og eftir atvikum ráðherra. Í þjóðlendum gildir hins vegar einnig áðurnefndur réttur almennings til farar og dvalar. Komi til þess að stjórnvöld vilji takmarka eða stýra umferð ferðamanna eða ferðaþjónustuaðila á tilteknum svæðum í þjóðlendum getur þurft að hafa hliðsjón af því hvort einstakir aðilar, sem gert hafa út á rétt almennings til farar og dvalar ef svo má segja, hafi með því áunnið sér atvinnuréttindi sem njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Á vegum forsætisráðuneytisins hafa drög verið lögð að frumvarpi til stjórnskipunarlaga til breytinga á stjórnarskránni sem mælir fyrir um heimild almennings til farar og dvalar um land í lögmætum tilgangi. Þá liggur fyrir að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í náttúruverndarlögum skal ráðherra láta vinna frumvarp, er lagt verði fram eigi síðar en á haustþingi 2017, er taki til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón m.a. af framangreindum atriðum. Framundan er því mikilvæg ákvarðanataka um samspil réttinda annars vegar almennings og ferðaþjónustuaðila og hins vegar landeigenda vegna nýtingar íslenskrar náttúru.