Bókin Hagfræðingar hafa mjög ólíkar skoðanir á gulli. Sumir vilja meina að málmurinn sé það eina sem vit er í.

Bókin Hagfræðingar hafa mjög ólíkar skoðanir á gulli. Sumir vilja meina að málmurinn sé það eina sem vit er í. Ganga sumir svo langt að segja að ef gjaldmiðlar heimsins hefðu ekki verið teknir af gullfæti á sínum tíma væri mannkynið allt statt á mun betri stað í dag, hagsæld væri margföld á við það sem við eigum að venjast og friður á milli þjóða.

Svo eru hinir, sem kalla gullið leifar frá gamalli og villimannslegri tíð sem henti alls ekki þörfum nútímahagkerfa. Á gervihnattaöld þurfi peninga sem hægt er að prenta og handstýra eftir því hvað vitringar seðlabankanna lesa út úr veðurspánni hverju sinni.

James Rickards fellur í fyrri hópinn og var hann að senda frá sér bókina The New Case For Gold . Árið 2011 rataði bókin hans, Currency Wars , á metsölulista New York Times og árið 2014 kom frá honum bókin The Death of Money .

Af bókartitlunum einum má ráða að Rickards er ekki of bjartsýnn á framtíðina og hefur litla trú á því peningakerfi sem nú er við lýði. Ætti hann að vita sínu viti því Rickards er mikill reynslubolti og hefur starfað við markaðsgreiningar á Wall Stret í 35 ár.

Í nýju bókinni heldur Rickards uppi vörnum fyrir gullið og færir m.a. fyrir því rök að það sé ágætis trygging gegn mögulegu risahruni að eiga smá gullforða á góðum stað. Fer Rickards yfir það hvernig best er að kaupa gull og geyma með öruggum hætti.

Að mati höfundar munu undirstöður peningakerfisins, eins og það er núna, gefa sig einn góðan veðurdag og þá verði ástandið miklu verra en það var þegar verst lét árið 2008. Þá munu þeir standa vel að vígi sem fjárfestu í gulli, og vill hann meina að það væri bæði gerlegt og gáfulegt fyrir þjóðir að fikra sig aftur yfir á gullfótinn. ai@mbl.is