Útsýni Bjarki segir auðvelt að byrja í sportinu og þurfi ekki að kosta mikið.
Útsýni Bjarki segir auðvelt að byrja í sportinu og þurfi ekki að kosta mikið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Þann 28. apríl næstkomandi má reikna með mikilli umferð fjallahjóla í næsta nágrenni Rauðavatns. Þá fer fram það fyrsta af fjórum fjallahjólreiða-bikarmótum ársins, en keppnin hefur fengið nafnið Morgunblaðshringurinn.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þann 28. apríl næstkomandi má reikna með mikilli umferð fjallahjóla í næsta nágrenni Rauðavatns. Þá fer fram það fyrsta af fjórum fjallahjólreiða-bikarmótum ársins, en keppnin hefur fengið nafnið Morgunblaðshringurinn.

Bjarki Bjarnason ætlar ekki að láta sig vanta. „Þetta er mjög hentugur staður til að hefja kepnissumarið enda náttúruperla rétt við borgarmörkin,“ segir hann og kveðst fyrst hafa hjólað þennan hring í kringum árið 2000. „Leiðin liggur eftir stígum á Hólmsheiðinni og á svæðinu kringum Rauðavatn. Þetta eru einkum malarstígar, sumir svolítið grófir, og á köflum er hjólað inn í Rauðavatnsskóginn þar sem fara þarf yfir stöku trjárætur. Þegar mótið fer fram eru stígar orðnir vel pakkaðir og hringurinn ekki mjög tæknilega krefjandi.“

Áhorfendavæn keppni

Sú leið sem keppendur fara myndar tæplega 7 km langan hring. A-flokkur karla hjólar fjóra hringi, A-flokkur kvenna þrjá hringi og B-flokkur og unglingaflokkur spreyta sig á tveimur hringjum. Allir leggja af stað á sama tíma en Bjarki segir að fljótlega skilji þeir hraðskreiðu sig frá þeim sem hægar hjóla og engin örtröð sé á leiðinni. „Það gerir þetta mót líka mjög áhorfendavænt að farinn er stuttur hringur nokkrum sinnum, frekar en langur hringur einu sinni. Á einum kafla skarast tveir hlutar leiðarinnar og er það góður staður til að fylgjast með hjólreiðafólkinu koma úr öllum áttum.“

Keppninni er stýrt af Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og hefst kl. 18. Lýkur deginum með verðlaunathöfn í húsakynnum Morgunblaðsins í Hádegismóum en blaðið er aðalstyrktaraðili viðburðarins. „Hver sem er getur tekið þátt, og um að gera fyrir áhugasama að prufa og sjá hvernig upplifun það er að taka þátt í keppni af þessu tagi. Til að árangurinn á mótinu telji upp í bikarmótaröðina þarf keppandi að vera skráður í hjólreiðafélag innan ÍSÍ,“ útskýrir Bjarki. Má skrá þátttöku í mótinu á www.hjolamot.is.

Frjáls á fjallahjóli

Merkileg þróun hefur orðið í hjólreiðamenningu Íslendinga á undanförnum árum. Breytingin sést greinilega á götum úti og mun meira er um hjólandi fólk í umferðinni en áður. Upp á síðkastið hefur orðið sprenging í vinsældum svokallaðra borgarhjóla og „racer“ götuhjóla, en ef leitað er lengra aftur kemur í ljós að það voru fjallahjólin sem komu landanum fyrst á bragðið. Bjarki segir að aukning sé greinileg í fjallahjólasportinu í dag enda margt sem gerir fjallahjólin að hentugum tækjum til samgangna og útivistar. „Sjálfum finnst mér gaman að skella mér á götuhjól, en fjallahjólin eru samt toppurinn. Þetta eru hjól sem hægt er að flakka á hvert á land sem er. Maður er ekki jafn takmarkaður við bundið slitlag og á götuhjóli, og hefur því meira frelsi. Ég á það til að hjóla bara af stað og sjá hvert ferðin leiðir mig, og er kannski óðara kominn á fallega stíga í Heiðmörk eða búinn að hjóla upp og niður Esjuna.“

Fyrsta hjól margra er fjallahjól og segir Bjarki það m.a. koma til af því að auðveldara er fyrir börn og unglinga að hafa stjórn á fjallahjóli en götuhjóli. Fjallahjólin henta líka vel orkuboltum með ævintýraþrá og eflaust eiga margir lesend ljúfar æskuminningar af spani á fjallahjóli um Öskjuhlíð eða Elliðaárdalinn. „Fjallahjólið er mín uppáhalds leið til að upplifa náttúruna. Maður kemst hraðar yfir en á tveimur jafnfljótum en er samt í náinni snertingu við umhverfið.“

Tekist á við landslagið

Þegar kemur að keppnishliðinni segir Bjarki að fjallahjólin séu á ýmsan hátt meira krefjandi en götuhjólin. Skemmtilegustu hjólaleiðirnar liggja oft um mishæðótt og óslétt landslag þar sem takast þarf á við brattar brekkur og ýmsar hindranir. „Hraðabreytingarnar eru meiri og tíðari en á götuhjóli úti á þjóðvegi. Er t.d. algengt að þurfa að fara inn í krappa beygju, bremsa á hárréttum tíma og ná svo upp hraða beint upp úr beygjunni. Brekkurnar eru styttri en um leið brattari, bæði upp og niður. Leiðin getur verið tæknilega krefjandi, og kallað á að hjólreiðamaðurinn hafi gott vald á hjólinu og sé fljótur að lesa það út hvaða leið er best að fara.“

Hvar á fólk svo að byrja ef það langar að reyna fyrir sér í fjallahjólamennsku? Bjarki segir mestu skipta að halda af stað og prófa. „Það þarf ekki meira en ágætt hjól og hjálm, og svo er bara að rúlla af stað. Má svo bæta við smátt og smátt, og fjárfesta í dýrari aukabúnaði eða léttara hjóli. Er líka um að gera að hjóla með vinum og fjölskyldumeðlimum. Á ég t.d. eina sjö ára stelpu og hjólum við töluvert saman innanbæjar sem utan.“