Guðný Ó. Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 21. febrúar 1923. Hún lést 28. mars 2016.

Útför hennar fórr fram frá Háteigskirkju 5. apríl 2016.

Móðir mín Guðný lést á annan dag páska eftir stutt en ströng veikindi. Hún fæddist á heimili foreldra sinna á Háteigi í Reykjavík og átti heima þar næstum því alla sína ævi.

Háteigur stendur ofarlega í Rauðarárholtinu og á uppvaxtarárum hennar var þar stundaður kúabúskapur og reyndar alveg fram á fimmta áratug síðustu aldar. Hún var því alin upp við almenn sveita- og heimilisstörf. Faðir hennar var athafnamaður í atvinnulífinu, skipstjóri og útgerðarmaður og móðir hennar brautryðjandi í réttindabaráttu kvenna á sínum tíma. Á æskuheimilinu var borin virðing fyrir hefðum og þjóðlegum gildum og áhersla lögð á handverk og heimilisiðnað, einkum vefnað. Það veganesti sem hún hlaut í foreldrahúsum og þau gildi sem þar var lögð áhersla á fylgdu henni alla tíð.

Mamma var vinamörg og vinaföst og ætíð var gestkvæmt heima á Háteigi og oft þétt setinn bekkurinn við eldhúsborðið þar sem málin voru rædd og oft sköpuðust þar fjörugar umræður. Það voru allir velkomnir á Háteig vinir barna og barnabarna og gat hún talað við alla, unga sem aldna. Hún var hreinskiptin og lét skoðanir sínar óhikað í ljós. Háteigur er sannkallað fjölskylduhús. Þar hittist fjölskyldan öll iðulega og átti stund saman því mamma vildi fylgjast vel með fólkinu sínu. Mamma var lífsglöð, kát og ákveðin kona. Hún var ekki mikið fyrir að flíka tilfinningum sínum. Þegar mest á reyndi í fjölskyldunni við óvænt áföll eða erfið veikindi var hún kletturinn sem við hin treystum á.

Þegar ég hugsa til baka sé ég hana fyrir mér við eldhúsborðið skenkjandi gestum og gangandi kaffi eða sitjandi við píanóið, en hún spilaði ágætlega á píanó. Það var hennar hvíld frá amstri hversdagsins. Hún var mikill dýravinur og sé ég hana fyrir mér að hugsa um dýrin sín, Týru, Svarthvít og Brand eða brunandi austur fyrir fjall til dvalar í sumarbústaðnum. Hún bjó ein á Háteigi þar til fyrir fáeinum vikum. Þar undi hún hag sínum vel og var í raun ekki mikið fyrir að fara af bæ. Hún var sífellt með hugann við viðhald og að nú þyrfti að dytta að hér og þar og laga til í garðinum. Þar sem nú kíkja upp úr moldinni krókusar og páskaliljur og fagna vorinu.

Ég er þakklát fyrir að hún er laus við þrautirnar sem lögðust svo þungt á hana síðustu vikurnar. Megi hún hvíla í friði.

Guðrún Helga.

Látin er Guðný Ólafía Halldórsdóttir, Dúna í Háteigi, 93 ára höfðingskona sem mikil eftirsjá er að.

Það er einkum af fjölskyldufundum tengdum Hítardalsbræðrum sem minningar um Dúnu blómstra og af einkaheimsóknum okkar hjónanna til Dúnu og Teits í Háteigi.

Konan mín, Ragnheiður Kristjánsdóttir, er bróðurdóttir Teits og fyrstu búskaparár okkar komum við títt í Háteig í heimsóknir og til að sitja veislur. Dúna og Teitur voru mikið fyrir samneyti við annað fólk og skiptu ættliðabil og aldursmunur engu máli. Ættingjar voru meir en velkomnir, þeirra var jafnvel krafist og alltaf sama rausnin sýnd. Dúna var afburða veisluhaldari og gestgjafi, enda má segja að hún hafi verið lærð á því sviði. Hún var traustur vinur vina sinna og stóð jafnan með þeim, þó ekki án þess að þeir vissu ef eitthvað var bogið hjá þeim.

Segja má að heimili Dúnu og Teits í Háteigi hafi verið stórheimili jafnvel þó fjölskyldan væri bara af meðalstærð. Það grundvallast á gestum og gangandi og þeirri reisn sem var yfir húsráðendum og húsinu sjálfu. Háteigur var tiltölulega stórt hús á íslenskan mælikvarða þess tíma og virðulegt, bæði að ytra útliti og innri gerð. Að ýmsu leyti finnst mér það jafnast á við smækkaða útgáfu ensks herraseturs. Það var því jafnan viðburður að koma þar.

Dúna og Teitur voru höfðingjar og fannst sjálfsagt að ættingjar og venslafólk kæmi oft og þæði alls konar veitingar, vinsemd og aðstoð. Allt var það veitt á svo sjálfsagðan hátt að ekki kom annað til greina en að þiggja.

Dúna var kjarkmikil og ákveðin með hreinar skoðanir á mönnum og málefnum, ómengaðar af því sem ekki kom málinu við. Hún fór ekki í grafgötur um skoðanir sínar, sagði þær skýrt hver sem í hlut átti. Þannig var margur kúrsinn réttur af. Hún var fróð og með á flestum nótum og því var gagn og gaman að samvistum við hana. Hún hafði smitandi hlátur og var jafnan kát og í góðu skapi. Ekki var Teitur minni gleðigjafi en hann hafði jafnan grín og glettni mjög ofarlega í samskiptum við fólk. Þetta olli því að samkomur í Háteigi voru á léttum nótum og óþvingaðar, glaðværar en ekki háværar.

Þau hjónin héldu mikið upp á Háteigshúsið og héldu því vel við. Teitur var sífellt að laga, endurnýja og bæta, alltaf af stökustu vandvirkni. Allt einkenndist það samt af hefðinni. Háteigi var ekki breytt svo neinu nemur til samræmis við tísku seinni tíma, þó breytingar í lífsháttum og heimilisbúnaði væru samstiga samtímanum. Ef mála þurfti var málað eins og á fyrri tíð, ef smíða þurfti nýtt umhverfis dyr eða eitthvað annað var það gert eins og verið hafði. Menn sem kunnu gamalt handbragð og meðhöndlun byggingarefna á gamlan máta voru leitaðir uppi og þeir fengnir til starfa, ef húsráðendur gerðu það ekki sjálfir. Sama má segja um garðinn umhverfis húsið. Honum var vel viðhaldið og hann snyrtur og sleginn og lagaður til eftir þörfum. Það er því staðarlegt að líta heim að Háteigi og tilkomumikið inn að koma.

Páll Imsland.