Ragnar Jóhann fæddist á Blönduósi 5. júlí 1924. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 7. apríl 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Péturína B. Jóhannsdóttir, f. 22 ágúst 1896, d. 23 júlí 1985, og Lárus Björnsson, f. 10. desember 1889, d. 27. maí 1987.

Ragnar Jóhann giftist Elínu Jónsdóttur, 24. maí 1947. Foreldrar hennar voru Karólína Pálsdóttir, f. 14. apríl 1892, d. 29. desember 1988, og Jón Jónsson bóndi á Teygingalæk, f. 25. júní 1884, d. 21. október 1961. Systkini hans eru Helga S. Lárusdóttir, f. 1916, d. 1920, Björn J. Lárusson, f. 1918, d. 2006, Helgi S. Lárusson, f. 1920, d. 1939, Helga S. Lárusdóttir, f. 1922, Grímur H. Lárusson, f. 1926, d. 1995, Kristín I. Lárusdóttir, f. 1931, Eggert E. Lárusson, f. 1934, d. 2007.

Börn Elínar og Ragnars eru: 1) Lárus P. Ragnarsson, f. 1947, maki Karlotta B. Aðalsteinsdóttir, f. 1949. Synir þeirra eru: a) Sigurbjörn Birkir, f. 1976, sambýliskona Brynhildur Magnúsdóttir, f. 1978. Barn þeirra er Kristmann. Jón Bjartmar, f. 1984, kona hans Ingibjörg Sunna Þrastardóttir, f. 1986. Börn þeirra Ingibjörg Andrea og Karl Birgir. b) Ragnar Jóhann fæddur, 1970, unnusta Ann-Sofie. Synir hans eru Sander, Lárus og Terje Pétur. Dóttir Ann-Sofie er Ann-Cecilie. 2). Sigrún K. Ragnarsdóttir, f. 1950, maki Haraldur R. Gunnarsson, f. 1949. Synir þeirra eru: a) Vilhjálmur Kári, f. 1973. Maki Fjóla Rún Þorleifsdóttir, f. 1973. Börn þeirra eru Margrét Vala, Karólína Lea og Haraldur Leví. b) Kjartan Örn, f. 1977, maki Sæunn Stefánsdóttir, f. 1978. Dætur þeirra eru Kristrún Edda og Auður Embla. 3) Halldóra B. Ragnarsdóttir, f. 1954. Maki Þórður S. Magnússon, f. 1955. Börn þeirra eru: a) Hannes Páll, f. 1980, maki Bryndís Stefánsdóttir, f. 1977. Dætur þeirra eru Heiða María og Þórdís Birta. b) Elín Ragna, f. 1984. 4) Ásdís L. Ragnarsdóttir, f. 1963, maki Sigurður Þ. Adolfsson, f. 1959. Dætur þeirra eru Erna, f. 1987, unnusti Jón Brynjar Ólafsson, f. 1986, og Ýr, f. 1992, unnusti Daníel Benediktsson, f. 1992.

Ragnar Jóhann ólst upp hjá foreldrum sínum í Grímstungu í Vatnsdal. Hann naut almennrar barnauppfræðslu auk þriggja mánaða náms í Unglingaskóla hjá séra Þorsteini B. Gíslasyni, Steinnesi. Hann útskrifaðist frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal árið 1946, eftir tveggja ára nám. Elín og Ragnar hófu búskap í Grímstungu í Vatnsdal 1946, en fluttu síðan að Keldunúpi á Síðu árið 1953. Þar bjuggu þau til ársins 1959, þegar þau fluttu í Vesturbæ Kópavogs. Lengst af var Ragnar Jóhann verkstjóri hjá Kópavogsbæ. Síðasta árið dvaldi hann á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Útför Ragnars Jóhanns verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 14. apríl 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Það er dásamlegt að eiga minningar um yndislegan föður sem elskaði mig af öllu hjarta og vildi allt fyrir mig og fjölskyldu mína gera. Söknuður yfir því að fá aldrei aftur að heyra sögurnar hans, hlusta á hann kveða eða syngja, fara með vísur, taka í nefið, súpa á góðu koníaki eða að vera bara til fyrir mig. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir föður mínum, manni sem var hógvær, vandvirkur, vel lesinn, þrjóskur, skemmtilegur en umfram allt var hann pabbi minn. Síðasta ár dvaldi hann á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og þar leið honum vel. Starfsfólkinu ber að þakka alla þá alúð og virðingu sem þau sýndu honum. Ég trúi því að Guð hafi gert hvert og eitt okkar einstakt í sköpunarverki sínu svo að við gætum gegnt því sérstaka hlutverki sem hann ætlar okkur í tilverunni. Þegar þeim tilgangi er náð fyllist hjartað ró og gleði. Já, ég mun sakna hans.

Ásdís Lilja Ragnarsdóttir.

Hinsta sonarkveðja.

Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,

að heiminum verðirðu ekki að bráð?

Þá berast lætur lífs með straumi,

Og lystisemdum sleppir taumi, –

Hvað hjálpar, nema herrans náð?

Og þegar allt er upp á móti,

andinn bugaður, holdið þjáð,

andstreymisins í ölduróti

allir þó vinir burtu fljóti,

guðs er þó eftir gæska og náð.

Hver dugar þér í dauðans stríði,

er duga ei lengur mannleg ráð,

Þá horfin er þér heimsins prýði,

en hugann nístir angur og kvíði, –

Hvað dugir, nema drottins náð?

(Grímur Thomsen)

Þakkar þér uppeldið og samferðina, kæri faðir, og megir þú njóta góðra samvista á þeirri leið sem þú hefur lagt út á.

Lárus Pétur Ragnarsson.

Heyrið vella á heiðum hveri,

heyrið álftir syngja í veri:

Íslands er það lag.

Heyrið fljót á flúðum duna,

foss í klettaskorum bruna:

Íslands er það lag.

(Grímur Thomsen)

Elskulegur tengdafaðir minn, Ragnar Jóhann frá Grímstungu í Vatnsdal, andaðist þann 7. apríl síðastliðinn á 92. aldursári. Ragnari var margt til lista lagt, hann var náttúruunnandi, hafði einstaklega fallega söngrödd og naut þess mjög að syngja í góðra vina hópi. Handlaginn var hann og fékkst m.a. við bókband og glerlist hin seinni ár. Þau hjónin nutu þess mjög að ferðast um landið og heimsækja ættingjana og voru þau ferðafélagar okkar hjónanna í mörgum skemmtilegum ferðum bæði norður í land og austur í sveitir. Ragnar var fróður um fjöll og aðra staðhætti sem við nutum góðs af. Ég kveð tengdaföður minn með innilegu þakklæti fyrir samskiptin á liðnum árum.

Flýt þér, vinur, í fegra heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa Guðs um geim.

(Jónas Hallgrímsson)

Karlotta Aðalsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við bræður afa okkar, Ragnar Jóhann Lárusson. Afi var fæddur í Grímstungu í Vatnsdal árið 1924. Síðasta æviárið, þegar gleymskan hafði náð að smeygja sér inn í hugsanir hans, var hugurinn oft bundinn æskuslóðunum. Afi var alltaf tilbúinn að ræða sveitina sína og það gætti bæði stolts og ánægju þegar hann var kominn á flug í frásögn sinni. Oft kom fyrir að hann bætti inn í vísum um menn og málefni en afi kunni kynstrin öll af vísum. Þannig gátum við bræður upplifað liðna tíð úr sveitinni hans því afi var víðlesinn og bókelskur með eindæmum. Afi var barngóður, hann tók ávallt vel á móti barnabörnum og barnabarnabörnum þegar þau komu í heimsókn, hann veitti þeim hlýju og áhuga.

Afa var í blóð borin mikil nýtni og sparsemi, engu var hent, allt var nýtt og engu var spanderað að óþörfu. Þegar við bræður vorum í mat hjá afa og ömmu fannst okkur kjötið stundum feitt sem boðið var upp á og skárum við fituna burt. Afi lét ekkert fara til spillis og bauðst til að borða fituna sem honum fannst ákaflega ljúffeng. Einu sinni sem oftar reyndi amma að plata afa til að gerast áskrifandi að Stöð 2 en sá gamli svaraði að bragði: „Hvað höfum við að gera við aðra sjónvarpsstöð þegar við náum ekki einu sinni að klára dagskrána á einni stöð?“

Afi starfaði drjúgan hluta starfsævinnar sem verkstjóri hjá Kópavogsbæ. Með vandvirkni og útsjónarsemi lagði hann gangstéttir og stíga um gervallan Kópavog. Afi var ákaflega handlaginn og mikill handverksmaður og gat útbúið fallega hluti, borð, lampa, glerlistaverk, bundið inn bækur og margt fleira. Ef smíða þurfti vandaðan hlut þá baðstu afa um aðstoð. Afi var greiðvikinn og hjálpsamur og eftir að við bræðurnir fórum sjálfir að búa þá var það ófáum sinnum að við fengum hin ýmsu verkfæri að láni hjá honum ásamt útlistun á notkunareiginleikum þeirra.

Afi hafði skemmtilegan húmor og var hann ávallt léttur í lund. Hann hafði einstaklega gaman af kveðskap og fór með stemmur eins og hann kallaði þær. Hann hafði góða söngrödd og naut sín vel í góðra vina hópi við fjöldasöng og ekki spillti fyrir ef smá vínlögg var við höndina. Hann spilaði oft rommý og ólsen-ólsen við okkur bræður og þá var hlegið dátt, sérstaklega ef hann var að vinna okkur.

Eftir að amma flutti í Sunnuhlíð tók afi við heimilishaldinu. Hann lagði metnað sinn í að halda öllu hreinu og snyrtilegu en sérstakan metnað lagði hann í borðhald og kaffisamsæti. Hann bauð oft upp á margs konar veitingar. Á borð voru bornar margar tegundir af kexi með kremi og án þess, kleinur, kökur og smurt brauð. Oft gat verið erfitt að komast yfir allar tegundirnar.

Að leiðarlokum þökkum við bræður margar ánægjustundir og eftir lifir minning um einstakan afa sem var nægjusamur, en umfram allt hlýr, skemmtilegur og sáttur við sitt fram á síðasta dag.

Vilhjálmur (Villi) og

Kjartan.

Mig langar með fáum orðum að minnast Ragnars móðurbróður míns.

Hann var fæddur og uppalinn í Grímstungu í Vatnsdal, og fór þaðan ungur í bændaskólann að Hólum, þar sem hann kynntist Elínu konu sinni. Þau byrjuðu búskap í Grímstungu, en fluttu svo austur í Skaftafellssýslu þar sem Elín var fædd og uppalin, og bjuggu þar í nokkur ár. Með búskapnum vann Ragnar á jarðýtu og kunni margar skemmtilegar sögur frá þeim tíma. Svo flutti fjölskyldan suður og keypti lítið hús að Borgarholtsbraut 45 í Kópavogi. Á þeirri lóð byggði Ragnar síðan stórt og myndarlegt hús, enda börnin orðin fjögur og Karólína móðir Ellu bjó alla tíð hjá þeim. Ragnar var að eðlisfari yfirvegaður og vandvirkur eins og sjá mátti á verkum hans. Enda naut hans aðhalds tengdamömmu stóran hluta ævi sinnar. Hann var mikill söng- og kvæðamaður. Kom hann nokkrum sinnum fram opinberlega ásamt Grími bróður sínum. Ragnari og fjölskyldu kynntist ég mest á árunum í kringum 1970. En þá fengum við Gestur heitinn, mágur minn, fæði og húsnæði hjá þeim hjónum meðan við vorum í námi og færi ég þeim bestu þakkir fyrir okkur. Á þessum árum var margt í heimili á Borgarholtsbrautinni og oft kátt á hjalla. Þá kom það fyrir að Ragnar setti spaugilegu hliðarnar í vísuform, en hann fékk þá hæfileika með móðurmjólkinni.

Að lokum þakka ég Ragnari samfylgdina og sendi börnum hans og ættingjum samúðarkveðjur.

Lárus Helgason.

Elsku Raggi okkar. Okkur langar að þakka þér og Ellu fyrir það hversu góð þið hafið verið við okkur. Það var gaman að koma til ykkar í heimsókn í Sunnuhlíð og á Borgarholtsbrautina. Þú tókst svo vel á móti okkur. Okkur langar að kveðja þig með þessu versi:

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Lalli, Kæja, Dóra, Ásdís og fjölskyldur, megi Guð blessa ykkur öll og styrkja.

Ykkar frænkur,

Bára og Alda.