Hildur Hákonardóttir sjúkraliði fæddist 24. janúar 1962. Hún lést 6. apríl 2016.

Foreldrar hennar voru Svanhildur Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 17. febrúar 1938, d. 30. desember 1995, og Hákon Svanur Magnússon, f. 24. júní 1939, d. 19. febrúar 1993.

Systkini Hildar eru: Helga, f. 16. júlí 1959, og Magnús, f. 29. október 1966, d. 30. maí 2011.

Eiginmaður Hildar er Þorgeir Guðmundsson skipstjóri, f. 30. október 1960. Þau giftust þann 7. maí 1988. Börn hennar eru: 1) Svanhildur Guðbjörg Þorgeirsdóttir leikskólakennari, f. 2. apríl 1987. Eiginmaður hennar Björn Ingvar Guðbergsson þjónustufulltrúi, f. 27. febrúar 1982. Börn þeirra eru Elmar Þór og Þorgeir Logi. 2) Brynjar Freyr verslunarmaður, f. 28. október 1990. 3) Helga Guðný nemi, f. 17. desember 1998.

Stjúpdóttir Hildar er Vigdís Elva verslunarstjóri, f. 27. ágúst 1980. Sambýlismaður hennar er Þröstur Árnason sjómaður, f. 5. mars 1975. Börn þeirra eru Auðunn Árni, Hekla Guðrún, Ellert Atli og Gunndís Katla.

Útför Hildar fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 14. apríl 2016, klukkan 13.

Hvað á ég að segja? Það er oft sagt að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Í þessu tilfelli á það ekki við. Ég hef alla tíð sagt þér hvað ég elska þig mikið og hvað ég er þakklát fyrir að eiga þig að. Samtölum okkar lauk alltaf á sömu nótum: „Love you.“

Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Af hverju? Þegar hinsta kallið kemur svona snöggt get ég ekki gert annað en hugsað um af hverju ég kom ekki oftar í heimsókn, af hverju bauð ég þér ekki oftar í mat, af hverju? Af hverju fáum við ekki fleiri ár saman? En þegar ég hætti að spyrja og fer að hugsa frekar út í allar þær skemmtilegu stundir sem við höfum átt saman þá hlýnar mér. Þú varst mikill húmoristi, fagurkeri og gerðir allt fyrir börnin þín. Þú varst alltaf til staðar alveg sama hvað bjátaði á. Ég veit ekki hversu mörg skiptin við hlógum okkur máttlausar út af fíflagangi. Ég er þakklát fyrir allar samverustundirnar, öll ferðalögin, öll símtölin og síðast en ekki síst Facebook-samtölin.

Undanfarið hef ég mikið verið að hugsa um hvað stendur upp úr. Það sem virðist vera einkennandi er hvað þú varst mikil mamma. Hvort það var þegar ég átti hann Elmar Þór. Þá varst þú viðstödd og stóðst sem klettur með okkur Bjössa. Enda hefur samband þitt og Elmars alla tíð verið einstakt. Hann hefur alla tíð verið mikill ömmustrákur og vissi ekkert betra en að fara til ömmu í „kósí“. Þegar ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands 2012 varst þú allt í öllu. Alltaf þegar mig vantaði faðmlag eða hughreystingu varst þú til staðar. Þú vissir alltaf hvað þú áttir að segja og ekki segja – stundum var nóg að gefa mér faðmlag.

Ákveðin, falleg sál, sterk, ljúf, skemmtileg og fagurkeri. Þetta eru þín sérkenni og ég vona að ég komist í hálfkvisti við þau. Ég elskaði þig og mun alltaf elska þig. Það er með mikilli sorg sem ég horfi til framtíðarinnar með enga mömmu mér við hlið. Það er í raun framtíð sem ég vil ekki horfa til. En þegar valið er ekkert þá neyðist ég til að horfa bara á daginn í dag.

Ég passa upp á alla – sjáumst síðar.

Elska þig.

Svanhildur Guðbjörg.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Einar Steingrímsson.)

Elsku Hildur mín. Þegar ég sest niður og skrifa þessi orð er mér efst í huga þakklæti. Þeirri ást og þeim stuðningi sem þú sýndir mér og sonum mínum mun ég aldrei gleyma. Þú varst frábær amma og í miklu uppáhaldi hjá sonum mínum. Elmar Þór taldi niður dagana þangað til að hann komst í ömmudekur.

Börnin þín og barnabörnin voru þér allt og aðdáunarvert var að sjá hversu gott samband þú áttir við börnin þín. Ef það leið dagur án þess að hún Svanhildur mín heyrði í mömmu sinni þá varð hún óróleg.

„Hvað segir uppáhalds tengdasonur minn,“ sagðirðu oft í gríni en mikið rosalega kunni ég að meta það. Þú varst í miklu uppáhaldi hjá mér og mikið vildi ég óska þess að ég hefði verið duglegri við að segja þér það.

Minningarnar eru ótal margar. Öll ferðalögin, öll matarboðin og allar samverustundirnar. En minnisstæðast er mér alltaf þegar hann Elmar Þór minn kom í heiminn. Þeim stuðningi sem þú veittir mér og Svanhildi þá, mun ég aldrei gleyma.

Elsku Hildur mín. Kallið kom alltof snemma en ég trúi því að hann Maggi þinn hafi tekið vel á móti þér.

Takk fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Björn Ingvar Guðbergsson.

Elsku amma.

Ég elska þig svo mikið. Meira en allar stjörnurnar á himninum.

Ég vil bara að þér líði vel.

Þinn ömmustrákur,

Elmar Þór.

Elskuleg systurdóttir mín, hún Hildur, er látin langt um aldur fram. Það er mér erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um unga yndislega konu sem var í blóma lífsins tekin frá eiginmanni, börnum og frá litlu gullmolunum sínum, og ekki síst henni Helgu, systur hennar, sem er búin að horfa á eftir foreldrum sínum, bróður og nú elskulegri systur og vinkonu. Þetta nístir hjartað og er sárt og óskiljanlegt. Hildur ólst upp við mikinn kærleika frá foreldrum sínum og systkinum. Fyrstu árin bjuggu þau á Freyjugötunni en síðan í Stífluseli. Skærasta minning mín um hana er þegar við systurnar bjuggum í foreldrahúsum á Freyjó og vorum að ala upp okkar fyrstu börn. Þar var mikil gleði og oft svolítill gauragangur á ferð, en gott var að hafa afa og ömmu til að hlaupa til ef mikið gekk á. Þar var alltaf tekið á móti þeim með opnum örmun kærleika.

Þessi ár eru mér fjársjóður í minningunni og allur sá tími sem við hjónin áttum með þessari fjölskyldu í gegnum árin ógleymanlegur tími. Elsku Hildur mín, þakka þér fyrir að vera stór hluti af honum.

Hildur var einstaklega dugleg, hugrökk og góð kona, hafði góðan húmor og var skemmtileg.

Kristján og fjölskylda og Elías Egill sakna þess að geta ekki kvatt kæra frænku sína en þeir búa erlendis.

Kæri Þorgeir og fjölskylda, ykkar missir er mestur. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að veita ykkur styrk og þrek á þessum erfðu tímum. Minningin um góða og yndislega eiginkonu, móður, ömmu og systur mun veita ykkur styrk, yl og birtu á komandi tímum. Guð blessi ykkur öll.

Guðný, Guðlaugur, Kristján, Erla og Elías Egill og fjölskyldur.

Lífið virðist oft ósanngjarnt. Hvað veldur því að kona á besta aldri fellur frá? Hildur var okkur mjög hugleikin. Þegar við hjónin, Ída og Páll, bjuggum í Brekkuseli þá bjuggu foreldrar hennar í Stífuseli og samgangur mjög mikill og Hildur gisti oft hjá okkur. Þær Jóna, dóttir okkar, mynduðu sterk tengsl, gengu báðar í Fjölbraut í Breiðholti og hjálpuðust að. Síðan hefur Hildur átt sérstakan stað í hjarta okkar þó að samskiptin hafi orðið minni eftir að hún fluttist til Grindavíkur.

Kæru Þorgeir, Vigdís, Svanhildur, Helga Guðný og Brynjar. Kæru Helga, Þór, Hákon Svanur og Edda Karen.

Allt virðist nú svart og enga ljósglætu að sjá í myrkrinu. En eftir lifir minning um góða stúlku. Skáldið Tómas Guðmundsson segir:

Nú veit ég, að sumarið sefur

í sál hvers einasta manns.

Eitt einasta augnablik getur

brætt ísinn frá brjósti hans,

svo fjötrar af huganum hrökkva

sem hismi sé feykt á bál,

unz sérhver sorg öðlast vængi

og sérhver gleði fær mál.

Guð blessi ykkur öll.

Páll, Ída, Jóna,

Einar Freyr og

fjölskyldur.