Skjáskot úr leiknum Valkyrie sem CCP gaf út á dögunum. Einn metsöluleikur getur verið hvalreki, eins og dæmin frá Finnlandi sanna.
Skjáskot úr leiknum Valkyrie sem CCP gaf út á dögunum. Einn metsöluleikur getur verið hvalreki, eins og dæmin frá Finnlandi sanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Hilmar Veigar hjá CCP myndi vilja fjarlægja eða hækka verulega það þak sem er í dag á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Endurgreiðslukerfið vegna kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar kveður ekki á um hámarksupphæðir og hefur gefið góða raun.

„Það kemur fólki oft á óvart, jafnvel þeim sem starfa í bransanum, hvað leikjageirinn er orðinn stór,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Samtök leikjaframleiðenda, IGI, héldu ársfund sinn í síðustu viku, en þar flutti Hilmar erindi þar sem hann fór yfir stöðu tölvuleikjaframleiðslu á Íslandi og stefnumótun samtakanna.

Í dag starfa 18 leikjafyrirtæki á Íslandi og hafa þau gefið út fimm nýja leiki það sem af er þessu ári. Undanfarin ár hefur meðalvöxtur greinarinnar verið í kringum 18% og á tímabilinu 2008 til 2015 nam uppsöfnuð velta 67,8 milljörðum króna. Koma tekjur leikjafyrirtækjanna að langstærstum hluta frá útlöndum og er því um öfluga útflutningsgrein að ræða.

Vill sams konar hvata og veitt er til kvikmyndagerðar

Íslensku leikjafyrirtækin eru því í beinni samkeppni við erlenda framleiðendur og ræddi Hilmar um það í erindi sínu hvernig skapa mætti greininni betri skilyrði hér á landi. Hann nefnir til samanburðar þann ávinning sem fengist hefur með ívilnunum fyrir kvikmyndageirann, og segir dæmi um tvær skapandi greinar sem ekki sitji við sama borð. „Er skemmst frá því að segja að sú stefna stjórnvalda að veita kvikmyndaframleiðendum hvata í gegnum skattakerfið hefur skilað frábærum árangri, og verið vítamínsprauta fyrir atvinnulífið í landinu. Við horfum til þess að endurtaka þennan góða árangur á tölvuleikjasviðinu.“

Um framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis gilda þær reglur að ríkissjóður endurgreiðir 20% af framleiðslukostnaði á Íslandi, og er ekkert þak á endurgreiðslunum. Með lögum sem Alþingi samþykkti árið 2009 varð til heimild fyrir fyrirtæki að draga frá skatti 20% af kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna en ólíkt kvikmyndageiranum er sett þak á upphæðina. „Það má gera risastórar bíómyndir á Íslandi en hvatarnir eru ekki þeir sömu ef á að gera risastóran tölvuleik,“ segir Hilmar en játar það um leið að flestir íslenskir tölvuleikjaframleiðendur séu ekki enn farnir að rekast á þakið. CCP finnur þó fyrir þakinu og á þessu ári mun fyrirtækið t.d. verja um fjórum milljörðum króna í nýsköpun. „Því hærra sem þakið er, þeim mun skýrari skilaboð er verið að senda út á markaðinn, og þá sérstaklega til fjárfesta.“

Tekjur lítils leikjafyrirtækis eins og fjórðungur af fjárlögum

Minnir Hilmar á hversu miklu það getur skipt að hlúa vel að geirum á borð við tölvuleikjaframleiðslu. Mikil verðmætasköpun eigi sér stað í leikjageiranum og leikur sem slái í gegn geti verið hvalreki fyrir efnahagslífið. „Gott dæmi er finnska fyrirtækið Supercell, sem gerir leiki fyrir snjallsíma á borð við Clash of Clans, Clash Royale og Boom Beach. Fyrirtækið þykir í smærri kantinum, með færri en 200 starfsmenn, en árstekjurnar eru yfir einum milljarði Bandaríkjadala. Ekkert segir að eitthvað svipað gæti ekki gerst á Íslandi,“ segir hann, en til að setja tekjur Supercell í samhengi eru þær á við einn fjórða af fjárlögum íslenska ríkisins.

Hættan er líka sú að þau fyrirtæki sem komast á legg á Íslandi færi meira af starfsemi sinni út í heim þar sem skatta- og regluumhverfið er hagstæðara. CCP er með útibú í nokkrum löndum og nefnir Hilmar að fyrirtækið fái endurgreidd 30% af þróunarkostnaði sem falli til hjá CCP í Atlanta, og 20% af þróunarkostnaðinum í Bretlandi. Á Íslandi er endurgreiðsluhlutfallið ekki nema 0,8% þegar upp er staðið.

Reyndir fjárfestar með góð sambönd eru verðmætir

Hilmar er efins um að það að byggja upp mjög hagfellt rekstrarumhverfi fyrir tölvuleikjaframleiðendur myndi laða erlend fyrirtæki til landsins. Til þess þyrfti meiri uppbygging að eiga sér stað í greininni og eins þyrfti þá meira framboð af fólki með mikla sérhæfingu og reynslu af leikjagerð. Bætt umhverfi segir hann þó að myndi án vafa laða að erlenda fjárfesta, sem komi ekki aðeins færandi hendi með fjármagn heldur séu líka með reynslu í farteskinu. „Með því að njóta góðs af reynslunni sem þetta fólk færir með sér má bjarga leikjafyrirtækjunum frá því að endurtaka mistök annarra og hægt er að nýta peningana með skilvirkari hætti. Hinn alþjóðlegi leikjamarkaður er líka stór og flókinn og markaðssetningin ekki síður mikilvæg en sjálf leikjasmíðin. Þar kemur sér vel að hafa fjárfesta í stjórn sem hafa réttu samböndin.“

Skattar, umbreytanleg skuldabréf og skattasamningur við Japan

Á ráðstefnu IGI kynnti Hilmar niðurstöður stefnumótunar samtakanna. Hefur stjórn félagsins sett saman lista yfir þau tíu atriði sem brýnast er að bæta svo að tölvuleikjagerð geti þrifist sem best.

Fyrsta atriðið á listanum er að afnema það þak sem er á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Segir jafnframt á lista IGI að fjármálaráðherra hafi nú lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að endurgreiðsluþakið hækki upp í 300 milljónir króna.

Í öðru sæti lendir skattlagning umbreytanlegra skuldabréfa. Erlendis eru umbreytanleg skuldabréf vinsæl leið og á margan hátt mjög hentug, til að fjármagna hugbúnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki, sérstaklega á fyrstu stigum. Er íslenska skattkerfið óhentugt fyrir þessa tegund fjármögnunar.

IGI hvetur einnig til að gerður verði tvísköttunarsamningur við Japan. Þar hefur Sony sínar höfuðstöðvar og treysta margir leikjaframleiðendur á japanska tæknirisann þegar kemur að dreifingu.

Fjórða mál á lista er breyting á skattlagningu kaupréttarsamninga. Í dag er íslenska skattkerfið mjög „framhlaðið“ að mati IGI og eðlilegra að skattlagningu sé frestað fram að sölu bréfanna eins og tíðkast í flestum öðrum löndum sem Ísland ber sig saman við.

Af öðrum áhersluatriðum má nefna að IGI leggur til að settur verði á laggirnar nýr fjárfestingarsjóður, að ísraelskri fyrirmynd. Sjóðurinn myndi leysa vandamál tengd fjármögnun fyrirtækja og greiða leið þeirra inn á erlenda markaði. Einnig vilja samtökin að endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði myndi strax inneign hjá ríkissjóði, frekar en að bíða þurfi fram í nóvember eftir endurgreiðslu.