Vændi Það hefur mikið til farið af götunni og yfir á netið.
Vændi Það hefur mikið til farið af götunni og yfir á netið. — AFP
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hún heitir Kate og er 21 árs, hún er sú eina sem var skráð í Reykjavík í gær. Þær voru fjórar daginn áður: Ana, Harra, Nikolle og Karinna. Þessar stúlkur selja sig allar í vændi á alþjóðlegri vefsíðu.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hún heitir Kate og er 21 árs, hún er sú eina sem var skráð í Reykjavík í gær. Þær voru fjórar daginn áður: Ana, Harra, Nikolle og Karinna.

Þessar stúlkur selja sig allar í vændi á alþjóðlegri vefsíðu. Þær eru staddar í Reykjavík núna en á síðunni er hægt að auglýsa vændisþjónustu í ákveðnum borgum heimsins eftir dögum. Kate gefur upp símanúmer og tölvupóstfang og þá eru nákvæmar útlitslýsingar á „vörunni"; hárlitur er dökkur, augnlitur blár, hún er rökuð og reykir en er ekki með sílikon né húðflúr. Klukkutími með henni kostar 50.000 kr., ein klukkustund í viðbót er á 35.000 kr.

Eins og sagði frá í Morgunblaðinu í gær hafa umsvif vændis á Íslandi aukist undanfarið m.a vegna tilkomu fleiri ferðamanna. Vændissalan fer að mestu leyti fram í gegnum vefsíður og samfélagsmiðla. Oftast eru þetta erlendar konur sem koma hingað tímabundið þó íslenskar konur megi finna inn á milli.

Athygli vekur að stúlkurnar fjórar sem auglýstu þjónustu sína á þriðjudaginn eru allar með svipað símanúmer og sama lag hljómar hjá öllum þegar hringt er. Sú fyrsta sem blaðamaður hringir í svarar, hún talar ensku með hreim og segist vera stödd á Íslandi en þegar spurt er frekar skellir hún á. Ekki svarar í neinu hinna númeranna eftir það.

„Þetta gæti verið eina og sama manneskjan sem er að reyna að auglýsa sig sem mest. En þær geta líka verið nokkrar saman. Þær láta oft símann ganga sín á milli, við erum með númer sem við þekkjum og eru vændissímar. Það er alltaf hægt að eiga viðskipti við símanúmerið þó það sé ekki alltaf sama konan,“ segir Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Börn á flótta til sölu

Fjórar til fimm alþjóðlegar vefsíður eru í gangi sem auglýsa vændi til sölu á Íslandi. Þær eru vistaðar erlendis og því ekki hægt að loka þeim, að sögn Snorra. „Ég lagði til að við ættum að fá einhvern til að fara fram á lögbann á þeim eins og var gert með síður sem voru að dreifa ólöglegu niðurhali en það þyrfti þá að koma frá aðila sem er að tapa á viðskiptunum og það er ekkert slíkt í þessum geira. Á Facebook er auðveldara að grípa til ráðstafana, þegar við höfum fengið upplýsingar um vændissölu þar höfum við haft samband við Facebook og þeir hafa í sumum tilfellum lokað þeim síðum,“ segir Snorri.

Vefsíðan sem Kate og samstarfsfélagar auglýsa sig á er eitt stærsta vandamálið í Bandaríkjunum í dag en það er mikið um að þolendur mansals séu auglýstir þar til sölu. „Það er vel fylgst með þeirri síðu í dag út af flóttamönnum, en krakkar sem eru á flótta eru gripnir í vændi og auglýstir þar,“ segir Snorri.

110 auglýstar í höfuðborginni

Ólöglegt er að borga fyrir kynlíf í Reykjavík en hægt er að finna það neðanjarðar segir á einni vefsíðunni. Fátt virðist þó vera neðanjarðar við vændið þegar síðurnar eru skoðaðar, tilfinningin er að það sé áberandi og aðgengilegt. Á þeirri síðu eru 69 vændiskonur skráðar á Íslandi; 63 í Reykjavík, 5 í Hafnarfirði og 1 í Reykjanesbæ. „Þetta er ekki endilega staðan. Þó þær séu svona margar skráðar inn þá eru kannski bara tíu staddar á Íslandi í dag. En um leið og þær koma aftur til landsins virkja þær auglýsinguna og þá fer hún efst upp,“ segir Snorri.

Enn ein síðan er með 110 auglýsingar skráðar í Reykjavík og 9 í Hafnarfirði. Þegar síðurnar eru bornar saman sést að þetta eru mikið sömu konurnar og sumar þeirra með nokkrar auglýsingar á hverri síðu. Afar fáir karlmenn eru á síðunum.

Frumkvæðissala á hótelum

Þó vændissala fari að langmestu leyti fram í gegnum netið fer frumkvæðissala líka fram og þá aðallega á hótelum. „Þær skrá sig á hótel og fara svo á barinn til að tala við gestina t.d. ef það eru ráðstefnur í gangi. Við höfum verið að leitast eftir að komast inn í ferðaþjónustuna með fræðslu því það þarf að fá hótelin til að tilkynna og bera kennsl á vændi, því oft áttar fólk sig ekki á því hvað er í gangi.“

Í frétt um vændi í blaðinu í gær var skrifað að húsnæði sem er leigt út til ferðamanna í gegnum netið væri stundum notað undir vændi til skamms tíma í einu, var þar átt við við húsnæði sem er leigt út í gegnum margvíslegar vefsíður, ekki eingöngu Airbnb eins og nefnt var í greininni.