Baldur Arnarson baldura@mbl.is Miðvikudaginn örlagaríka 6. apríl gengu þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson niður stiga í Alþingishúsinu og hittu þar fyrir fjölda blaðamanna.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Miðvikudaginn örlagaríka 6. apríl gengu þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson niður stiga í Alþingishúsinu og hittu þar fyrir fjölda blaðamanna. Rataði sá fundur í erlenda fjölmiðla, enda umræðuefnið ný ríkisstjórn og athygli heimspressunnar á Panamaskjölin og áhrif þeirra á Íslandi.

Fyrirkomlag þessa blaðamannafundar er áminning um að bæta þarf upplýsingamiðlun stjórnvalda til umheimsins. Viðtöl í stiga hafa í för með sér að ekki komast aðrir blaðamenn að með spurningar en þeir sem fremst standa, spyrjandi í beinni útsendingu. Það var greinilega áskorun fyrir myndatökumenn og ljósmyndara að vinna við þessar aðstæður. Eðlilegra er að blaðamannafundur sé haldinn í sal þar sem blaðamenn eru sitjandi. Síðan á að gefa sem flestum blaðamönnum færi á að spyrja, eftir því sem tími leyfir.

Annað dæmi um gagnrýniverð vinnubrögð er blaðamannafundur í Iðnó um skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina, sem fram fór í aprílmánuði 2014. Blaðamenn fengu í hendur þúsundir blaðsíðna án fyrirvara og glugginn til að ræða við höfunda skýrslunnar var aðeins opinn í nokkra klukkutíma. Betra hefði verið að blaðamenn hefðu fengið að sjá skýrsluna með nokkurra daga fyrirvara gegn því að greina ekki frá efninu áður. Gerð skýrslunnar kostaði yfir 600 milljónir króna.