Bjargvættur Viktor Már Einarsson tók stjórnina og hélt konunni á lífi með hjartahnoði þar til sjúkrabíll kom á staðinn. Unglingarnir voru æðrulausir.
Bjargvættur Viktor Már Einarsson tók stjórnina og hélt konunni á lífi með hjartahnoði þar til sjúkrabíll kom á staðinn. Unglingarnir voru æðrulausir. — Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson
Ólafur Bernódusson Skagaströnd Fullyrða má að rétt viðbrögð nokkurra unglinga á Skagaströnd hafi bjargað lífi eldri konu þegar hún fékk hjartaáfall þar sem hún var í göngutúr utan alfaraleiðar.

Ólafur Bernódusson

Skagaströnd

Fullyrða má að rétt viðbrögð nokkurra unglinga á Skagaströnd hafi bjargað lífi eldri konu þegar hún fékk hjartaáfall þar sem hún var í göngutúr utan alfaraleiðar. Einn drengur í hópnum hóf hjartahnoð strax og hann áttaði sig á alvarleika málsins og hnoðaði í 17 mínútur þangað til sjúkrabíll kom á staðinn. Með skjótum og réttum viðbrögðum tókst krökkunum í sameiningu að bjarga lífi konunnar.

Unglingar í leiklistarvali í Höfðaskóla voru á æfingu í félagsheimilinu Fellsborg seinni partinn 7. apríl þegar ein stúlkan í hópnum sér fyrir tilviljun út um gluggann þar sem konan fellur fram fyrir sig á andlitið án þess að bera hendurnar fyrir sig. Konan var á vegslóða 150 – 200 metra frá félagsheimilinu þegar hún hneig niður.

Eftir að hafa beðið í stutta stund og séð að konan reis ekki á fætur þá hljóp einn úr hópnum til hennar til að athuga hvað um væri að vera. Þegar hann sá að konan var meðvitundarlaus og blæðandi hljóp hann til baka og hringt var í neyðarlínuna til að kalla til sjúkrabíl. Á sama tíma kom hópur af unglingunum að konunni og Viktor Már Einarsson, sem er í 10. bekk, tók frumkvæðið, hringdi í neyðarlínuna til að fá ráð og skipulagði aðgerðir meðan hann hóf hjartahnoð. Viktor hélt síðan áfram að hnoða í 17 mínútur eða þar til sjúkraflutningamenn tóku við.

Konan var meðvitundarlaus

Viktor segir konuna hafa verið meðvitundarlausa, með engan púls né andardrátt en hafi á þessum mínútum nokkrum sinnum tekið andköf en síðan alltaf hætt að anda aftur. Hann segist ekki hafa treyst sér til að blása í konuna vegna áverka í andlitinu eftir fallið heldur hafi hann opnað öndunarveginn vel og séð til þess að fötin voru fjarlægð sem þrengdu að hálsi og bringu. Þegar fréttaritari ræddi við Viktor og spurði hvort hann hefði ekki bjargað lífi konunnar var hógvært svar hans: „Mér er sagt það.“

Viktor og hinir unglingarnir hafa fengið tilsögn í skyndihjálp í skólanum sem greinilega kom sér vel í þessu tilfelli. Það má sannarlega hrósa krökkunum og þá sérstaklega Viktori fyrir að halda ró sinni og bregðast við þessari óvæntu uppákomu á hárréttan hátt.

Voru ótrúlega yfirveguð

Strax eftir atvikið ræddi hjúkrunarfræðingur skólans við unglingana og veitti þeim áfallahjálp ásamt því að hitta þau í skólanum og farið yfir málið. Hún sagði að krakkarnir hefðu verið ótrúlega yfirveguð og róleg þrátt fyrir hve alvarlegt atvik var um að ræða.

Konan sem um ræðir var flutt með sjúkrabíl af staðnum en síðan kom þyrla til móts við bílinn og flutti konuna á Landspítalann þar sem hún liggur nú þungt haldin.