[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ekki koma nálægt Khartoum!“ heyrðist hrópað þetta kvöld.

Af faröldrum

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Heimasíðan Boardgamegeek.com hefur nú verið starfrækt í sextán ár, en þar er að finna hálfgerðan gagnagrunn um flestöll borðspil sem gefin hafa verið út í heiminum, allt frá hinu víðfræga Monopoly niður í íslensk stórvirki eins og Útvegsspilið og Verðbréfaspilið. Á meðal þess sem gerir síðuna sérstaka í hugum spilanörda er listi, þar sem borðspilum er raðað eftir þeirri einkunn sem notendur síðunnar gefa spilunum.

Á þeim lista hefur kaldastríðsspilið Twilight Struggle lengst af trónað á toppnum, en því var „steypt af stóli“ um síðustu mánaðamót, eftir rúmlega tíu ára veru. Arftaki nafnbótarinnar „Besta spil allra tíma,“ reyndist vera samvinnuspilið Pandemic Legacy sem kom út fyrir síðustu jól, en það byggist á eldra spili sem heitir einfaldlega Pandemic .

Leikmenn í Pandemic setja sig í spor sérfræðinga í faraldsfræðum, sem eiga að koma í veg fyrir að fjórir skelfilegir sjúkdómar leggi heimsbyggðina alla að velli. Ólíkt mörgum spilum, þar sem leikmenn keppast um að bera sigur úr býtum verða þeir að vinna saman í Pandemic eða dæma mannkynið til útrýmingar.

Og það er léttara verk en margan grunar að tapa illa í spilinu, því það er nánast sérhannað til þess að taka spilarana og rassskella þá ef þeir gæta sín ekki.

Hjarta spilsins er í tveimur sérhönnuðum spilastokkum, þar sem annar inniheldur það sem leikmenn geta gert, en hinn sýnir þær borgir sem verða fyrir barðinu á sjúkdómi. Útbreiðsla sjúkdómanna fjögurra er sýnd með því að setja glæra plastkubba, einn til þrjá, ofan á þær borgir sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim, og tryggir spilastokkurinn að nýjar og nýjar borgir bætast stöðugt í hópinn.

En hvað gerist ef fjórði kubburinn bætist við eina borgina? Svarið er einfalt: sjúkdómurinn dreifir úr sér og allar nágrannaborgirnar fá einn sjúkdómskubb í viðbót. Ef spilararnir gæta sín ekki getur þarna hafist keðjuverkun sem leiðir til þess að viðkomandi sjúkdómur verður óstöðvandi.

Þeir eru ófáir Pandemic -leikirnir þar sem allt hefur virst vera í himnalagi þangað til spilið tekur völdin án nokkurrar viðvörunar. „Ég held við munum ná að vinna þetta spil!“ er til að mynda setning sem er bönnuð við mitt spilaborð. Í hvert sinn sem einhver hefur misst hana út úr sér hefur eitthvað hræðilegt komið upp á og nær öruggum sigri snúið í sárgrætilegt tap. Menn verða því alltaf að vera á tánum.

Í nýja spilinu, Pandemic Legacy , bætist önnur vídd á þessa þróun, þar sem spilið „man“ hvað hefur gerst áður í því. Spilið fylgir eftir atburðum eins árs, og lýsir hver spilun þess þá einum mánuði af árinu. Ef leikmenn tapa, þá endurtaka þeir mánuðinn einu sinni, og reyna að vinna aftur. Spilið býður því upp á allt að tólf til 24 mismunandi spil, allt eftir því hversu vel eða illa leikmönnum gengur að hemja sjúkdómana fjóra.

Spilið er í raun „forritað“ til þess að leiða leikmenn í gegnum ákveðna sögu, nánast eins og um hlutverkaspil væri að ræða. En á sama tíma mun hver spilahópur í raun skapa sína eigin sögu, sitt eigið Pandemic Legacy , þar sem allar gjörðir spilaranna munu hafa varanlegar afleiðingar. Í mínum spilahóp ákvað „gula veiran“ til að mynda að leggja Afríku nánast í rústir í fyrsta spilinu, með þeim afleiðingum að það sem eftir lifir „ársins“ munum við þurfa að gæta þess vandlega að ástandið þar fari ekki enn frekar úr böndunum.

„Ekki koma nálægt Khartoum!“ heyrðist hrópað þetta kvöld. Höfuðborg Súdan var nefnilega orðin hluti af „dauðaþríhyrningnum“ í Afríku ásamt Jóhannesarborg og Kinshasa. Óttinn við að þessar borgir myndu hreinlega leysast upp fór að stjórna öllum okkar gerðum.

Öllu þessu er stýrt af þriðja spilastokknum, en innan hans leynist söguframvindan og þau verkefni sem leikmenn verða að leysa af hendi, ætli þeir sér að vinna spilið. Þau verkefni geta breyst á augabragði, og er þar með komin enn ein víddin inn í spilið.

Stundum hefur spjald einnig að geyma þau fyrirmæli að eyðileggja sjálft spjaldið, svo önnur fyrirmæli þess komi aldrei fyrir aftur. Fyrir suma er þetta skelfileg upplifun, að taka hlut úr spilinu sínu og eyðileggja það vísvitandi. Sem eigandi spilsins féll sú skylda í mínar hendur. Ég tók litla pappakortið í hendur mér, lokaði augunum og reif það. Um leið fékk ég svona „frelsistilfinningu“, nú verður ekki aftur snúið. Engu að síður ákvað ég að geyma leifarnar, því að hver veit?

Það segir kannski mest um þessa upplifun að þegar fyrsta spilakvöldið var búið hafði hópurinn einungis náð að spila sig í gegnum „febrúar-mánuð“. Tíu mánuðir bíða, fullir af óvissu og skelfilegum hættum. Engu að síður var þegar talað um hvenær næst yrði tekið til við baráttuna.

Helsti galli Pandemic Legacy er sá, að eftir að „desember-mánuði“ lýkur, er spilinu í raun lokið. Það eina sem þá situr eftir er spilaborð, þar sem búið verður að skrásetja hina hetjulegu baráttu spilahópsins míns gegn sjúkdómunum fjórum. Ég veit ekki enn, hvort að við munum ná að halda þeim í skefjum. Ég veit hins vegar að ég hlakka mikið til þess að sjá hvað gerist næst. Það er ekki tilfinning sem maður tengir oft við borðspil.