Nei Vestmannaeyingar hafna því að auka aðgengi að ströndinni Löngu.
Nei Vestmannaeyingar hafna því að auka aðgengi að ströndinni Löngu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is „Við vildum fá fram beint og milliliðalaust viðhorf íbúa.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Við vildum fá fram beint og milliliðalaust viðhorf íbúa. Nú liggur það fyrir og er leiðbeinandi fyrir bæjarfulltrúa og aðra sem að málinu koma,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, en íbúakönnun var gerð í bænum þar sem leitað var álits bæjarbúa á því hvort auka ætti aðgengi að ströndinni Löngu.

Alls greiddu 628 atkvæði og af þeim svöruðu 386, eða 61%, að þeir vildu ekki auka aðgengið að Löngu. 242, eða 39%, vildu auka aðgengið. Af þeim sem sögðust vilja auka aðgengið töldu 77,7% að það yrði best gert með brú, 18,6% töldu göng hentugri en 3,7% vildu aðrar leiðir.

„Þetta er afgerandi niðurstaða,“ segir Elliði jafnframt en nú fari málið fyrir umhverfis- og skipulagsráð og síðar bæjarstjórn þar sem endanleg ákvörðun verður tekin varðandi aðgengi að ströndinni.

„Það hefur ekki gerst í Eyjum að farið hafi verið gegn svo afgerandi niðurstöðu bæjarbúa,“ tekur hann þó fram.

Stór og afturkræf aðgerð

Óskað var eftir áliti íbúa Vestmannaeyjabæjar með þessum hætti því umsókn hafði borist umhverfis- og skipulagsráði bæjarins um að gera jarðgöng í gegnum Heimaklett og opna þannig aðgengi að ströndinni Löngu. „Þarna var um stóra og afturkræfa aðgerð að ræða,“ segir Elliði, og enginn kjörinna fulltrúa í bænum hafi verið kosinn upphaflega til að taka slíka ákvörðun.

„Ég er fæddur og uppalinn hér og veit að Eyjamenn eru í eðli sínu íhaldssamir og Heimaklettur er okkur háheilagur,“ sagði hann svo léttur í bragði, spurður hverja hann teldi ástæðu þess að bæjarbúar hefðu hafnað auknu aðgengi að Löngu.