[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Stjórnarformenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Stapa lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þau Guðrún Hafsteinsdóttir, Þórarinn Sverrisson og Gunnar Björnsson, taka undir orð Þorsteins Víglundssonar, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins Gildis, í Morgunblaðinu í gær, að þegar gjaldeyrishöftum hafi verið aflétt blasi við að lífeyrissjóðirnir vilji fara með hluta fjár síns til fjárfestinga erlendis.

„Mér þykir auðvitað líklegt að við hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna munum hreyfa okkur út fyrir landssteinana, þegar höftum hefur verið aflétt. Það er vitanlega til þess að dreifa okkar áhættu og ég tel það skynsamlegt. Ég hef gagnrýnt það að lífeyrissjóðunum hafi ekki verið hleypt út. Á síðasta ári fengu þeir að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna erlendis, sem var vitanlega bara dropi í hafið,“ sagði Guðrún í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ákveðið heilbrigðisvottorð

Guðrún segir það vera nauðsynlegt fyrir sjóðina að komast í fjárfestingar erlendis og það sé bara ákveðið heilbrigðisvottorð fyrir eignasöfn sjóðanna að vera ekki með alla sína fjármuni hér á landi, lokaða innan girðingar.

Þórarinn Sverrisson, stjórnarformaður Stapa lífeyrissjóðs, tekur undir orð Guðrúnar. „Það þarf ekki að brýna okkur til fjárfestinga erlendis, þegar höftin eru farin. Það verður að dreifa eggjunum og gjaldeyrisáhættan er svo mikil, að til þess að ná ávöxtun til langs tíma þurfum við að komast í fjárfestingar úti um allan heim,“ sagði Þórarinn.

Sem minnst áhrif á gengið

Hann segir að fullur skilningur sé á þessari þörf hjá lífeyrissjóðunum. „Auðvitað reynum við að vera ábyrgir í þeim fjárfestingum sem við ákveðum, hvort sem er hér á landi eða úti í heimi og tökum ekki hverju sem er.

Persónulega tel ég að við eigum ekki að vera með meiri fjármuni inni í íslenska hagkerfinu, en það sem nemur útgreiðslum á lífeyri. Hitt eigi helst að vera annars staðar, því hver einasti fjármálagerningur hjá lífeyrissjóði hefur svo mikil áhrif á gengi krónunnar, hvort sem við erum að flytja fjármuni inn eða út. Þannig væri best að stilla lífeyriskerfinu að við værum að hafa sem minnst áhrif á gengi íslensku krónunnar með fjármálagerningum,“ sagði Þórarinn.

Þarf hæfilega dreifingu

Gunnar Björnsson, formaður stjórnar Lífeyrssjóðs starfsmanna ríkisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að sama gilti um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og aðra lífeyrissjóði, að hann myndi huga að fjárfestingum erlendis, eftir afnám hafta. „Þetta er spurning um að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni.Það þarf að vera hæfileg dreifing á eignasafninu. Við fjárfestum töluvert erlendis fyrir hrun og vorum með ákveðna stefnumörkun í því, að byggja það upp hægt og rólega,“ sagði Gunnar.

Hann segir að B-deild sjóðsins, sem sé gamli sjóðurinn, hafi verið komin með þokkalegan hlut af eignum sínum í erlendum gjaldmiðlum fyrir hrun, en A-deild sjóðsins, lífeyrissjóðurinn, sé það miklu yngri en B-deildin, að öðru máli hafi gegnt um hana með eignauppbyggingu fyrir utan landsteinana og því ekki verið kominn jafn langt. „Það hefur t.d. komið fram í ávöxtuninni sl. þrjú ár, að hún hefur verið mun betri á erlendu fjárfestingunni en þeirri íslensku. Nú snýst hins vegar dæmið alveg við og ávöxtunin er mun betri á innlendu fjárfestingunni, þannig að eldri sjóðurinn kemur lakar út heldur en sá yngri.“