Svífandi Maria Kochetkova dansar í verkinu Trio eftir Helga Tómasson, en San Francisco-ballettinn dansar undir hans stjórn í Hörpu 28.-30. maí.
Svífandi Maria Kochetkova dansar í verkinu Trio eftir Helga Tómasson, en San Francisco-ballettinn dansar undir hans stjórn í Hörpu 28.-30. maí. — Ljósmynd/Erik Tomasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Í undirbúningi þessarar hátíðar var mér frá upphafi tvennt efst í huga, auk höfundarverks kvenna.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Í undirbúningi þessarar hátíðar var mér frá upphafi tvennt efst í huga, auk höfundarverks kvenna. Annars vegar mannslíkaminn sem allar hugmyndir okkar um frelsi og mannréttindi byggjast á og hins vegar tímamótin sem Listahátíð stendur á,“ sagði Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, á blaðamannafundi í gær þar sem 15 sviðslistaviðburðir hátíðarinnar 2016 voru kynntir. Hátíðin, sem haldin verður í 30. sinn, verður sett 21. maí og stendur til 5. júní.

Yfirskriftin í ár er Síðari hluti og stendur í hún í sterkum tengslum við dagskrá Listahátíðar 2015 sem nefndist Fyrri hluti . „Hugmyndin að því að tengja hátíðir tveggja ára með þessum hætti átti rætur sínar í því að það reyndist ógerningur á síðasta ári að koma að öllu því sem okkur þótti mikilvægt að gera skil á, á aldarafmæli kosningaréttar kvenna.“

Að sögn Hönnu verður Listahátíð sett formlega upp úr hádegi laugardaginn 21. maí í miðborg Reykjavíkur. „En dagskráin hefst óformlega nokkrum dögum fyrr með uppákomum í borginni, sumum óvæntum og öðrum skipulögðum. Þessar uppákomur tengjast opnunarsviðsviðburðinum í ár sem er sýning fimmtán afar liðugra Flex-dansara frá Brooklyn og Manchester undir yfirskriftinni FlexN Iceland ,“ sagði Hanna, en sýning hópsins verður í Brim-húsinu við Geirsgötu að kvöldi 21. maí.

Dansa undir stjórn Helga

„Vladimir Ashkenazy var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun Listahátíðar í Reykjavík árið 1970 og á þessum tímamótum í sögu hátíðarinnar, þegar við höldum hana í 30. sinn, stjórnar hann tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á hátíðinni í fyrsta sinn í 37 ár,“ sagði Hanna og benti á að í fylgd með honum væri franski verðlaunapíanistinn Jean-Efflam Bavouzet, en á efnisskránni er píanókonsert Ravel í G-dúr og Sveitasinfónía Beethoven. Tónleikarnir verða 25. maí.

Líkt og fram hefur komið stígur San Francisco-ballettinn á svið í Eldborg Hörpu undir stjórn Helga Tómassonar dagana 28.-30. maí. „Ferill Helga er ævintýri líkastur, fyrst sem dansara og síðar danshöfundar og listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins sem hefur vaxið og dafnað undir stjórn hans í þrjá áratugi,“ sagði Hanna og upplýsti á efnisskránni yrðu verk eftir George Balanchine, Helga sjálfan, Marius Petipa, Hans van Manen og Christopher Wheeldon, flutt við tónlist eftir Jóhannes Sebastian Bach, Antonio Vivaldi, Ezio Bossi, Tchaikovsky og Stravinsky. „Svo að ef einhverjum hefur þótt halla á hlut karla á Listahátíð undanfarið telst það nú leiðrétt.“

Blóðhófnir og Ur á svið

Sú nýlunda verður á dagskrá Listahátíðar í ár að alþjóðlegur listamaður sækir hátíðina heim tvö ár í röð, en dansarinn Shantala Shivalingappa kemur að þessu sinni fram með Sidi Larbi Cherkaoui, sem er einn þekktasti danshöfundur í evrópskum samtímadansi. Þau munu 31. maí í Þjóðleikhúsinu dansa tvíleikinn Play sem innblásinn er af og fluttur til heiðurs frumkvöðlinum Pinu Bausch sem leiddi þau saman.

Í máli Hönnu kom fram að sem endranær yrðu nýjar tónsmíðar íslenskra tónskálda á dagskrá Listahátíðar samhliða stórvirkjum sígildrar tónlistar. „Tónlistarhópurinn Umbra flytur til að mynda nýtt tónleikhúsverk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur sem er byggt á mögnuðum ljóðabálki Gerðar Kristnýjar, Blóðhófni ,“ sagði Hanna, en verkið verður flutt með upprunahljóðfærum og í sviðsetningu Sögu Sigurðardóttur í Tjarnarbíói 1. júní.

Óperan Ur eftir Önnu Þorvaldsdóttur í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar verður frumsýnd á Íslandi í Norðurljósum 4. júní. „Anna leggur til grundvallar upphaf heimsins, hvorki meira né minna, eins og það birtist í grænlenskum munnmælasögum,“ sagði Hanna og rifjaði upp að um væri að ræða afrakstur verkþróunar yfir tveggja ára tímabil, en verkið var heimsfrumsýnt í Trier sl. haust.

Mistakasaga mannkyns

„Á tónleikum sem bera yfirskriftina Mistakasaga mannkyns fara hefðbundin ljóð og tónlist í gegnum nýstárlega, skapandi hakkavél í ádeilu tónlistarmannanna Hallveigar Rúnarsdóttur, Erps Eyvindarsonar, Hilmars Arnar Hilmarsonar og Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Þau velta þar vöngum yfir „illri hneigð“ mannkyns og hvort það sé okkur eðlislægt að endurtaka sömu mistökin kynslóð fram af kynslóð,“ sagði Hanna, en tónleikarnir verða í Gamla bíói 2. júní.

Á sviði leiklistar má nefna að leikritið Sími látins manns eftir Söruh Ruhl í leikstjórn Charlotte Bøving verður frumsýnt í Tjarnarbíói 23. maí. Félag leikskálda og handritshöfunda í samvinnu við Borgarleikhúsið og Listahátíð standa 22. maí fyrir höfundasmiðju undir yfirskriftinni Afhjúpun þar sem hálfsviðsettir leiklestrar verða á verkum Sigurbjargar Þrastardóttur, Jóhanns Þórssonar, Hildar Knútsdóttur og Jóns Magnúsar Arnarssonar.

Phoenix – Reykjavík Edition nefnist þátttökusýning úr smiðju sviðslistahópsins Wunderland sem hlaut verðlaun í Danmörku fyrir sambærilega sýningu þar í landi. Upplifunin hefst í Snarfarahöfn í Elliðavogi dagana 21. maí til 5. júní.

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir tvö verk eftir þrjá íslenska danshöfunda í byrjun maí undir yfirskriftinni Persóna , en lokasýningin 22. maí er hluti af Listahátíð. Hæfileika- og tónlistarkeppnin Jaðarber Got hæfileikar verður haldin í Mengi 22. maí.

Níu sellóleikarar og söngkona koma fram á tónleikum undir stjórn Gunnars Kvaran sem helgaðir eru minningu sellósnillingsins Erlings Blöndal Bengtssonar í Laugarneskirkju 22. maí, en yfirskrift tónleikanna er Selló, þú barómeter hjarta míns . Barokkhópurinn Symphoniu Angelicu flytur kantötuna La Lucrezia eftir G.F. Händel og fleiri verk á tónleikum í Guðríðarkirkju 26. maí.

„Lokaviðburður Listahátíðar eru djasstónleikar hins þrefalda Grammy-verðlaunahafa og yfirburðatrommuleikara Terri Lyne Carrington undir yfirskriftinni Mosaic Project en með henni í för verður sjö manna djassband úrvalshljóðfæraleikara,“ sagði Hanna, en tónleikarnir verða í Eldborg 5. júní.

Hanna áréttaði á fundinum að ákveðið hefði verið að halda Listahátíð í Reykjavík hér eftir á tveggja ára fresti og því verður næsta hátíð 2018. „Þess vegna er um að gera að njóta þess fjölbreytta lífs og litar sem hátíðin mun gæða borgina í vor.“ Þess má að lokum geta að miðasala Listahátíðar hefst í dag kl. 10 á vefnum listahatid.is, en þar má finna allar nánari upplýsingar um dagskrána. Á næstu tveimur vikum verður myndlistar- og hönnunardagskrá Listahátíðar kynnt.