Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Átta menn sækjast nú eftir því að verða næsti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og gert er ráð fyrir því að hann verði valinn í september eða október samkvæmt breytingum sem samþykktar voru í fyrra með það fyrir augum að gera valið opnara.

Hingað til hefur valið að mestu farið fram fyrir luktum dyrum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en breytingarnar fela meðal annars í sér að frambjóðendurnir koma fyrir allsherjarþingið og svara spurningum fulltrúa aðildarríkjanna í fyrsta skipti í 70 ára sögu samtakanna. Þriggja daga fundi allsherjarþingsins með frambjóðendunum átta lýkur í dag.

Fyrirkomulagið er þannig að hver frambjóðandi fær tíu mínútur til að kynna stefnu sína og svarar síðan spurningum í tvær klukkustundir. Fundurinn er sýndur í beinni útsendingu á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna og embættismenn samtakanna hafa lýst honum sem „fyrsta atvinnuviðtalinu fyrir framan alla heimsbyggðina“.

Þrátt fyrir breytingarnar halda ríkin fimm, sem eru með fast sæti í öryggisráðinu, neitunarvaldi sínu og ráða úrslitum um hver næsti aðalframkvæmdastjóri verður. Hann þarf því að njóta stuðnings Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína og Rússlands.

Merkel í framboð?

Mogens Lykketoft, forseti allsherjarþingsins, telur þó að breytingarnar geti haft mikil áhrif á valið. „Ef mikill fjöldi ríkja styður einn frambjóðanda tel ég að öryggisráðið geti ekki valið allt annan mann,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Lykketoft, sem er fyrrverandi leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í Danmörku.

Hugsanlegt er að fleiri sækist eftir því að taka við af Ban Ki-moon sem lætur af störfum sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í byrjun næsta árs. Að sögn fréttaveitunnar Associated Press er á kreiki orðrómur um að á meðal þeirra sem kunni að gefa kost á sér síðar séu Kristalina Georgieva, sem á sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og jafnvel Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Um það bil fjórðungur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna er hlynntur því að kona verði fyrir valinu sem næsti aðalframkvæmdastjóri samtakanna, að sögn dagblaðsins The Financial Times . Af þeim átta, sem hafa þegar sótt um stöðuna, er helmingurinn konur.

Stjórnvöld í Rússlandi og grannríkjum þess í austanverðri Evrópu hafa lagt áherslu á að nú sé komið að því að velja aðalframkvæmdastjóra frá Austur-Evrópu. Sex af frambjóðendunum átta eru frá þeim heimshluta.

Á meðal þeirra sem talin eru líklegust til að verða fyrir valinu er Irina Bokova, fyrrverandi utanríkisráðherra Búlgaríu. Hún hefur verið yfirmaður UNESCO, Menningarmálastofnunar SÞ, frá árinu 2009 þegar hún varð fyrst kvenna til að gegna því embætti.

Hinir frambjóðendurnir sjö eru Natalia Gherman, fyrrverendi utanríkisráðherra Moldóvu, Igor Luksic, utanríkisráðherra Svartfjallalands, Danilo Turk, fyrrverandi forseti Slóveníu, Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Antonio Guterres, fyrrverandi flóttamannafulltrúi SÞ og forsætisráðherra Portúgals, Vesna Pusic, fyrrverandi utanríkisráðherra Króatíu og Srgjan Kerim, fyrrverandi utanríkisráðherra Makedóníu.