Söngbræður Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli Péturssynir koma fram á tvennum tónleikum í Eldborg í Hörpu á sunnudag. Nær uppselt er á tónleikana.
Söngbræður Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli Péturssynir koma fram á tvennum tónleikum í Eldborg í Hörpu á sunnudag. Nær uppselt er á tónleikana. — Ljósmynd/Dægurflugan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þegar svona mikið framboð er af tónleikum á svæðinu er ekki sjálfgefið að ná svona aðsókn,“ segir Einar Ólafur Speight, tónleikahaldari hjá Dægurflugunni, sem stendur að tónleikum í Eldborgarsal Hörpu á sunnudag með Álftagerðisbræðrum.

„Þegar svona mikið framboð er af tónleikum á svæðinu er ekki sjálfgefið að ná svona aðsókn,“ segir Einar Ólafur Speight, tónleikahaldari hjá Dægurflugunni, sem stendur að tónleikum í Eldborgarsal Hörpu á sunnudag með Álftagerðisbræðrum. Nær uppselt er á tvenna tónleika, kl. 16 og 20, en aukatónleikum var skellt á skömmu eftir að miðar á kvöldtónleikana kláruðust.

Sérstakir gestir með hinum sívinsælu söngbræðrum úr Skagafirði eru Diddú og Raggi Bjarna. Kynnir á tónleikunum verður Örn Árnason, og segir Einar aldrei að vita nema að hann eigi eftir að bresta í söng eins og oft áður. Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar leikur undir, ásamt Stefáni R. Gíslasyni, söngstjóra og undirleikara þeirra Álftagerðisbræðra allt frá því að þeir sungu fyrst saman opinberlega fyrir nærri 30 árum.

Að sögn Einars hefur verið ákveðið að efna til tónleika á Norðurlandi í lok maí. Fyrst munu bræðurnir koma fram í Miðgarði laugardagskvöldið 28. maí, ásamt hljómsveit og Erni Árnasyni, og daginn eftir verða tónleikar í Hofi á Akureyri. Þar verður dagskráin í Eldborg endurtekin ásamt öllum þeim listamönnum sem þar koma fram á sunnudaginn. Einar segir miðasölu vegna tónleikanna fyrir norðan fara af stað í næstu viku.

„Þeir bræður ná til mjög stórs hóps og eru, eins og þeir hafa sjálfir bent á, eina starfandi strákabandið í landinu,“ segir Einar Ólafur, léttur í bragði. bjb@mbl.is