Sigurður Helgi Guðjónsson
Sigurður Helgi Guðjónsson
„Það er talsvert um að fólk leiti til okkar vegna svipaðra mála,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, og vísar í máli sínu til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem skráðum eigendum íbúða á...

„Það er talsvert um að fólk leiti til okkar vegna svipaðra mála,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, og vísar í máli sínu til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem skráðum eigendum íbúða á Vatnsstíg 15, 19 og 21 í Reykjavík er óheimilt að reka gististað í séreignunum, en nágrannar kvörtuðu undan miklu ónæði á öllum stundum sólarhrings.

„Sú regla gildir í fjöleignarhúsum að eigandi má ráða yfir íbúð sinni og hvað hann gerir við hana, þ.e. hvort hann býr í henni sjálfur, leigir hana út eða þá hugsanlega hvort þar sé rekin einhver atvinnustarfsemi. Á móti koma svo hagsmunir annarra eigenda og að þeir verði ekki fyrir meira ónæði eða óþægindum en þeir hefðu mátt gera ráð fyrir,“ segir Sigurður Helgi og bendir á að í málum sem þessum sé uppi hagsmunamat.

Spurður hvort áðurnefndur dómur geti haft fordæmisgildi svarar hann: „Ég veit ekki hvort hægt sé að draga víðtækar ályktanir af þessum dómi. Þetta er jú niðurstaða sem tekur mið af aðstæðum þarna og því ekki víst að hægt sé að flytja það yfir á önnur hús.“ khj@mbl.is