LNS Saga hefur boðið lægst í mörg stærstu verkefnin á síðustu misserum.
LNS Saga hefur boðið lægst í mörg stærstu verkefnin á síðustu misserum. — Morgunblaðið/Júlíus
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Verktakafyrirtækið LNS Saga stundar undirboð á hæpnum forsendum að mati forstjóra Ístaks. Hann segir að ekki sé hægt að keppa á þeim grunni.

Verktakafyrirtækið LNS Saga hefur reynst hlutskarpast í samkeppni um nokkur stærstu framkvæmdaverkefni landsins á undanförnum mánuðum. Þetta sýna gögn sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Í samtölum Morgunblaðsins við samkeppnisaðila LNS Saga kemur fram að þeir treysta sér illa til að keppa við fyrirtækið á því verði sem það bjóði.

Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, segist undrandi á þessari stöðu. „Ég hef miklar áhyggjur af því að verið sé að nýta erlendar starfsmannaleigur og að látið sé líta út eins og um undirverktaka sé að ræða. Það má nota erlenda undirverktaka en þeir verða að vera sjálfstæðir í störfum sínum. Það er ekki sjálfstæður undirverktaki sem mætir bara með vinnuaflið á svæðið þar sem sá sem fær hann til verksins stýrir vinnunni, kemur með aðföngin og sér í raun um allt nema það sem snýr að vinnunni sjálfri? Að mínu mati er þar um að ræða notkun á starfsmannaleigu en ekki raunverulega undirverktöku.“

Í fyrrnefndum gögnum sem Morgunblaðið hefur undir höndum kemur fram að í nýlegu útboði sem tengdist uppslætti á stálgrind og klæðningu á stórhýsi sem nú er í byggingu, bauð LNS saga rúmar 516 milljónir í verkið. ÍAV, Ístak og fleiri aðilar buðu allir í sama verk um 600 milljónir eða meira.

„Þarna er um að ræða fremur einfalda framkvæmd og allir á þessum markaði vita hvar hægt er að kaupa stál og klæðningar á hagstæðasta verðinu. Eini munurinn getur falist í launakostnaði og eðlilegt gæti talist að það munaði um 5-7% á tilboðum milli aðila. Munurinn er hins vegar mun meiri. Við hefðum aldrei getað tekið þetta verkefni að okkur á þessu verði og það vekur eðlilega grunsemdir,“ segir Karl.

Hann segir að ef verktakar séu tilbúnir til að starfa á gráu svæði sé hægt að spara háar upphæðir, bæði í launum og þeim gjöldum sem greiða þarf til hins opinbera.

„Flestir verktakar nýta sér starfsmannaleigur núna þar sem það er þröngt um vinnuafl, en þær þurfa að vera skráðar á Íslandi og fara eftir íslenskri vinnulöggjöf. Þeir sem hins vegar skáka í skjóli erlendra fyrirtækja sem taka að sér undirverktöku geta lækkað tryggingagjald af launum úr 7,35%, sem við greiðum af launum okkar starfsfólks, niður í 0,425%. Þá er gjarnan spilað samkvæmt þeirri reglu að starfsmenn séu ekki lengur en 184 daga í landinu á hverju almanaksári og þá eru allir skattar greiddir til heimaríkisins en ekki hingað.“

Karl segir að lítið sem ekkert eftirlit sé með þessum málum hér á landi, þó að upp hafi komið mál eins og í tengslum við framkvæmdir á Þeistareykjum. „Þetta er slæmt, því ef við ætlum að halda velli í samkeppninni þá erum við í raun þvingaðir út á þetta gráa svæði. Þar viljum við ekki starfa.“