Moggafólk Gunnlaug Dröfn Pálsdóttir blaðberi og börnin hennar þrjú, Þórey Kristín, Þyrnir Hálfdan og Bergljót Sóley, sem öll eru Þyrnisbörn.
Moggafólk Gunnlaug Dröfn Pálsdóttir blaðberi og börnin hennar þrjú, Þórey Kristín, Þyrnir Hálfdan og Bergljót Sóley, sem öll eru Þyrnisbörn. — Morgunblaðið/Eggert
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Blaðburðurinn er starf margra kosta,“ segir Gunnlaug Dröfn Pálsdóttir í Mosfellsbæ.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Blaðburðurinn er starf margra kosta,“ segir Gunnlaug Dröfn Pálsdóttir í Mosfellsbæ. Það var í nóvember 2013 sem sonur hennar, Þyrnir Hálfdan, byrjaði að bera út Morgunblaðið og var móðirin honum þá til halds og trausts. Mál þróuðust hins vegar mjög fljótlega á þann veg að Gunnlaug tók við blaðburðinum og börnin hennar þrjú hafa aðstoðað móður sína, þegar svo ber undir.

Hjá Árvakri gildir að á höfuðborgarsvæðinu á Morgunblaðið að hafa borist áskrifendum fyrir klukkan sjö á morgana. Blaðberarnir þurfa því að vera árrisulir og velvakandi.

Gönguferð með hundinn

„Ég legg gjarnan af stað upp úr klukkan fimm á morgnana og þeta er virkilega hressandi. Maður fær hreyfingu og súrefni í lungun, skrifstofukonan heldur sér í formi og svo skilar þetta svolitlum aur. Þetta er ágæt aukabúgrein. Já, og fyrir hundaeigendur er þetta fínt, þarna tek ég mína daglegu gönguferð með hundinn svo hér er margt í sama pakkanum,“ segir Gunnlaug, sem í föstu starfi annast blaðburð við Tröllateig og Skálatún.

„Við fjölskyldan höfum reyndar gripið í útburð í fleiri hverfum hér í Mosfellsbæ. Held að við séum búin að bera út í öllum hverfunum nema Helgafellslandi, sem enn er í uppbyggingu. Einhverju sinni þegar Mogginn var í aldreifingu vorum við með 1.200 blöð. Það var algjört met.“

Gerum vel við okkar fólk

Vorið er besti tími blaðberans, segir Gunnlaug og bætir við að stundum setji hálfgerðan hroll að sér þegar hún arki út í myrka vetrarnóttina, þegar snjór sé yfir öllu og fljúgandi hálka.

„En núna þegar komið er fram í apríl er þetta fínt. Það er yndislegt að ganga í kyrrðinni og sjá sólina koma upp svo að umhverfið verður allt í póstkortalitlum,“ segir blaðberinn.

Að sögn Arnar Þórissonar, dreifingarstjóra Árvakurs, er alltaf þörf á röskum blaðberum í sveit fyrirtækisins.

„Oft erum við með laus hverfi, bæði til lengri tíma og í afleysingum í nokkra daga eða lengur eftir atvikum. Við gerum vel við okkar fólk, sem meðal annars bjóðast ýmis fríðindi og afslættir í gegnum blaðberaklúbb. Blaðberarnir eru á öllum aldri. Gjarnan er þetta ungt fólk, en fullorðnum í liðinu fer fjölgandi; fólki sem finnst fínt að taka líkamsræktina árla dags og fá laun fyrir,“ segir Örn Þórisson.