— AFP
Fyrr í vikunni tilkynnti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hún hefði lokið úttekt sinni á íslensku efnahagslífi þetta árið. Byggðist úttektin meðal annars á tveggja vikna fundahöldum með öllum þeim sem máli skipta að mati sjóðsins.

Fyrr í vikunni tilkynnti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hún hefði lokið úttekt sinni á íslensku efnahagslífi þetta árið. Byggðist úttektin meðal annars á tveggja vikna fundahöldum með öllum þeim sem máli skipta að mati sjóðsins.

Niðurstöður sjóðsins voru athyglisverðar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi segja fulltrúar hans að þróttur íslensks efnahagslífs sé með miklum ágætum og á traustari stoðum en áður fyrr. Í öðru lagi segir hann að Seðlabankinn eigi að halda fast við áform sín um vaxtahækkanir ef aðstæður kalli á og megi ekki hlusta á úrtöluraddir hvað þau mál varðar. Þá segir sjóðurinn að hætta sé á ofhitnun í hagkerfinu og að nýundirritaðir kjarasamningar séu ógn við efnahagslegan stöðugleika. Þá segir sjóðurinn einnig að ríkisvaldið ætti að fara sér hægt við að losa um ógnarstóran hlut sinn í íslensku viðskiptabönkunum og að best væri að fá erlenda stórbanka með gott orðspor til að kaupa þá.

Nú er það svo að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lifa og hrærast í heimi þar sem banka ber oft á góma. Þeir þekkja því sögu þeirra stofnana ágætlega og vita því að rétt eins og íslensku bankarnir, lentu hundruð banka um víða veröld í miklum hremmingum fyrir örfáum árum. Orðspor þeirra allra beið hnekki og kerfið í heild fékk á sig fremur ljótan stimpil.

Af þessum sökum, og reyndar fleirum, hefði Innherji mikinn áhuga á að fá lista frá sendinefndinni góðu yfir þá erlendu banka sem njóta góðs orðspors og gætu því uppfyllt hina huglægu kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum efnum. Sá listi gæti orðið þunnur þrettándi, alltént í augum almennings. Helst væri að finna einstaka banka á Norðurlöndum sem risið gætu undir kröfunum. Í þann flokk félli eflaust ekki Danski banki þó starfsmenn hans, fyrrverandi og núverandi, njóti hjá mörgum hérlendum nokkurrar aðdáunar.