Útboð Umsvif hafa aukist í byggingaiðnaði og skortur á vinnuafli.
Útboð Umsvif hafa aukist í byggingaiðnaði og skortur á vinnuafli. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Forstjóri Ístaks lýsir þungum áhyggjum af meintri notkun verktakafyrirtækja á vinnuafli sem sótt er í gegnum útlendar starfsmannaleigur.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Forstjóri Ístaks lýsir þungum áhyggjum af meintri notkun verktakafyrirtækja á vinnuafli sem sótt er í gegnum útlendar starfsmannaleigur. Segir hann að brögð séu að því að vinnuafl sem komi til landsins í gegnum erlendar starfsmannaleigur sé munstrað upp sem undirverktakar við stórverkefni. Þannig geti verktakar undirboðið aðra á markaði og náð stórum verkefnum til sín.

Í gögnum sem Morgunblaðið hefur undir höndum kemur fram að eitt og sama verktakafyrirtækið, LNS Saga, sem er í eigu norska verktakafyrirtækisins Leonhard Nilsen & Sønner AS, hefur hreppt nokkur af allra stærstu verkefnunum sem boðin hafa verið út í landinu á undanförnum misserum. Það á meðal annars við um stórframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar við Þeistareyki og byggingu Nýja Landspítalans á nýju sjúkrahóteli við spítalann.

Morgunblaðið bar gögnin undir Karl Andreassen, forstjóra Ístaks, sem bauð í byggingu sjúkrahótelsins og spurði hann út í hvað orsakaði hið lága verð sem LNS Saga hefur boðið.

„Það er erfitt að segja en í verkefnum sem við höfum boðið í og ekki fengið hafa tilboð þessa fyrirtækis sem þú nefnir komið okkur verulega á óvart. Í einu tilviki, sem í grunninn er einfalt verkefni, getum við með engu móti skilið hvernig hægt er að bjóða þetta verð. Þar getur aðeins einn þáttur haft veruleg áhrif og það er launaþátturinn.“

Karl segir að hann og fleiri aðilar á markaðnum hafi áhyggjur af stöðu mála og að þeir óttist að verið sé að nýta erlendar starfsmannaleigur í skjóli undirverktaka.

„Flestir verktakar nýta sér starfsmannaleigur núna þar sem það er þröngt um vinnuafl, en þær þurfa að vera skráðar á Íslandi, fara eftir íslenskum kjarasamningum og vinnulöggjöf. Þeir sem hins vegar skáka í skjóli erlendra fyrirtækja sem taka að sér undirverktöku geta lækkað tryggingagjald af launum úr 7,35%, sem við greiðum af launum okkar starfsfólks, í 0,425%. Þá er gjarnan spilað samkvæmt þeirri reglu að starfsmenn séu ekki lengur en 184 daga í landinu á hverju almanaksári og þá eru allir skattar greiddir til heimaríkisins en ekki hingað,“ segir Karl.

Karl segir að lítið sem ekkert eftirlit sé með þessum málum hér á landi og að hætt sé við að fyrirtæki sem standi í harðri samkeppni færi sig í ríkara mæli út á gráa svæðið í þeirri von að hreppa verkefni sem þau bjóði í en það sé afar óheppileg þróun.