[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af þorski Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Galsafengin hróp og köll kveða við í hressandi hafgolunni á bryggjunni. „Fik du ikke haill“! er hrópað. Dátt er hlegið og ýmsar athugasemdir fylgja í kjölfarið.

Af þorski

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Galsafengin hróp og köll kveða við í hressandi hafgolunni á bryggjunni. „Fik du ikke haill“! er hrópað. Dátt er hlegið og ýmsar athugasemdir fylgja í kjölfarið. Síðar í þessari grein verður útskýrt hvað haill er. Það er laugardagsmorgunn og fiskimenn, konur og karlar á ýmsum aldri í skærlitum sjófatnaði, standa bísperrtir um borð í bátum af öllum stærðum og gerðum sem halda til hafs. Þarna er meira að segja lítið víkingaskip.

Svona hefst heimsmeistarakeppnin í sjóstangaveiði sem haldin er á hverju ári í bænum Svolvær í Lofoten í Norður-Noregi. Keppnin er yfirleitt haldin í lok mars eða byrjun apríl og keppt er um að veiða þyngsta þorskinn. Í ár var keppnin haldin dagana 1. og 2. apríl, um 600 tóku þátt og hún laðar að sér mikinn fjölda – bæði Norðmenn og fólk víða að úr heiminum. Sumir eru ástríðufullir veiðimenn en aðrir vilja bara komast í stuðið og stemninguna sem fylgir keppninni. Greinarhöfundur er í síðarnefnda hópnum.

Á norsku heitir keppnin VM i skreifiske, en þetta heiti er notað um þorskinn þegar hann kemur að Noregsströndum norðan úr Barentshafi til að hrygna. Orðið skrei þýðir að flakka á norsku og það mætti þá líklega tala um flökkuþorsk á íslensku. Um 40% þorska í þorskstofninum við Noregsstrendur hrygna á Lofoten-svæðinu og stendur hrygningartímabilið yfir frá febrúar fram í apríl. Þorskur í þessu ástandi er jafnan stærri en hann er annars og þykir einkar gómsætur, enda segjast heimamenn bíða komu flökkuþorsksins með eftirvæntingu.

Naktir karlar í glugga

Í Svolvær búa um 5.000 manns en þessa einu helgi á ári tvöfaldast íbúafjöldinn. Öll hótelherbergi í bænum eru bókuð mörgum mánuðum fyrr og á bílaplönum eru húsbílar ferðalanga. Að sögn bæjarbúa aukast vinsældir keppninnar ár frá ári og þykir sumum nóg um, enda er fjöldi þátttakenda takmarkaður og geta því ekki allir áhugasamir heimamenn tekið þátt. En það kemur ekki í veg fyrir að þeir taki vel á móti gestum og undirbúningur og störf við keppnina eru að mestu unnin í sjálfboðavinnu. Þetta er samfélagsverkefni sem allir hagnast á.

Bæjarbúar og gestir þeirra horfa á eftir fiskimönnunum á haf út. Þeirra er að vænta í land um miðjan dag og fólk fer að tínast burt af bryggjunni. Sumir fara heim til sín, aðrir hafa einhverjum störfum að gegna og enn aðrir fara í stórt hátíðatjald sem sett hefur verið upp skammt frá. Blaðamaður fer þangað í fylgd heimamanna og á þessari stuttu leið ber ýmislegt fyrir augu. Nokkrir karlmenn standa hlæjandi innan við opinn glugga á hótelherbergi og kalla spaugsyrði til vegfarenda. Ekki verður betur séð en að þeir standi þar allsnaktir. Roskinn karl, klæddur einhverju sem virðist vera þorskabúningur, hoppar um. Kátir krakkar í lopapeysum og með blöðrur. Það er karnivalstemning í litla bænum á 68. breiddargráðu.

Í tjaldinu hefur verið komið fyrir borðum og bekkjum og þar er fiskimannanna beðið með eftirvæntingu. Margir sötra einn eða jafnvel tvo bjóra og svo skemmtilega vill til fyrir íslenskan blaðamann að þarna er á borðum bjór af tegundinni Lofotpils sem er bruggaður af fyrirtæki í eigu Íslendingsins Þorvarðar Gunnlaugssonar. Sérréttir landsvæðisins, fiskisúpa og labskovs, sem er kjötkássa með kartöflum og ýmsu grænmeti, renna ljúflega niður í maga og margir fá sér líka lofotenlefsu, sem er þunn pönnukaka með kanil og smjöri. Það er sungið, spilað og leikið á hljóðfæri. Drykkjuvísur eru sungnar og blaðamaður kemst að þeirri niðurstöðu að þær hljóti að vera hluti af samnorrænum menningararfi því Lofoten-búar syngja sömu vísurnar og gjarnan eru kyrjaðar á íslenskum mannamótum. Lag sem er næstum því eins og Kátir voru karlar er næst á dagskrá og blaðamaður syngur bara íslenska textann með. Det var brændevin i flasken er sungið a.m.k. sex sinnum og sífellt bætist við í tjaldið.

Jæ-jæ-jibbý-jibbý-jæ. Mikið er gaman í Lofoten.

Kaffiþorskar og aðrir þorskar

Se torsken. Se torsken. Sjáið þorskinn. Sjáið þorskinn. Nú er sungið hástöfum þorskinum til dýrðar og til að heiðra hann enn frekar er klappað og stappað. Allir eru glaðir.

Og nú fer veiðimennina að drífa að. Þeir koma inn í skemmu, sem er við veislutjaldið, þar taka fiskmatsmenn á móti þeim og vigta fiskinn. Allir þorskar sem eru 30 kíló eða þyngri fá nafnbótina Kaffetorsk, eða kaffiþorskur. Þessi nafngift er runnin undan rifjum dagblaðsins á staðnum, Lofotposten, sem gefur hverjum þeim sem veiðir svo þungan þorsk eitt kíló af kaffi. Annað heiti fyrir stóran þorsk er leiðsöguþorskur, en sagan segir að stóru þorskarnir vísi þeim minni veginn um ólgandi úthöfin að Noregsströndum.

Þegar búið er að vigta fiskinn er hann hausaður, slægður og flakaður og að því loknu er hægt að kaupa hann eftir vigt. Ekki amalegt að fá nýveiddan flökkuþorsk í matinn. Það er handagangur í öskjunni, menn eru greinilega ekki að gera að fiski í fyrsta skiptið og gamanyrðin fljúga á milli.

„Ég veit af hverju þorskurinn þinn er svona stór,“ segir skeggjaður karl í appelsínugulum smekkbuxum við einn veiðimannanna. „Þú fékkst haill!“ Og nú er kominn tími til að útskýra þetta orð – haill.

Að sögn heimamanna þótti það, og þykir enn, gæfumerki fyrir sjómenn að njóta hvílubragða áður en þeir fara til veiða. Sé þessi athöfn framkvæmd áður en haldið er til hafs heitir hún haill. Í gegnum tíðina hafa orðið til ýmis afbrigði af haill. Til dæmis er talað um ferskt haill hafi viðburðurinn átt sér stað 0 til 48 klukkustundum áður en farið var út á sjó. Miðaldra haill er 48 til 72 tíma gamalt og gamalt haill er eldra en 72 klukkustunda. Reyndar er síðarnefnda skilgreiningin líka notuð þegar rekkjunautur sjómannsins er meira en 20 árum eldri en hann.

Fiskur í poka á fínu hóteli

En gleðin er ekki á enda þó að fiskurinn sé kominn í land. Margir fara til síns heima til að skipta um föt fyrir kvöldið, því þá heldur skemmtunin áfram ýmist í heimahúsum, á veitingastöðum eða á hótelum. Langfjölsóttasta skemmtunin verður á stærsta hóteli bæjarins, Thon Hotel Lofoten.

Blaðamaður lætur sitt ekki eftir liggja í gleðinni og heldur þangað. Í stórum sal á þessu nýja og glæsilega hóteli stendur hljómsveit á sviði og spilar hressa norska danstónlist. Dansgólfið er fullt og gestir eru á öllum aldri, af öllum stærðum og gerðum. Reyndar rekur blaðamann ekki minni til þess að hafa séð svo fjölbreyttan hóp samankominn á balli. Sumir eru ennþá í skærlitum sjófatnaði og hafa jafnvel feng dagsins meðferðis þannig að á víð og dreif má sjá blóðgaðan þorsk í glærum plastpokum. Veiðistangir hallast upp að veggjum eða liggja á mjúkum flauelssstólum á þessu glæsilega hóteli. Þetta þætti fremur ankannalegt við flestar aðrar aðstæður en hérna smellpassar þetta.

Sífellt skemmtilegra

Daginn eftir fer blaðamaður í hressingargöngu um bæinn í fylgd með heimamanni. Margir eru á ferli, enda Norðmenn annálað útivistarfólk. Ekki er annað að skilja af bæjarbúum en að þeir telji gærkvöldið vel heppnað.

Blaðamaður er spurður hvort hann hafi skemmt sér vel og svarar því játandi. „Það verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra með hverju árinu,“ fullyrðir einn Svolvær-búi. „En það er bara ein leið fyrir þig að sannreyna það – þú verður að koma aftur á næsta ári!“

Og hver vann svo keppnina? Það var nýgræðingur í sjóstangaveiði; Norðmaður að nafni Rune Haukom, og vinningsþorskurinn vóg 21,8 kíló. Dagblaðið Lofotposten spurði hvort hann hefði fengið haill fyrir keppnina. „Því svara ég ekki,“ sagði hann hlæjandi.